Ónýtur lottómiði

„Við erum á leið aftur til Kali­forníu í vik­unni. Dval­ar­leyfi okkar er útrunnið og ekki tókst að fá það fram­lengt í tæka tíð hjá Útlend­inga­stofn­un, senni­lega vegna anna þar á bæ.”

Þetta er til­vitnun í kveðju frá banda­rískum sér­fræð­ingi sem nú er horf­inn til síns heima eftir að hafa dvalið hér á landi í nokkra mán­uði ásamt fjöl­skyldu sinni. Hann tók þá ákvörðun að flytja til Íslands og sinna störfum sínum í heima­landi sínu frá Íslandi með hjálp tækn­inn­ar, sem og eig­in­kona hans. Sér­þekk­ing hans og sam­bönd nýtt­ust einnig íslenskum tækni- og nýsköp­un­ar­fyr­ir­tækj­um. Börn hans voru komin í íslenska skóla og fjöl­skyldan undi sér vel – þar til kerfið sagði nei.

Þetta er dap­ur­legt dæmi um að við tor­veldum fólki sem hingað vill koma til þess að vinna hér á landi eða sinna störfum sínum erlendis frá Íslandi að setj­ast hér að.

Nýsköpunarráðherra, Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir, sagði í grein í Morg­un­blað­inu 17. maí sl:

„Að búa á Ís­landi er að mínu mati lott­óvinn­ing­ur, og fyrir sér­fræð­inga í alþjóð­legum tækni­fyr­ir­tækjum getum við boðið upp á mikil lífs­gæði. Frá­bært heil­brigð­is­kerfi, ótrú­lega nátt­úru, virkt menn­ing­ar- líf, gott, aðgengi­legt og gjald­frjálst skóla­kerfi, frið og jöfn­uð. Á́ sama tíma hefur íslenskt sam­fé­lag almennt, og nýsköpun­ar­um­hverfið sér­stak­lega, mjög gott af því að fleiri erlendir sér­fræð­ingar með sina reynslu, teng­ingar og þekk­ingu komi og starfi héð­an. Ef við gerum þeim auð­velt fyrir að setj­ast hér að græðum við öll. Vinna sem hefur það að mark­miði er haf­in.”

Undir þessi orð ráð­herr­ans er sann­ar­lega hægt að taka. Hér vantar hins vegar mikið upp á að tæki­færið sé gripið á lofti. Um það vitnar dæmið hér að fram­an. Það er ekki til þess fallið að freista útlend­inga til að setj­ast að hér á landi ef raunin er sú að hér sé enn búið svo um hnúta að þetta sé þeim óger­legt.

Hér þarf að ganga hreint til verks, breyta þeim reglum sem breyta þarf og gefa Útlend­inga­stofnun skýr fyr­ir­mæli um að mál af þessu tagi fái hraða máls­með­ferð. Verði þetta ekki gert er tómt mál að tala um að það sé lottó­vinn­ingur að eiga þess kost að búa á Íslandi.

Rík­is­stjórn­inni ætti að vera í lófa lagið að kippa þessu í lag strax og það á hún að gera.

Höf­undur er þing­maður Við­reisn­ar.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 14. október 2020