Ótti eða staðreyndir

Umræður um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar voru um margt ágætar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar báru fram mikilvægar spurningar og gagnrýni og ráðherrar svöruðu sumu vel og öðru síður.

Hæstvirtur utanríkisráðherra kaus að endurtaka enn einu sína þreyttu tuggu um að þeir sem helst tali niður samninginn um Evrópska efnahagssvæðið séu ESB-sinnar og rauna allir aðrir sem vilja að þjóðin fái loksins að segja hug sinn um áframhald aðildarviðræðna. Slíkt tal er fásinna, alveg sama hve oft er tuggið.

ESB-sinnar vita að við erum þegar komin inn í Evrópusambandið, ekki bara með annan fótinn heldur hinn nánast líka. Það sem helst stendur eftir er annars vegar gjaldmiðill sem er stöðugur og nothæfur í alþjóðaviðskiptum og hins vegar lýðræðislegt umboð til áhrifa á þá löggjöf sem við Íslendingar innleiðum hvort eð er með EES-samningnum. Það að taka lokaskrefið til aðildar að ESB er hænufet miðað við það risaskref sem við tókum með þátttöku í EES fyrir rúmum aldarfjórðungi síðan. Risaskref sem hefur orðið okkur til mikillar gæfu.

Það er óttinn, sem andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið hafa alið á, sem er allt í einu orðinn helsta vopn í sérkennilegri andstöðu við veru okkar í Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta er hættuleg þróun. Við verðum að standa saman í því að tala upp þátttöku okkar í Evrópusamstarfinu.

Dæmi um nákvæmlega þetta kom síðan í ræðu hæstvirts utanríkisráðherra þegar hann sagði Breta núna í fyrsta sinn í langan tíma fá yfirráð yfir lögsögu sinni – og síðan leiddi hann líkur að því að ef Íslendingar væru fullgildir meðlimir í Evrópusambandinu þá gætum við einungis veitt 25% aflans við Íslandsstrendur. Þarna ruglar hann saman yfirráðum yfir lögsögu og úthlutun aflaheimilda.

Þjóðir hafa bæði yfirráð yfir lögsögu sinni og ráða úthlutunum sjálfar innan þeirra marka sem lögin setja. Í fiskveiðistjórnunarlöggjöf Evrópusambandsins segir að aflamark byggist á vísindalegu mati hverrar þjóðar, sem væri hér á borði Hafrannsóknarstofnunar, og þeim hluta sem hefðbundið er að hver þjóð nýti (e. traditional share). Það hlutfall er alfarið okkar Íslendinga. Þar kemur einnig fram að úthlutun veiðiheimilda byggist á landsrétti. Svona framsetning utanríkisráðherra ber ekki vott um yfirvegun eða hófstillingu í að viðra ótta sinn við aðild að Evrópusambandinu.

Sem betur fer verða staðreyndir um hvað aðild að Evrópusambandinu felur í sér – og ekki síður hvað hún felur ekki í sér – öllum ljósar þegar Íslendingar eignast utanríkisráðherra sem þorir að ljúka aðildarviðræðunum og bera þær undir þjóðina til samþykkis. Þá getur þjóðin tekið upplýsta afstöðu um hvort henni hugnist betur óttinn eða staðreyndirnar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. október 2020