31 júl Látum ekki Sigmunda þess heims villa okkur sýn
Sumarið er tíminn er oft sagt og í ár hef ég verið staðráðin í að njóta þess til fullnustu. Eftir COVID-19 vorið, sóttkví og takmarkanir er frelsið svo sætt. Um síðustu helgi, rétt áður en ég hélt með góðum vinum upp á hálendi, rakst ég á grein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins um nýja menningarbyltingu.
Óborganlegt yfirlæti og lýðhyggja einkennir greinina þar sem okkur er sagt að réttindabarátta, í þessu tilfelli hreyfingar Black Lives Matters, feli í sér aukna kynþáttahyggju. Hann reynir að gera réttindabaráttu þeirra sem vilja bæta heiminn og vinna gegn kúgun og misrétti ótrúverðuga. Hann ber baráttu fyrir mannréttindum og jafnrétti saman við skelfilegt kúgunartímabil kínverskra maóista, þar sem milljónir voru kúgaðar og fjöldi fangelsaðir eða létust. Þessi söngur þeirra sem hafa völdin og vilja ekki sleppa þeim er gömul saga og ný en það er ekki hægt að sitja hjá og rausa við eldhúsborðið um lýðskrumið og vitleysuna, því svona skrif eru hættuleg.
Breytum samfélaginu til hins betra
Til að verja mín grunngildi, sem borgaralega frjálslynd kona sem trúir á réttlátt samfélag, jafnrétti og alþjóðlega samvinnu, þá get ég ekki setið á hliðarlínunni og látið mér duga að glotta yfir bullinu í Sigmundum þessa heims. Í skrifum sem þessum er vegið að þeim heimi sem ég vil verða partur af. Popúlisminn sem hér birtist heggur að því samfélagi sem við höfum unnið hörðum höndum að því að breyta í átt að, og eigum langt í land enn hvort sem það er í málefnum mannréttinda og jafnréttis fyrir alla.
Í lokaorðum segir Sigmundur: „Hugmyndir um að flokka beri fólk eftir litbrigðum húðarinnar. Þegar langt var komið með að útrýma þeirri bábilju er hún endurvakin og fólk aftur skilgreint út frá húðlit.“ Í hvaða heimi hefur hann búið? Trúir hann því í alvöru að við höfum verið komin í mark hvað varðar baráttu gegn kynþáttahyggju og almenn mannréttindi? „Nú þarf að standa vörð um grunngildi vestrænnar siðmenningar,“ herðir hann á hnútnum. Við erum sammála um að öll skulum teljast jafnrétthá, óháð líkamlegum einkennum og að það sé mikilvægt grunngildi vestrænnar menningar. Svo virðist hins vegar að þegar þeim hugsjónum er ekki fylgt, þá megi ekki berjast fyrir þeim án þess að Sigmundur sé mættur til að segja baráttuaðferð þeirra sem verða fyrir misréttinu ranga, of mikið á jaðrinum – ekki nógu þæga.
Mótmælum einsleitni, yfirgangi og hroka
Um leið og mér þykir vænt um þann vestræna heim sem ég hef búið í, þá vil ég breyta honum og gera hann betri. Ég vil að hinn vestræni heimur sé frjálslyndari, réttlátari, alþjóðlegri og grundvallist af jafnrétti í hvívetna. Við viljum ekki heim einsleitni, yfirgangs og hroka. Þeim heimi og þeirri sýn mun ég mótmæla harðlega og er í pólitík til að berjast gegn. Þar sem ég keyrði upp á fjöll til móts við jökla og sanda þá ræddum við vinirnir um mikilvægi þess að láta heyra í sér, mótmæla og gleyma því aldrei að baráttan er rétt að byrja, alveg sama hvað Sigmundar þessa heims segja.
Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavík
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. júlí 2020