Veljum fleiri samgöngukosti

Viðreisn í Reykjavík leggur áherslu á fjölgun göngu- og hjólreiðastíga, betri strætó og Borgarlínu, enda full þörf á. Skipulag Reykjavíkur hefur til þessa miðast við að einkabíllinn sé eina raunverulega úrræði fólks til þess að komast á milli staða. Haldi sú þróun óbreytt áfram er næsta víst að umhverfið og lífsgæði okkar borgarbúa muni líða fyrir.

Aukinni bílaumferð fylgir mengun sem er engan veginn í takt við kröfur okkar til handa komandi kynslóðum. Slík aukning kallar auk þess á skipulag sem tekur mið af dreifðari byggð á kostnað borgarkjarna og menningarstarfsemi. Hún tekur ekki mið af fjölbreyttri þörf nútímafólks til að ferðast á hagkvæman og umhverfisvænan hátt á milli staða. Við í meirihlutanum viljum sporna við þessari þróun og bjóða fleiri samgöngukosti.

Á þingi hefur hópur fólks reynt að koma í veg fyrir þessar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúar minnihlutans í Reykjavík hafa einnig nýtt hvert færi sem gefst til að tala niður aðgerðir sem bjóða upp á fleiri samgöngumáta en einkabílinn. Fyrir mér er það alvarlegt mál, enda lít ég svo á að hlutverk kjörinna fulltrúa sé að beita sér fyrir betri framtíð en ekki að standa í vegi fyrir henni.

Fólk í forgang

Langtímasýn Viðreisnar í Reykjavík felst í því að vinda ofan af gömlu skipulagi og setja þar með fólkið í forgang. Áhrifin sjáum við nú þegar. Þeim fjölgar sem nota umhverfisvæna samgöngumáta í samræmi við aukið framboð, eins og við sjáum skýrast á uppbyggingu hjólastíga.

Almenningssamgöngur verða umtalsvert meira aðlaðandi kostur á komandi árum, með Borgarlínu sem mun tengjast sterkara stofnæðakerfi Strætó. Fleiri munu fagna því að eiga aðra kosti á að geta ferðast hratt og örugglega um borgina en með bíl. Samhliða þessu verða ákveðnar bílagötur miðsvæðis að göngugötum, líkt og þróunin hefur verið í öðrum borgum með góðum árangri, enda minni þörf á að finna öllum bílum þar stæði. Þess í stað verður hægt að búa til pláss fyrir fólk.

Borgarstjórn á réttri leið

Við í meirihlutanum erum að breyta borginni til betri vegar. Við megum hins vegar standa okkur betur í að kynna þá framtíðarsýn, því að margir átta sig enn ekki á þörfinni fyrir þessar breytingar. Ef bílaeign eykst í sama hlutfalli og fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu mun enginn fjöldi mislægra gatnamóta bjarga okkur frá umferðarteppu og aukinni mengun. Eftir aðeins 20 ár mun íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölga um 70.000. Með því að bjóða fjölbreytta samgöngukosti mun allur sá fjöldi ekki lengur sjá þörfina á því að eiga bíl.

Reykjavík er nú þegar frábær borg en á komandi árum getur hún orðið mun betri, grænni og vænni höfuðstaður. Sú framtíð er þó ekki sjálfsögð, sérstaklega ef komið er í veg fyrir mikilvægar samgöngubætur.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2020