Hanna Katrín Friðriksson: Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Herra forseti, góðir áheyrendur.

Við erum að glíma við þunga atvinnuleysiskreppu. Nokkrar atvinnugreinar hafa nánast þurrkast út, í bili, og margir hafa þurft að þola þung högg. Eftirspurn hefur einfaldlega horfið.

Önnur áhrif veirunnar á daglegt líf okkar eru líka mikil og hér sem annars staðar er eðlilega vaxandi umræða um skörun frelsis til athafna og síðan aðgerða stjórnvalda til að hamla útbreiðslu veirunnar.

Þetta setur mark sitt á þingveturinn en hér, á hinu pólitíska sviði, munu áætlaðar kosningar að ári að sjálfsögðu gera það líka. Í stefnuræðu leiðtoga ríkisstjórnarinnar fer þó ekki mikið fyrir pólitík. Það er í raun einkenni þessarar ríkisstjórnar, þetta litla pólitíska samtal – enda er pólitískt erindi hennar er takmarkað.

Auðvitað var ýmislegt jákvætt í stefnuræðu forsætisráðherra. Til dæmis fyrirheit um að ríkissjóði yrði beitt til að skapa viðspyrnu fyrir almenning og atvinnulíf. Þar var talað um aðgerðir til að verja störf og stuðla að því að fleiri gætu orðið til. Orð um græna viðspyrnu, stuðning við hátækni og þekkingaiðnað. Þetta verða vonandi ekki orðin tóm. Ég segi vonandi því orð og aðgerðir þessarar ríkisstjórnar hafa ekki fallið vel saman.

Í nýrri greiningu Landsbankans er t.d. greint frá rúmlega 17 prósenta samdrætti í fjárfestingu ríkissjóðs milli ára, þvert á margboðað fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar. Og enn er hér verið að boða fjárfestingarátak.

Forsætisráðherra nefndi aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.  Ríkisstjórnin kveðst stolt af þeim metnaði sem hún sýnir með áætluninni, aðrir undrast metnaðarleysið. Viðreisn gagnrýnir ekki síst að áætlun ríkisstjórnarinnar skautar að mestu fram hjá stærsta losunarþættinum sem er landnotkun. Það fer lítið fyrir viðleitni til að leysa þessi mál í samvinnu við bændur og landeigendur?

Við höfum skilað góðu verki þegar kemur að viðbrögðum, ákvörðunum og aðgerðum í heilbrigðiskerfinu okkar. Fyrir það er þjóðin öll þakklát. Þar nýtist m.a. sá styrkur sem felst í fámennu og þéttu samfélagi – samvinna og samstaða – enda er sú nálgun sterkasta vopnið. Þar hefur hjálpað að fólk hefur fengið upplýsingar um stöðu mála, um aðgerðir og um ástæður fyrir hvaða leiðir hafa verið farnar. En þegar kemur að viðbrögðum við efnahagslegum afleiðingum veirunnar, þegar kemur að aðgerðum til að verja störf, verja heimili og fyrirtæki, þá eru viðbrögð ríkistjórnarinnar bæði veik og ómarkviss.

Herra forseti,

Þessir sögulegu tímar hafa varpað ljósi á ákveðna bresti í kerfinu okkar. Ríkisstjórn hefur valið að lama þingið. Tækifæri þingmanna til að eiga pólítískar umræðu við ráðherra er mjög takmarkað – ef ráðherrarnir hafa sjálfir ekki viljann til að taka umræðuna.

En í miðjum heimsfaraldri verður Alþingi fá að sinna hlutverki sínu, fá að axla þá ábyrgð sem okkur er falin, að ræða og takast á um hugmyndir, með það sameiginlega markmið að koma samfélaginu sem fyrst og öruggast út úr þessari kreppu.

Mögulega hefur ríkisstjórnin talið flýta fyrir að halda spilunum þétt að sér og forðast samtal við Alþingi. Forðast pólitíkina. En þegar hugmyndirnar fá ekki umræðu kemur það hins vegar niður á árangrinum. Og það sjáum við því miður núna. Ríkisstjórnin hefur aldrei náð lengra en að bregðast við, ríkisstjórnin hefur ekki getað tekið markvissari skref en það. Við stöndumst ekki samanburð við nágrannaríki hvað varðar efnahagsaðgerðir stjórnvalda. Samt eru allar aðstæður hér fyrir hendi til að verja atvinnulífið og heimilin.

Við í Viðreisn munum halda áfram að styðja í verki efnahagsaðgerðir sem samfélagið þarfnast núna. Við höfum lagt fram hver okkar sýn er um hvernig við viljum verja samfélagið fyrir sögulegu efnahagslegu höggi. Við munum líka halda áfram að benda á það sem betur má fara. Það er okkar hlutverk. En nú þarf ríkisstjórnin að horfast í augu við þingið og þjóðina, þora að taka samtalið. Hún þarf að vera markvissari, snarari og stórstígari. Og hún þarf síðast en ekki síst að þora að ræða pólitísk viðfangsefni við þingið sem situr hér með hag almennings fyrir brjósti.