Ákvarðanir í rusli

Benedikt Jóhannesson

Stutt saga af stjórnarfundi í stóru fyrirtæki. Þrjú mál lágu fyrir:

1.     Bygging nýrra höfuðstöðva. Áætlaður kostnaður 20 milljarðar. Samþykkt samhljóða eftir fimm mínútna framsögu forstjóra.

2.     Nýtt merki fyrirtækisins. Metinn kostnaður við hönnun og kynningu 350 milljónir. Rætt í hálftíma og svo samþykkt gegn því skilyrði að kostnaðurinn væri að hámarki 300 milljónir.

3.     Auglýsing á búningi íþróttafélags. Útgjöld 3 milljónir. Langar umræður og málinu loks frestað til næsta fundar.

Því miður höfum við Íslendingar úr nógu að velja þegar flaustursleg stefna leiðir til stórútgjalda, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Hafi einhver gleymt þeim er auðvelt að minna á nokkur dæmi: Bragginn dýri (400 milljónir), eftirgjöf lendingargjalda til WOW (2 milljarðar) og ný gas – og jarðgerðarstöð Sorpu á Álfsnesi (5-6 milljarðar). Er þá fátt eitt talið.

Langmest er talað um það sem minnst kostaði, 400 milljóna braggann (og mest um dönsk strá á 757 þúsund krónur). Ástæðan er sú að almenningur og stjórnmálamenn eiga auðveldast með að skilja þær tölur. Ferlið við braggann var síst til fyrirmyndar, en skoðum núna Sorpuverksmiðjuna.

Úr fréttum RÚV 22.3.: „Sorpa hefur enn ekki fundið kaupendur fyrir 3 milljónir rúmmetra af metangasi og 12 þúsund tonn af moltu sem ný gas – og jarðgerðarstöð á Álfsnesi mun framleiða á ári. Það kostaði rúma fimm milljarða að byggja stöðina. … Framkvæmdakostnaður var [mjög] vanáætlaður, meðal annars vegna þess að verkið var boðið út áður en búið var að hanna stöðina.“ Nýr forstjóri lét þess getið að hann hefði „trúlega hugað að“ samningum um sölu á framleiðslunni áður en farið var af stað, hefði hann þá verið við stjórnvölinn. Miklar efasemdir eru um að besta tæknilega lausnin hafi verið valin.

Sorpa er rekin af sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Oft er spurt hver beri ábyrgðina þegar teknar eru dýrar ákvarðanir sem ekki ganga upp. Í byggðasamlögum, þar sem stjórnin er valin af sveitarfélögunum, finnst stjórnmálamönnum svarið einfalt: Enginn. Eða í versta falli hinir. Í ársreikningi 2019 getur pólitísk stjórn um óvissu vegna Covid-19, en þar er ekki orð um urðunarstöðvarklúðrið.

Enginn markaður, flaustursleg hönnun, úrelt tækni, milljarða útgjöld. Auðvitað liggur ábyrgðin hjá Sjálfstæðisflokknum sem stýrir fimm af sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og meirihlutanum sem var í Reykjavík þegar samþykkt var að reisa verksmiðjuna.

Viðreisn var stofnuð til þess að breyta verklagi. Besta vörn gegn mistökum er vandaður undirbúningur, skipuleg vinnubrögð og gagnsæi á öllum stigum. Allt þetta virðist hafa skort hjá stjórnmálamönnunum sem stýrðu Sorpu.

Í stjórnmálum verða menn fljótt samdauna hinum. Á vakt Viðreisnar vinnum við öðruvísi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. júlí 2020