02 júl Fýsn til forræðishugsunar
Ímynd VG og Sjálfstæðisflokks var vissulega ólík, þegar til núverandi stjórnarsamstarfs var stofnað. Lykillinn að lausninni fólst í sátt um kyrrstöðu. En samstarfið hefur svo sýnt að flokkarnir eru ekki í reynd eins fjarri hvor öðrum og margir ætluðu.
Að einhverju leyti má segja að íhaldssamir armar í báðum flokkum hafi náð vel saman. Á milli þeirra þurfti hreint ekki miklar málamiðlanir.
Ofsagt væri að engar hugmyndafræðilegar breytingar hefðu átt sér stað á kjörtímabilinu. Að sönnu hafa hvorki verið stigin ný skref til aukins frjálsræðis, né ríkari þátttöku í fjölþjóðasamvinnu. En merki um nokkra fýsn til forræðishyggju eru smám saman að koma í ljós.
Heilbrigðiskerfinu „bjargað frá ásælni peningaaflanna“
Heilbrigðismálin eru fyrsta dæmið um þetta. Ísland hefur lengi byggt heilbrigðiskerfið á svipaðri hugmyndafræði og önnur Norðurlönd. Kjarninn í henni er jafn aðgangur allra, án verulega íþyngjandi kostnaðar.
Opinberar heilbrigðisstofnanir hafa réttilega verið uppistaðan í þessu mikilvæga, samfélagslega gangverki. En samhliða hefur rekstur einkaaðila gegnt veigamiklu hlutverki.
Í umræðum um fyrstu stefnuræðu forsætisráðherra gerði heilbrigðisráðherra grein fyrir hugmyndafræðilegum grundvelli samstarfsins í heilbrigðismálum. Hún sagði þar að hann fælist í þeirri kerfisbreytingu að bjarga þeim „frá ásælni peningaaflanna í landinu.“
Þessu hafa allir þingmenn stjórnarflokkanna þriggja fylgt fast og þétt eftir með góðri samstöðu og eindrægni. Þó er heimilt að blóta á laun ef aðgerðir fara fram í útlöndum.
Meiri trú á ríkisforsjá í loftslagsmálum, en almenna hvata
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum lýsir metnaðarfullum markmiðum, sem ætlunin er að ná, bæði með opinberum aðgerðum og almennum hvötum. Hvort tveggja er nauðsynlegt. En hlutfallið þarna á milli í áætluninni, er nýtt dæmi um að ríkisstjórnarflokkarnir virðast hafa meiri trú á opinberum verkefnum en almennum aðgerðum.
Í áætluninni má sjá kolefnisgjald, urðunarskatt og afslátt af sköttum til að örva grænar lausnir. Þetta eru dæmi um almennar aðgerðir, sem hvetja eiga einstaklinga og fyrirtæki til þess að finna lausnir á markaði.
Umbreytingar í loftslagsmálum þurfa að stærstum hluta að gerast á vettvangi fyrirtækja. Almennir hvatar eru þar áhrifaríkasta og skjótvirkasta leiðin til að ná markmiðunum.
Vandinn er að almennir hvatar eru ekki nógu stór hluti af lausninni. Trúin á miðstýringu er of rík.
Sala á jörðum háð leyfi forsætisráðherra
Jarðakaup útlendinga á síðustu árum hafa vakið margs konar spurningar. Mega útlendingar eiga jarðir? Er rétt að fjársterkir aðilar geti átt stór landsvæði? Þarf að setja ríkari skyldur en nú er á landeigendur? Á að setja kvaðir um að nýta jarðir í sérstökum tilgangi?
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa viðurkennt að allt eru þetta áleitnar spurningar, sem pólitíkin þarf að svara. Það hafa þeir gert með nýjum lögum. Fá mál snerta meir grundvallarsjónarmið varðandi almannahagsmuni og eignarrétt.
Hér er það hugmyndafræði forsjárhyggjunnar, sem sameinar stjórnarflokkana þrjá, þegar umræður knýja þá til að svara spurningum. Sameiginleg lausn þeirra er að veita forsætisráðherra vald til að leyfa eða hafna aðilaskiptum að jörðum.
Stjórnarflokkarnir eru andvígir því að leysa þessi álitaefni með almennum reglum og leyfa síðan eigendum jarða, á þeim grundvelli, að ráðstafa eignum sínum á markaði eins og öðrum. Nú á ráðherra að ákveða hvaða viðskipti eru ríkisvaldinu þóknanleg.
Framhald á næsta kjörtímabili
Þau þrjú dæmi um forsjárhyggju, sem hér eru nefnd, snerta öll veigamikla þætti í þjóðarbúskapnum eins og heilbrigðismál, loftslagsmál og eignarréttindi.
Athyglisvert er að engin merki eru um að hugmyndatogstreita sé á milli stjórnarflokkanna þriggja um lausnir á forsjárhyggjugrundvelli, jafnvel þegar um er að tefla jafn mikilvæg viðfangsefni eins og í þessum tilvikum.
Í ljósi þess að kosningar eru að ári bendir þessi einhugur til að flokkarnir, sem að stjórninni standa, hyggist sameiginlega halda áfram að bjóða lausnir á grundvelli þessarar hugmyndafræði þegar þeir leita eftir áframhaldandi umboði kjósenda.