Virðing

Benedikt Jóhannesson

Einu sinni kynntist ég fyrirtæki þar sem agi var mikill, reglur um snyrtilegan klæðaburð, mætingar og viðveru strangar og áhersla lögð á að starfsmenn virtu verkferla og lykju verkefnum. Reksturinn gekk ágætlega, en mér fannst reglurnar allt of stífar fyrir minn smekk, nýkominn úr akademísku frelsi þar sem menn máttu haga sér eins og þeim sýndist. Ég spurði starfsmann hvort fólki fyndist ekki þrúgandi að vinna við slíkar aðstæður. Svarið kom mér á óvart.

„Nei“, sagði hann. „Við sjáum að reglurnar gilda um alla, yfirmenn gera sömu kröfur til sín og annarra. Hér eru engar prímadonnur, engir séra Jónar.“ Þetta reyndist  viðhorf flestra starfsmanna. Þeim þótti vænt um fyrirtækið sitt og það naut velgengni.

Líklega eru fáar atvinnugreinar sem fólk hefur meiri skömm á en stjórnmál. Flestir Íslendingar eru sammála um að Trump Bandaríkjaforseti sé einhver mesti kjáni sem sest hefur á valdastól hin seinni ár. Bandaríkjamenn eru þó ekki sama sinnis. Trump hélt að Finnland væri hluti Rússlands, hann talar um konur með niðrandi hætti og finnist að það sé „ágætis fólk“ í haturssamtökum. Samt hefur fylgi hans aldrei farið niður fyrir 35% á kjörtímabilinu.

Víkur þá sögunni til Íslands þar sem aðeins 23% þjóðarinnar bera mikið traust til Alþingis. Ekki þarf að horfa lengi á umræður frá Alþingi til þess að sjá að margir þingmenn mættu taka þingfundi hátíðlegar. Ég er einn þeirra sem telur að fólk eigi að klæða sig sparilega í þingsal og sýna Alþingi þannig virðingu. Verra er hve margar ræður eru illa undirbúnar, ræðumenn tafsa og tuldra, endurtaka sig og rekur í vörðurnar. Sumir koma aftur og aftur upp til þess að segja það sama – eða ekkert. Aðrir koma í ræðustól til þess að segja aulabrandara. Örfáir mæta helst aldrei. Stöku eru dónalegir og orðljótir.

Af kynnum mínum tel ég að Alþingismenn séu upp til hópa heiðarlegt fólk, sem mætti oftar vera sjálfu sér samkvæmt. Meginskýringin á vantrú fólks á þingmönnum er örugglega sú að þeir eru sjálfum sér verstir. Erfitt er að verjast brosi þegar VG-liðar tala með vandlætingu um málþóf stjórnarandstöðu, þingmenn sem árum saman töluðu mest en sögðu minnst á löggjafarsamkomunni. Í þingsal á ekki að vera samkeppni í því hver getur hneykslast mest, heldur vettvangur uppbyggilegra umræðna. En engum dettur neitt uppbyggilegt í hug meðan Miðflokksmenn mæra speki hvers annars í þingsal eða á öðrum vettvangi.

Meginvandi íslenskra stjórnmálamanna er þó hræðslan við að ná niðurstöðu og klára mál. Þeir ýta mikilvægum málum á undan sér: Markaðsgjald í sjávarútvegi, skynsamleg stjórnarskrá, jafn kosningaréttur, stöðugur gjaldmiðill. Þingmönnum er ókleift að klára þessi mál vegna þess að þau snerta jafnrétti og allra hag. Ekki sérhagsmuni.

Birtist í Morgunblaðinu 27. júní 2020.