Pólitísk jafnvægislist

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Þungt ástand vegna heimsfaraldursins er nú talið í mánuðum og við blasir að nokkuð er í land. Í þeirri þreytu sem við finnum fyrir þarf að muna að skæður heimsfaraldur færir stjórnvöldum ekki aðeins rétt til að bregðast við heldur einnig skyldu. Hin pólitíska jafnvægislist lýtur svo að því hvernig það er gert. Í vikunni fór fram á Alþingi sérstök umræða um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til sóttvarnaráðstafana.

Eftirlitshlutverk Alþingis er háð samtali og upplýsingagjöf. Vitaskuld hefur faraldurinn verið til umræðu á Alþingi, en fyrst og fremst að kröfu stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin hefur lítið frumkvæði sýnt að öðru leyti en í umræðum um efnahagsaðgerðir. Á hinum pólitíska vettvangi er það ekki aðeins réttur Alþingis heldur einnig skylda að sinna eftirlitshlutverki.

Þegar reynsla er komin á sóttvarnalögin, sem sóttvarnaaðgerðir byggja á, verður að telja undarlega pólitíska forgangsröðun að endurskoðun sóttvarnalaga sé ekki ofar á lista ríkisstjórnarinnar. Lögin eru verkfærakista stjórnvalda og ákveðnir veikleikar hafa komið í ljós. Lögin þurfa að vera skýr og lagastoð aðgerða óumdeild. Tímabær endurskoðun hefur ekki með mildari eða harðari aðgerðir að gera, heldur að löggjöf sé skýr um aðgerðir og heimildir.

Þessar aðstæður gera að verkum að hlutverk þingsins hefur sjaldan verið mikilvægara. Það er Alþingis að fara yfir framkvæmdina. Staðan kallar til dæmis á umræðu um hver skurðpunkturinn sé milli sóttvarnaaðgerða og efnahagsaðgerða. Það er pólitísk jafnvægislist og umræðan þarf þess vegna að eiga sér stað á hinum pólitíska vettvangi.

Þríeykið, smitrakningarteymið og fólk í framlínu á lof skilið fyrir framlag sitt. Það er hins vegar heilbrigðisráðherra að svara fyrir hugmyndafræði aðgerða í samtali við fulltrúa þjóðarinnar inni í þingsal og hvers vegna farið er að sumum tillögum sóttvarnalæknis en öðrum ekki. Umræða vikunnar í þinginu var þörf og góð, en hefði átt að eiga sér stað fyrr af hálfu stjórnarinnar og þarf að gerast oftar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. október 2020