Værum við ekki stolt?

Benedikt Jóhannesson

Í hátíðahöldunum 17. júní hallaði forseti lýðveldisins sér að borgarstjóra þar sem þeir sátu á Austurvelli undir styttunni af Jóni Sigurðssyni og spurði: „Hvað heldurðu að það yrði mikið mál að setja styttu af undirrituðum við hliðina á Jóni?“ Dómsmálaráðherra sat nokkrum bekkjum aftar, grúfði sig yfir símann sinn og tísti: „KOSNINGASVINDL. Hinir flokkarnir munu stela frá okkur næstu kosningum með UTANkjörfundaratkvæðum. SLÆMT“

Forsætisráðherra hafði snarlega aflýst heimsókn til Danmerkur viku áður, er dönsk starfssystir hennar neitaði að láta Grænland af hendi við Íslendinga, sem er þó gömul krafa og enginn getur talið ósanngjarna. Til allrar lukku var þó ekki öllum samskiptum við útlönd slitið, því fjármálaráðherra hafði nýlega bókað stóran sérfræðingahóp frá OECD inn á eitt af hótelum sínum. Á fundi með sendinefndinni lýsti umhverfisráðherra því yfir að hann hefði aldrei séð neinar sannanir um hlýnun jarðar: „Það kólnar bráðum, sannið þið til.“

Sumum fannst óþægilegt að félagsmálaráðherra sæti undir ásökunum um að hafa áreitt 26 konur og að jafnvel væri til upptaka þar sem hann stærði sig af því slíku káfi. Allir tóku það samt gott og gilt þegar ráðherrann upplýsti að svona tala karlar í sturtuklefum.

Ímynd stjórnarinnar styrktist þegar grein birtist um að samgönguráðherra hefði skotið peningum undan skatti ár eftir ár. Aðspurður svaraði hann: „Auðvitað kem ég mér undan því að borga skatta. Ég er enginn bjáni.“ Skömmu áður sagði sjávarútvegsráðherra ákveðinn að drukknaðir sjómenn væru engar hetjur hafsins. Þeir væru í raun aular og lúserar. Ummælin féllu bara í þröngum hópi í kaffisamsæti á sjómannadaginn og því fannst engum ástæða til þess að gera mikið úr þeim.

Heilbrigðisráðherra hló að gagnrýni á að hafa haldið fjölmennt boð í ráðherrabústaðnum fyrir stuðningsmenn stjórnarflokkanna meðan „svokallaður faraldur“ var í gangi. Öllum hefði verið boðið að sötra hreinsandi þvottalög með kampavíninu.

Atvinnuvegaráðherra sagði í viðtali að í Íslensku þjóðfylkingunni væri mjög vandað fólk sem réttilega benti á að við þyrftum að loka landinu fyrir múslimum. Ekki olli yfirlýsingin neinum deilum í ríkisstjórninni, en utanríkisráðherra taldi að einfaldast væri að taka börn frá hælisleitendum á landamærunum. „Það ætti að kenna þeim lexíu.“

Landsmenn fylltust stolti er menntamálaráðherra upplýsti þjóðina um yfirburðahæfni sína og þekkingu. Á prófi tókst ráðherra að hafa yfir fimm orð í réttri röð. Meira að segja löng og erfið orð eins og persóna og myndavél. Eftir allnokkra umhugsun gat ráðherrann líka bent á mynd af dýri með rana og sagt: „Fíll.“

Sem betur fer er greinin tóm þvæla, en einhvers staðar er til ráðamaður sem hefur afrekað allt þetta. ÓTRÚLEGT en SATT!!!

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2020