Garðabær til framtíðar

Ég hlustaði nýverið á viðtal við bæjarstjórann minn um málefni Garðabæjar. Þar bar margt á góma en framtíðarsýn bæjarstjórans míns um íbúauppbyggingu Garðabæjar var hvað mér þótti áhugaverðast að heyra.

Bæjarstjórinn minn talar um að í kringum 25-30 þúsund íbúar væru draumastærð sveitarfélags en um 17 þúsund bjuggu hér í upphafi árs. Nú er það svo að Garðabær er það sveitarfélag þar sem fólksfjölgun er hvað mest um þessi misserin.
Þetta er afar jákvæð og góð þróun fyrir samfélagið í Garðabæ því þetta þýðir að mikil uppbygging er í gangi. Nýtt hverfi er að fullrísa í Urriðaholti og þangað velja nú fleiri ungar fjölskyldur að setjast að en við upphaf uppbyggingarinnar. Nýtt hverfi fer að rísa í Lyngásnum þar sem sérstaklega er horft til fyrstu kaupenda og ungs fólks. Hverfið tengist fyrirhugaðri borgarlínu og því horft til framtíðar með þarfir ungs fólks í huga. Stutt verður í almenningssamgöngur og þá nærþjónustu sem er hvað mikilvægust fyrir ungt barnafólk hvort heldur sem litið er til staðsetningu leik- og grunnskóla eða annarrar þjónustu.

Garðabær býr yfir miklu landsvæði. Hér eru náttúruperlur allt um kring og mikill metnaður verið lagður í friðlýsingu landsvæða og áform um frekari friðlýsingu fyrir hendi. Hér er hægt að njóta útivistar og umhverfið skapar mikil og eftirsóknarverð lífsgæði fyrir íbúa sem vilja búa á höfuðborgarsvæðinu. Því eru mikil tækifæri til frekari uppbyggingar, þar sem boðið er upp á val um búsetu í miðri náttúruparadís. Möguleikar sveitarfélagsins okkar til að stækka og dafna eru því miklir.

Bæjarstjórinn minn talaði líka um að hátt verð íbúðarhúsnæðis í Garðabæ og það væri ekki slæmt. Það væri skrýtin stjórnun að hafa það að markmiði að lækka fasteignaverð eigna í sveitarfélaginu. Ég veit ekki hver væri að leggja slíkt til? Það er engin að tala um að lækka húsnæðisverð þeirra eigna sem fyrir eru en ég vonaðist til þess að inn í framtíðarsýn bæjarstjórans leyndist stefna og markmið um raunverulegt val um búsetu fyrir alla í sveitarfélaginu okkar. Stefna þar sem ýtt væri af metnaði undir fjölbreytta búsetu í fyrirhugaðri uppbyggingu en ekki eingöngu litið til ungs fólks og fyrstu kaupenda. Þetta þýddi að hér yrði lagt í og boðið upp á félagslegt húsnæði í meiri mæli sem og húsnæði fyrir fatlað fólk þar sem einstaklingar hefðu raunverulegt val um búsetuform en þeim væri ekki þjappað saman í eina lausn; íbúðakjarna þó góðir geti verið. Síðast en ekki síst væri hér rými fyrir almennilegan leigumarkað þannig að Garðabær skapi gott rými fyrir alla sem einmitt myndu kjósa náttúruparadísina Garðabæ, stuttar leiðir í alla þjónustu og góða tenginu við önnur sveitarfélög, að ekki sé talað um þá örskotsstund sem það tekur og verður ennfrekar með tilkomu borgarlínu, að bregða sér til höfuðborgarinnar.

Bæjarstjórinn minn talar því miður fyrir frekar einsleitu samfélagi en ekki inn í mína framtíðarsýn og okkar í Garðabæjarlistanum, um uppbyggingu Garðabæjar þar sem markmiðið er fjölbreytt samfélag með fjölbreyttum valkostum um búsetu allra. Samfélag þar sem við getum boðið enn fleirum að búa og njóta þeirra stórkostlegu lífsgæða sem við Garðbæingar þekkjum hér í sveitarfélaginu okkar.

Höfundur er bæjarfulltrúi Viðreisnar og oddviti Garðabæjarlistans

Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum 29. október 2020