Hvers kyns ríkisstjórn verður í boði?

Þorsteinn Pálsson

Enn sem komið er hefur enginn flokkur lagt fram kosningastefnuskrá. Eigi að síður eru umræður hafnar um hvers konar stjórnarmynstur séu möguleg að kosningum loknum.

Forsætið

Forsætisráðherra og formaður VG er varfærin í yfirlýsingum um þetta efni umfram það að staðfesta ánægjuna með samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt áherslu á að leiða næstu ríkisstjórn.

Samkvæmt þessu kemur til samninga milli VG og Sjálfstæðisflokksins um forsætið haldi stjórnarflokkarnir velli. Stjórnarsamstarf þessara flokka tók úr leik átökin um hlut ríkisins í þjóðarkökunni, sem lengstum hafa rist dýpst í kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn boðaði minni ríkisumsvif og lægri skatta og VG aukin ríkisumsvif og hærri skatta. Í reynd hefur hlutfall ríkisútgjalda haldist óbreytt það sem af er þessari öld. Segja má að Sjálfstæðisflokkurinn hafi keypt samstarf við aðra flokka nær miðjunni því verði. Það snerist við þegar þessi stjórn var mynduð.

Aukin varanleg ríkisútgjöld

Þá urðu óbreytt ríkisútgjöld gjald VG fyrir forsætið. Ætli Sjálfstæðisflokkurinn sér forsætið hlýtur það aftur á móti að leiða til samninga um verulega aukin varanleg ríkisútgjöld óháð tímabundnum kostnaði vegna veirunnar. Vandséð er að VG geti varið umskiptin með öðrum hætti.

Ákveði kjósendur að veita stjórnarflokkunum áframhaldandi umboð þýðir það því tvennt: Annars vegar nýjan forsætisráðherra og hins vegar stærri hlut ríkisins í þjóðarbúskapnum.

Prinsippið varðandi aukin útgjöld vegna veirukreppunnar hefur snúist um það að þau væru tímabundin en ekki varanleg. Í síðasta pakka gaf fjármálaráðherra þetta prinsipp upp á bátinn. Það gæti bent til að hann væri farinn að huga að endurnýjun stjórnarsamstarfsins á þessum grundvelli.

Opnar dyr og lokaðar

Formaður Samfylkingarinnar, sem er næst miðjunni vinstra megin, hefur talað mjög skýrt í þá veru að hann telji samstarf við Miðflokk og Sjálfstæðisflokk mjög fjarlægt, en er opinn gagnvart öðrum flokkum.

Þetta getur samt orðið snúið því að líta verður svo á að núverandi stjórnarsamstarf hafi falið í sér það mat VG að Sjálfstæðisflokkurinn standi þeim málefnalega nær en Samfylkingin. Samstarfið í ríkisstjórninni er vísbending um að það sé rétt mat.

Formaður Viðreisnar hefur sagt að hún útiloki engan kost fyrirfram og málefni verði alfarið látin ráða. En sú staða er líka snúin fyrir flokk, sem er næst miðjunni hægra megin. Það hefur nefnilega ekki breyst að Sjálfstæðisflokkurinn telur sig standa nær VG en bæði Viðreisn og Samfylkingu.

Þetta eru útlínurnar í þeirri mynd, sem við blasir tíu mánuðum fyrir kosningar. Ýmsum spurningum er þó enn ósvarað. Munu þjóðernispopúlískar skoðanir ná einhverju flugi? Fá sósíalískar hugmyndir frá kreppuárum síðustu aldar stuðning? Hvort tveggja getur sett strik í reikninginn.

Einfaldar málefnalínur en flókin stjórnarmyndun

Þungamiðjan í pólitík næsta áratugar verður að koma í veg fyrir að greiðslubyrðin af skuldum ríkissjóðs skerði velferðarkerfið. Til þess að svo megi verða þurfa tölur um hagvöxt að vera töluvert hærri en vextir. Aðeins þannig vinnum við okkur út úr skuldafarginu.

Áframhaldandi stjórn Sjálfstæðisflokks og VG mun leiða til þess að hlutur ríkisins mun vaxa á kostnað atvinnulífsins, engin kerfisleg uppstokkun verður í efnahagslífinu og ný tækifæri í fjölþjóðasamvinnu ekki nýtt. Þessi stefna byggir á því að endurreisn ferðaþjónustunnar dugi ein og sér til að búa til hagvaxtartölur sem verða hærri en vextirnir. Þetta gæti heppnast en áhættan er mikil.

Allsendis er óvíst hvort Viðreisn og Samfylking ná saman um umfang ríkisumsvifa. En flokkarnir tala báðir með svipuðum hætti um breytingar í efnahagmálum og alþjóðasamvinnu. Þær miða að því að ryðja hindrunum úr vegi fyrir mun fjölbreyttara atvinnulíf. Þetta er ekki trygging en eykur líkurnar á að atvinnulífið geti hlaupið hraðar til að verja velferðina.

Kjósendur geta valið út frá þessum tiltölulega einföldu málefna línum. En stjórnarmyndunin sjálf verður væntanlega flóknari.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. nóvember 2020