Við vitum hvað þarf að gera. Nýsköpun, tækni og vísindi eru lykilatriði. Ef þeim er sinnt af krafti leysum við úr læðingi öfl sem munu breyta samfélaginu og gera efnahags- og atvinnulífið fjölbreyttara og þróttmeira.

— Jón Steindór Valdimarsson: Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Herra forseti,

Við stöndum frammi fyrir alvarlegum þrengingum. Það ríkir óvissa og margt fólk hefur miklar áhyggjur af eigin framtíð og velferð.

Til þess að draga úr óvissu og ótta þarf að vinna markvisst og með opnum hætti þannig að hvert skref sé öllum ljóst og hvaða afleiðingar það hefur.

Forsenda árangurs felst í þrennu: Upplýsingum, samráði og vandaðri greiningavinnu. Sé þessu ekki sinnt er hætt við að staðan versni, sundrung aukist og þannig glutrist niður mikilvæg samstaða.

Því miður hefur ríkisstjórnin ekki risið undir þessari frumskyldu sinni. Hún hefur þó enn tækifæri til að gera betur og þá ríður á að hún skapi samstöðu um leiðir og markmið í samvinnu við hagsmunaðila en ekki síður við Alþingi. Það væri í anda þess stjórnarsáttmála sem kynntur var með pompi og prakt á sínum tíma en virðist hafa rykfallið í skúffu í stjórnarráðinu.

Við í Viðreisn höfum lagt okkur fram um að greiða götu mála ríkisstjórnarinnar sem hafa verið sett fram til að takast á við bráðavanda og veita um leið uppbyggilegt aðhald. Það viljum við gera áfram en þá verður ríkisstjórnin að efna til samtals og samráðs.

Herra forseti

Sagt er að fátt sé með svo öllu illt að ei boði gott.

Á sama tíma og fengist er við alvarlegar afleiðingar til skamms tíma þarf að hugsa til framtíðar. Hvað getum við lært og hvað má gera til þess að bæta samfélagið. Gera það betur í stakk búið til þess að takast á við skakkaföll og skapa ný tækifæri.

Efnahagslífið er ofurviðkvæmt þegar fyrirferðarmiklar atvinnugreinar verða fyrir áföllum. Þetta höfum við margoft reynt og gerum það vissulega núna þó ástæðan sé óvænt.

Við vitum hvað þarf að gera. Nýsköpun, tækni og vísindi eru lykilatriði. Ef þeim er sinnt af krafti leysum við úr læðingi öfl sem munu breyta samfélaginu og gera efnahags- og atvinnulífið fjölbreyttara og þróttmeira.

Umbylting af þessu tagi tekur tíma og fjármuni. Ríkisstjórnin hefur vissulega stigið skref í þessum efnum. Þau eru hins vegar öll því marki brennd að vera alltof smá.

Herra forseti

Eitt af trompum ríkisstjórnarinnar til hjálpar nýsköpunar-fyrirtækjum í fjárhagsvanda er svokölluð Stuðnings Kría, sem felur í sér að fyrirtækjum eru veitt lán ef þeim tekst að fá mótframlag frá fjárfestum. Strax við framlagningu málsins á Alþingi gagnrýndi Viðreisn harkalega að ekki væri veitt nægt fjármagn til verkefnisins.

Nú liggur fyrir að 26 fyrirtæki hafa farið í gegn um nálarauga umsóknarferils og aflað vilyrða frá fjárfestum um 1,4 milljarð á móti framlagi ríkisins. Ríkið getur hins vegar ekki staðið við sinn hlut nema að hálfu. Gleymum því ekki að við erum að tala um lán, ekki styrki.

Þetta eru mikil vonbrigði en því miður fyrirséð. Í stað þess að taka stór skref og fullfjármagna þetta mikilvæga úrræði eru falsvonir vaktar en síðan kastað út hálfum björgunarhring sem setur framtíð þessara fyrirtækja í uppnám. Hér gleymdi ríkisstjórnin að hún ætlaði að gera meira en minna.

Skrefin eru stigin til hálfs í stað þess að taka stór skref strax. Það er ekki leiðin til að gera raunverulegar breytingar.