Bara fyrir börnin!

Þegar ég var fyrir utan Kristjánsbakarí á Akureyri í blíðviðri í ágúst, tók ég eftir því að af átta bílum fyrir utan bakaríið voru fjórir skildir eftir í gangi, þar af einn mannlaus. Þá rifjuðust upp fyrir mér ummæli þýsks vinar sem sagðist aldrei hafa séð eins marga bíla í lausagangi fyrir utan verslanir eins og hér. Í Þýskalandi er um 300 evru sekt við slíku og heyrir það til algjörra undantekninga að bílar séu skildir eftir í gangi.

Reglur um lausagang bifreiða á Íslandi er reyndar að finna í reglugerð nr. 788/1999, en þar kemur fram að óheimilt er að skilja ökutæki eftir í gangi þegar þau eru yfirgefin. Jafnframt er óheimilt að láta vélar kyrrstæðra ökutækja ganga lengur en í örstutta stund nema sérstaklega standi á. Nýlegar rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að meðalbíll notar um 40 lítra af eldsneyti í lausagangi á ári. Yfirfært á Ísland þýðir það að um 330 þúsund ökutæki nota um 13 milljón lítra á ári í lausagangi sem samsvarar um 30 milljón kílóum af kolefnisspori … í lausagangi! Að auki menga bílar mest í lausagangi og vélarnar slitna mest þá.

Oft er fjallað um það hvað við getum gert til að minnka kolefnisspor okkar sjálfra. Þetta er líklega það auðveldasta sem við getum gert … bara drepa á vélinni þegar bíllinn er kyrrstæður!

Nýlegar mælingar sýndu að mesta loftmengun í London er fyrir utan leikskóla þar sem foreldrar eru með bílana í gangi meðan börnin fara í og úr skólanum.

Kæri lesandi, næst þegar þú gengur framhjá slíkum bíl skaltu bara biðja viðkomandi að drepa á vélinni … bara fyrir börnin!

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. ágúst 2020