Trump-fréttir

“Hvað er í Trump-fréttum?“ hefur verið algeng spurning á heimilinu mínu síðastliðin ár. Maðurinn hefur verið í fréttum nánast daglega með ákvarðanir og yfirlýsingar sem vekja mikla athygli um allan heim.

PEW hugveitan, Economist, Business Outsider og fleiri hafa metið forsetatíð Trumps.

Þar fær hann hrós fyrir skattabreytingar og nýja viðskiptasamninga sem hafa eflt efnahagslífið. Hann hefur breytt dómskerfinu með skipun nýrra dómara þannig að áhrif forsetatíðar hans munu vara næstu áratugi. Honum tókst að ráða niðurlögum ISIS kalífadæmisins og semja um betri samskipti Ísraela við löndin í kring. Trump er einnig hrósað fyrir að hafa ekki hafið stríð á forsetatíð sinni.

Trump er legið á hálsi fyrir að hafa tekið landið úr tíu alþjóðasamtökum og -sáttmálum, þar á meðal Parísarsamkomulaginu. Þá hefur hann lagt niður um 80 lög um umhverfisvernd í landinu.

Sein og ómarkviss viðbrögð hans við COVID eru talin valda, að mati Business Insider, einhverjum mestu hamförum í sögu Bandaríkjanna, sem hafa einnig leitt til kreppu og mestu skuldsetningar landsins frá 1945. Áhrif Bandaríkjanna sem forystuþjóðar vestrænnar samvinnu hafa dvínað undir stjórn Trumps, að sögn vefmiðlanna.

Trump nýtur samt stuðnings 45% landsmanna sinna í dag. Könnun meðal íbúa þrettán vesturlanda sýnir hins vegar að aðeins 16% fólks treystir Trump. Samkvæmt nýlegri könnun þessa blaðs myndu 8% Íslendinga kjósa Trump.

Þessir bakþankar eru skrifaðir daginn fyrir kosningarnar. Þó Biden sé yfir í flestum könnunum hefur komið fram að stuðningsmenn Trumps vilja síður gefa upp sína skoðun. Trump gæti því unnið! Ég vona samt að tími Trump-frétta sé liðinn á mínu heimili.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. nóvember 2020