„Ein stétt stelur eignum annarrar“

Þorsteinn Pálsson

Lækkun á gengi krónunnar „skýrist ekki síst af aukinni sókn í öruggari eignir og gjaldmiðla sem jafnan eru eftirsóttir á tímum mikillar óvissu.“

Þessa túlkun á falli krónunnar er ekki að finna í áróðursplöggum um stöðugan og réttlátan gjaldmiðil frá Viðreisn eða Samfylkingu. Hún birtist í lok síðustu viku í greinargerð fjármálaráðuneytisins um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta.

Lýsing Péturs Benediktssonar

Þetta eru heldur ekki ný sannindi. Í greinasafni frá 1959 kemst Pétur Benediktsson bankastjóri Landsbankans þannig að orði um millilið allra milliliða:

„Sem gjaldmiðill hefir hann ekki svikið okkur, en menn eru að verða tortryggnari og tortryggnari við hann, þegar hann býðst til þess að geyma fyrir þá verðmætin.

Og í þriðja hlutverkinu er hann orðinn áttavilltur, þegar hann á að leiðbeina þjóðinni um hina arðsömu verkaskiptingu.“

Þrátt fyrir miklar þjóðfélagsbreytingar stendur þessi lýsing óhögguð. Fjármálaráðuneytið er einfaldlega að staðfesta að tortryggnin gagnvart íslensku krónunni er ævinlega til staðar.

Í sama riti segir Pétur Benediktsson að verðrýrnun peninganna og verðbólga hafi verið skýrgreind þannig „að ein stétt þjóðfélagsins væri að stela eignum annarrar. (Á nútímamáli væri það þó líklega kallað „eignatilfærsla milli stétta“).“

Þessi túlkun er líka jafn gild nú sem þá.

Millistéttin á Íslandi fer verr út en í Danmörku

Í greinargerð fjármálaráðuneytisins er birt súlurit, sem sýnir breytingu nokkurra gjaldmiðla gagnvart dollara á þessu ári. Þar kemur fram að gjaldmiðlar Rússlands og Tyrklands hafa rýrnað heldur meira en íslenska krónan. Evran hefur aftur á móti styrkst.

Hvað þýðir þetta, þegar við berum til dæmis saman efnahagsleg áhrif kórónuveirunnar hér og í Danmörku? Danska krónan er fasttengd evru.

Bæði löndin verða fyrir miklum samdrætti. Ríkissjóðir beggja landa styðja fyrirtæki og launafólk með fordæmalausum ráðstöfunum. En munurinn er sá að hér er fjármunum stolið frá millistéttinni og þeim sem lakast standa og þeir færðir útflytjendum og þeim sem eiga erlendan gjaldeyri.

Með öðrum orðum: Millistéttin og þeir lakast settu fara verr út úr kreppunni hér en í Danmörku, vegna krónunnar.

Hvers vegna?

Er eitthvað við íslenskan þjóðarbúskap, sem gerir það að verkum að almenningur verði óhjákvæmilega að bera þyngri byrðar hér en í Danmörku?

Við þurfum ekki að líta lengra en til Færeyinga. Atvinnulíf þeirra er einhæfara en okkar. Krónan þeirra er tengd evru í gegnum þá dönsku. Þeir fara því eins og Danir í gegnum kreppuna án þess að leggja þessar viðbótarbyrðar á almenning.

Svarið við spurningunni er því: Nei.

Ástæðan liggur ekki í sérstöku eðli þjóðarbúskaparins. Hún liggur fyrst og fremst í þeirri pólitík að taka hagsmuni hinna fáu fram fyrir almannahag.

Sjálfskipuð gjaldeyriskví = höft

Í greinargerð fjármálaráðuneytisins um afnám hafta er ekkert getið um samkomulag Seðlabankans við lífeyrissjóðina um að kaupa ekki erlendan gjaldeyri um sinn. Það hefur nú verið framlengt um þrjá mánuði.

Þetta eru þó í raun gríðarlega umfangsmikil ný gjaldeyrishöft. Það má bara ekki nota það hugtak. Kannski er betra að tala um sjálfskipaða gjaldeyriskví.

Henni er ætlað að koma í veg fyrir enn meira hrun krónunnar. Trúlega hefði gjaldeyriskvíin verið ákveðin með lögum, ef ekki hefði samist. En eins og önnur höft eyðileggur hún markaðs-verðmyndun á krónunni.

Lítið er því vitað um raunverulegt verðgildi hennar. Eitt er þó víst að skráð gengi segir ekki mikið um veruleikann.

Innbyggt ranglæti

Gjaldeyriskvíin þrengir bara að hagsmunum almennings, sem á réttindi í lífeyrissjóðunum. Allir aðrir, sem aðstöðu hafa, geta farið að eins og fjármálaráðuneytið lýsir og komið fjármunum sínum fyrir í öruggari gjaldmiðlum.

Það frjálsræði er ekki talið ógna verðgildi krónunnar. En það lýsir vel innbyggðu ranglæti krónuhagkerfisins. Ein stétt er að stela eignum annarrar, eins og Pétur Benediktsson orðaði það á sínum tíma.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. júní 2020