27 ágú Sérhagsmunir eða slæm hagstjórn?
Sjávarútvegsráðherra hefur, eftir beiðni þingmanna Viðreisnar, birt Alþingi skýrslu Hagfræðistofnunar um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi. Hún er hvort tveggja athyglisverð og umræðuverð.
- Fram kemur að í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa gjöld fyrir veiðirétt lækkað hér. Á sama tíma hafa þau hækkað í Namibíu og eru nú hærri en á Íslandi.
- Stór hluti kostnaðarins við að tryggja veiðiréttinn í Namibíu er ekki með í samanburðinum.
- Í reynd er mismunurinn meiri en fram kemur þar sem endurgjald fyrir ótímabundinn veiðirétt er borið saman við rétt í takmarkaðan tíma.
Aðeins hluti kostnaðarins talinn með
Hagfræðistofnun tekur ekki allar greiðslur Samherja í Namibíu með í útreikningum sínum. Ástæðan er sú að hluti þeirra er til rannsóknar hjá ákæruvaldinu.
Skiljanlega vill stofnunin ekki fella dóm um hugsanlegt, saknæmt athæfi. Það er ekki tilefni gagnrýni. En hér er þó á tvennt að líta:
Annað er að stjórnendur Samherja hafa sagt að hér sé um að ræða lögmætar greiðslur fyrir veiðirétt. Ástæðulaust er að véfengja það. Hitt er að jafnvel þótt þær yrðu síðar taldar saknæmar eru þær eftir sem áður kostnaður við rétt til veiða.
Til þess að finna út hvað fyrirtækið sjálft taldi eðlilegt að greiða fyrir veiðirétt í Namibíu þarf því að taka mið af öllum greiðslunum.
Munurinn á þróuðu landi og þróunarríki
Namibía er þróunarríki. Á síðustu þremur árum hafa stjórnvöld þar hækkað veiðigjöld umtalsvert. Þau eru nú hærri en á Íslandi.
Íslendingar eru ein þróaðasta fiskveiðiþjóð í heimi. Á síðustu þremur árum hafa stjórnvöld hér lækkað veiðigjöld þannig að þau eru nú lægri en í þróunarríkinu.
Í fljótu bragði hefði mátt ætla að í háþróuðu fiskveiðistjórnkerfi gæti atvinnugreinin greitt hlutfallslega meira í sameiginlegan sjóð eigenda auðlindarinnar en í þróunarríki. En svo er ekki í þessu tilviki.
Tveir skýringarkostir blasa við: Annar er sá að hér sé um að ræða sérhagsmunagæslu. Hinn er sá að hagstjórnin hafi leitt til þess að samkeppnisstaða Íslands hafi versnað svo mjög í tíð núverandi stjórnar að hún nái ekki samanburði við Namibíu.
Úr vöndu er að ráða fyrir ríkisstjórnina. Spurning er hvorn skýringarkostinn hún telur betri til að bera á borð fyrir kjósendur.
Einföldu hagfræðilögmáli snúið á hvolf
Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að greiðslur fyrir veiðirétt í Namibíu eru fyrir tiltekinn, afmarkaðan tíma. Á Íslandi eru engin tímamörk. Formaður atvinnuveganefndar Alþingis sagði í vor sem leið að veiðirétturinn hér erfðist um alla eilífð.
Eftir venjulegum lögmálum ætti veiðiréttur til langs tíma að vera mun verðmeiri en skammtíma réttur. Í Namibíusamanburðinum kemur í ljós að íslensk stjórnvöld snúa þessu á hvolf.
Margt mælir með því að veiðiréttur sé lengri en í Namibíu. Útgerðir jafnt sem eigendur auðlindarinnar eiga að hagnast á því. En ríkisstjórnin þarf að skýra út fyrir kjósendum hvers vegna hún viðurkennir ekki þetta einfalda lögmál hagfræðinnar.
Eins og hjartað slái ekki með fólkinu í landinu
Tuttugu ár eru frá því að allir flokkar samþykktu tillögu auðlindanefndar, undir forystu Jóhannesar Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra, um að skrifa í stjórnarskrá þjóðareignarákvæði um að endurgjald skyldi koma fyrir tímabundinn veiðirétt.
Svipuð tillaga kom síðar frá stjórnlagaráði.
Fyrir þremur árum hafði Sjálfstæðisflokkurinn einn horfið frá sáttinni í auðlindanefnd. Nú hafa allir þrír stjórnarflokkarnir gert það. Enginn þeirra hefur þó reynt að hrekja röksemdir Jóhannesar Nordal og meðnefndarmanna hans.
Forsætisráðherra hefur nú tvívegis á þessu kjörtímabili skyldað stjórnarþingmenn til að fella tillögur um að tímabinda veiðiréttinn í fiskveiðistjórnarlögum. Og nú hótar hún að ljúka kjörtímabilinu með því að afgreiða í ágreiningi þjóðareignarákvæði í stjórnarskrá án skilyrða um tímabindingu.
Engu er líkara en hjartað slái ekki með fólkinu í landinu.