12 jún Kjúklingar og fullveldi
Álaugardaginn var, þegar sjötíu og sex ár voru liðin frá innrás bandamanna í Normandí, greindi danska ríkisútvarpið frá því að breska ríkisstjórnin hefði fallist á innflutning á klórþvegnum kjúklingum og hormónabættu kjöti í fríverslunarviðræðum við Bandaríkin. Bresku blöðin The Telegraph og Financial Times upplýstu þetta nokkrum dögum fyrr.
Þetta teldist varla til tíðinda nema fyrir þá sök að breski Íhaldsflokkurinn gerði klórlausa kjúklinga að einskonar tákni fyrir fullveldi Stóra-Bretlands. Síðast í janúar gaf umhverfisráðherra Breta út yfirlýsingu um að varðstaðan um þetta fullveldismál yrði aldrei yfirgefin.
Stór orð kokgleypt
Brexit byggðist á þeirri kenningu að Evrópusambandsaðild fæli í sér afsal á fullveldi. Af sjálfu leiddi að full yfirráð í eigin málum yrðu aðeins tryggð með tvíhliða viðskiptasamningum.
Fríverslunarsamningur við Bandaríkin átti að leysa fjölþjóðasamvinnu Evrópuríkja af hólmi. Þá komu kjúklingarnir til sögunnar. Evrópureglur um matvælaöryggi eru nefnilega um sumt strangari en bandarískar reglur.
Neytendur og bændur fóru allt í einu að spyrja hvort það sem menn á endanum hefðu upp úr krafsinu yrði innflutningur á klórþvegnum kjúklingum og hormónabættu kjöti.
Núverandi forsætisráðherra drekkti þessum efasemdum með hástemmdu loforði um að það skyldi aldrei verða. Trump stjórnin hefur nú knúið forsætisráðherrann til þess að kokgleypa stóru orðin.
Í staðinn mun breska stjórnin biðja um að fá að halda framhjá prinsippinu um tollfrjálsa fríverslun með því að leggja smávægilegan toll á klórþvegna kjúklinga og hormónabætt kjöt, sem óvíst er hvort Bandaríkin fallast á. Prinsippin fjúka sem sagt í allar áttir.
Lögmál tvíhliða samninga
Kjarninn í brexit hugmyndafræðinni var að nýta stöðu Breta sem fimmta stærsta efnahagsveldi heims til þess að ráða því sem þeir vildu í samningum við aðrar þjóðir. Samningar, sem breska stjórnin hefur gert við Ísland, Noreg og Liechtenstein, sýna að þessi kenning gengur vel upp þegar minni ríki eiga í hlut.
Lögmálið snýst hins vegar gegn Bretum þegar kemur að samningum við Bandaríkin, stærsta efanhagsveldi í heimi. Stefna Trump stjórnarinnar um tvíhliða samninga í stað fjölþjóðasamvinnu miðar að því að nýta þá yfirburði til fulls. Þess vegna þarf fimmta stærsta efnahagsveldi í heimi að fórna fullveldisprinsippinu um klórlausa kjúklinga.
Fyrir brexit lutu Bretar samevrópskum reglum um matvælaöryggi, sem þeir áttu sjálfir þátt í að móta. Eftir Brexit eru það Bandaríkin, sem ákveða reglurnar um matvælaöryggi fyrir Breta. Svo einfalt er það.
Snerist brexit um fullveldi?
Tvö dæmi um íslenska reynslu
Við þekkjum viðlíka dæmi úr sögu okkar.
Skömmu eftir að Ísland varð fullvalda ríki ákvað ríkisstjórn Spánar að Alþingi Íslendinga yrði að falla frá lýðheilsuákvörðun um vínbann, sem lögfest hafði verið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var forsenda fyrir því að hefja mætti viðræður um saltfisksölu.
Spánverjar nýttu sér einfaldlega sterkari stöðu samkvæmt lögmáli tvíhliða samninga. Nýfengið fullveldi Íslands breytti engu þar um.
Þegar Ísland hafði átt aðild að innri markaði Evrópusambandsins í hálfan annan áratug reyndu Bretar að neyta aflsmunar í tvíhliða samningum landanna vegna deilu um ríkisábyrgð á Icesave-reikningunum. Sá ágreiningur endaði fyrir EFTA-dómstólnum.
Þar gat Ísland varið rétt sinn með skírskotun í samevrópskar reglur. Staða Íslands var allt önnur og sterkari en níutíu árum fyrr vegna aðildar að innri markaði Evrópusambandsins.
Hvað ef …?
Fyrir áratug flutti Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra, ásamt fleiri þingmönnum núverandi þriggja ríkisstjórnarflokka, tillögu á Alþingi um fríverslun við Bandaríkin. Þar var sérstök áhersla lögð á fríverslun með landbúnaðarvörur.
Tillagan var hugsuð sem krókur á móti bragði vegna viðræðna um fulla aðild að Evrópusambandinu, sem þá fóru fram. Flutningsmennirnir töldu þær vera ögrun við fullveldið.
Hefði tillagan verið framkvæmd væri Ísland sennilega í þeirri stöðu nú að geta deilt reynslusögum til Breta um fullveldi, klórþvegna kjúklinga og hormónabætt kjöt.