29 okt Brexitáhrifin á Íslandi
Bretar og Evrópusambandið gera nú úrslitatilraun til að semja.
Eigið mat breskra stjórnvalda bendir til þess að fari landið samningslaust út gæti hagvöxtur á næstu árum orðið allt að átta prósent minni en með aðild. Með hagstæðustu fríverslunarsamningum minnkuðu þessi neikvæðu áhrif niður í fimm prósent.
Þurfum að vinna upp meira af tapinu
Íslensk stjórnvöld hafa ekki birt mat af þessu tagi. Þó að neikvæð áhrif á Ísland verði ekki til jafns við þessar tölur verða þau umtalsverð. Það þýðir að fríverslunarsamningur Breta við EFTA-ríkin getur aðeins deyft neikvæð áhrif úrsagnarinnar en ekki eytt þeim.
Með fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði aftur á móti unnt að vinna upp meira af tapinu. Það lýsir ekki hyggindum að loka augunum fyrir þeim möguleika nú þegar brýnt er að íslenskt atvinnulíf hlaupi hraðar.
Áhrif fiskveiðideilu Breta og ESB
Einstaka andstæðingar fullrar aðildar að Evrópusambandinu halda því fram að deilur þess við Breta um fiskveiðar eftir Brexit sýni að Ísland yrði að fórna fiskveiðiréttindum ef það lokaskref yrði stigið. Þessi staðhæfing er annaðhvort útúrsnúningur eða misskilningur.
Deila Breta og Evrópusambandsins snýst fyrst og fremst um skiptingu á sameiginlegum stofnum. Samkvæmt hafréttarsáttmálanum ber þeim að semja um skiptingu á þeim.
Evrópusambandið vill miða við veiðireynslu eins og reglur þess gera ráð fyrir. En Bretar vilja aftur á móti semja miðað við dreifingu einstakra fiskistofna. Röksemdir beggja eiga sér stoð í hafréttarsáttmálanum.
Á Íslandsmiðum eru ekki sameiginlegir stofnar með Evrópusambandinu. Engin Evrópusambandslönd eiga veiðireynslu hér síðastliðin þrjátíu ár. Aðildarríkin geta því hvorki samkvæmt hafréttarsáttmálanum né reglum sambandsins gert kröfur um veiðar.
Með fullri aðild kæmu því engin evrópsk skip til veiða á Íslandsmiðum. Enga sérsamninga eða undantekningar þyrfti til að tryggja það.
Ísland og ESB sömu megin gagnvart Bretum
Um áramótin fær breska stjórnin það hlutverk, í stað Evrópusambandsins, að semja fyrir skoskar útgerðir um makrílveiðar. Fram til þessa hafa norskar og skoskar útgerðir staðið fastast gegn aðild Íslands að samningum um makríl.
Íslenskar útgerðir hafa öðlast mikla veiðireynslu í makríl. Hún mun vega þungt í samningum við nýjan viðsemjanda. Evrópusambandið notar einnig veiðireynslurökin í viðræðum við Breta vegna danskra makrílútgerða.
Ef Ísland ætti fulla aðild að Evrópusambandinu myndi það sækja rétt íslenskra útgerða til makrílveiða gagnvart Bretum og Norðmönnum af fullum þunga allra aðildarríkjanna. Það myndi fremur styrkja okkur en veikja.
Full aðild betri en fríverslunarsamningar
Í bráðabirgða fríverslunarsamningi við Breta vegna Brexit er gert ráð fyrir svipuðum viðskiptum með landbúnaðarafurðir og áður. Með óbreyttum samningi við Evrópusambandið er þetta nokkur rýmkun og allt bendir til að lengra verði gengið í lokasamningi.
Þetta sýnir að einangrun er ekki í boði. En bændur hafa lýst áhyggjum. Þær eru skiljanlegar. Breytingar af þessu tagi kalla óhjákvæmilega á nýja hugsun í landbúnaðar- og byggðamálum af hálfu stjórnvalda. En á henni bólar ekki.
Frjáls viðskipti eru gagnkvæm. Þau opna tækifæri ef rétt er á málum haldið. Kannski eru það þessir útflutningsmöguleikar, sem ríkisstjórnin átti við þegar hún talaði um stórkostleg tækifæri, sem fylgdu Brexit.
En trúlega yrði full aðild að Evrópusambandinu hagstæðari fyrir bændur. Til að mynda gætu hugsanlega opnast þar lambakjötsmarkaðir, sem breskir bændur óttast nú að séu þeim tapaðir, ef ekki semst.
Jafnframt er stuðningur sambandsins við bændur mjög öflugur. Enginn slíkur ytri stuðningur fylgir samningum um fríverslun. Alhliða byggðastefna Evrópusambandsins hefur einnig reynst mjög áhrifarík. Stuðningskerfi af því tagi finnast hins vegar ekki í fríverslunarsamningum.