Forsjárhyggja eða frelsi?

Er þetta ekki orðið gott með stjórnvöld sem nota orðin sín til að lýsa skilningi á áskorunum framtíðarinnar og metnaði til að mæta þeim áskorunum en nota svo völdin sín til að gera allt annað? Sem tala um mikilvægi þess að allir fái að njóta sín á eigin forsendum, og boða svo aðgerðir sem steypa alla í sama mót? Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur nú kynnt viðbrögð sín við slökum árangri íslenska menntakerfisins í svokallaðri PISA-könnun. Og hvernig vill svo ráðherra bregðast við? Jú, með því að bæta í skyldukennslu í íslensku og raungreinum á kostnað valgreina. Þannig sér ráðherra svarið liggja í því að draga úr svigrúmi grunnskóla til að laga námið að þörfum, getu og áhuga einstaka nemenda. Framtíðarsýnin liggur í því að leita til fortíðar, til þeirra tíma þegar stjórnvöld tilkynntu kennurum og nemendum nákvæmlega hvað ætti að kenna og hversu lengi ætti að kenna það.

Þessar nýju fortíðarhugmyndir menntamálaráðherra eru nú í samráðsgátt stjórnvalda sem tillögur um viðmiðunarstundaskrá grunnskóla. Það er ekki síður áhugavert hvað er ekki í tillögunum. Þar eru ekki hugmyndir um endurskoðun á námsefni eða um hvernig auka megi áhuga nemenda á viðkomandi greinum t.d. með fjölbreyttari kennsluaðferðum. Í tillögum ráðherra er heldur ekki að finna rök fyrir því að fjölgun kennslustunda skili betri árangri með óbreyttri nálgun. Líklega af því að þau rök eru ekki fyrir hendi.

List- og verkgreinar eiga undir högg að sækja þrátt fyrir að kennarar hafi að miklu leyti nýtt aukið svigrúm til vals síðustu ár til að bjóða nemendum upp á fjölbreytt nám í þessum greinum. Umræða meðal fagfólks hefur enda verið á þann veg að mikilvægt sé að styrkja þessa nálgun enn frekar. Að skólastjórnendur og kennarar fái frelsi til að greina hvað sé þeirra nemendum fyrir bestu og aðstoða þá þannig við að þróa sig út frá eigin forsendum í gegnum val, samhliða áherslu á kjarnagreinar.

Forsjárhyggja eða frelsi? Því er auðsvarað þegar núverandi stjórnvöld eiga í hlut.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. september 2020