Komdu fagnandi, nýja ár!

Ég viðurkenni fúslega að það var gott að setja punktinn við árið 2020. Ár sem hófst með hvelli, appelsínugulum viðvörunum, hryllilegum slysum og snjóflóði á Flateyri, sem reif upp gömul sár sem munu seint gróa. Þegar við héldum að árið yrði ekki óbilgjarnara eftir stranga glímu við veiruna endaði árið svo á aurskriðum og hamförum á Seyðisfirði. Skilin á milli ára voru skarpari að þessu sinni. Jafnvel áþreifanleg. Nú tekur við ár viðspyrnunnar og ár bjartsýninnar. Og vonin um að árið 2021 verði ár dýrmætra samverustunda með fólkinu okkar. En árið 2020 kenndi okkur þó líka að gera ekki ráð fyrir neinu. Að hægja aðeins á og horfa í kringum sig. Lifa hvert augnablik og njóta þess. Það var dýrmæt lexía.

Efnahagshorfur í janúar og febrúar í fyrra voru álíka bjartar og veðurspáin. Ríkissjóður var þegar orðinn ósjálfbær, útgjöldin voru langt umfram tekjur og óveðursskýin að hrannast upp. Síðan kom veiran sem kórónaði allt. Þessi óþekkti vágestur sem umturnaði flestu því sem tilheyrði áður okkar daglega lífi. Fyrir ríkisstjórn sem mynduð var um kyrrstöðu hefur heimsfaraldurinn verið flókið viðfangsefni. Hún hvorki hleypur hratt né veitir skýr svör. Fljótlega varð okkur ljóst að höggið yrði þungt, bæði efnahagslega og félagslega. Viðreisn lagði strax áherslu á að styðja við ríkisstjórnina í stað þess að fara í fyrirsjáanlegt stjórnarandstöðuhlutverk. Að gera okkar til að verða að liði á fordæmalausum tímum. Við tókum hlutverk okkar alvarlega, settum fram lausnir og veittum ríkisstjórninni nauðsynlegt aðhald. Enda ekki vanþörf á.

Þegar öllu er á botninn hvolft snúast efnahagsmál um hið daglega líf fólks. Þess vegna lagði Viðreisn strax áherslu á að taka stór skref strax. Þannig að bæði fólk og fyrirtæki hefðu svigrúm til að lifa af veirutímann. Viðspyrna samfélagsins yrði þá kraftmeiri þegar þar að kæmi. Lykilatriði væri að tala skýrt og auka ekki á óvissu fólks. Við lögðum áherslu á markvissar aðgerðir fyrir þau sem fengu á sig þyngsta höggið í stað þess að spreyja fjármunum ómarkvisst í allar áttir. Því kreppan er ójöfn og bráðavandinn er núna. Þegar við fluttum tillögur okkar um stærri skref í byrjun faraldursins voru þær allar felldar. Ríkisstjórnin kom síðan með þær mánuðum síðar. Hætt er við að þessi skortur á hlustun hjá ríkisstjórninni muni á endanum lengja í kreppunni.

Verkefni ársins 2021 verður að tryggja viðspyrnu efnahags og líðan þjóðar. En á næstu árum munum við þurfa að gera meira en það. Við þurfum að auka verðmætasköpun verulega til að geta staðið undir skuldunum. Um það munu næstu kosningar snúast.

Ef skjaldborg um velferð og menntun á að halda, þarf aukinn hagvöxt. Til þess þarf atvinnulífið að geta hlaupið hraðar. Það gerist ekki nema með skipulagsbreytingum í atvinnulífinu og nýjum skrefum í alþjóðasamstarfi. Hér er stöðugur gjaldmiðill lykilbreyta. Við eigum því að leita strax eftir formlegu samstarfi við Evrópusambandið til að verja stöðugra verðgildi krónunnar. Fjölþjóðasamvinna er einnig forsenda þess að ná brýnum markmiðum í loftslagsmálum.

Viðreisn náði í gegn tímamótabreytingum um bætt aðgengi fólks að geðheilbrigðisþjónustu í fyrra. Niðurgreiðsla á sálfræðiþjónustu er í höfn. Það voru því vonbrigði að ríkisstjórnin tók þá pólitísku ákvörðun að setja ekki fjármagn í málið. En við munum halda stjórnarf lokkunum áfram við efnið. Þar sem líðan einstaklingsins er í forgangi. Ekki þarfir kerfisins eða kreddur stjórnmálafólks. Við vitum að við getum gert betur og við verðum að gera betur. Afkastageta heilbrigðiskerfisins er ekki næg og biðlistavandinn óboðlegur. Því er nauðsynlegt að líta einnig til eininga utan ríkisrekna kerfisins og nýta alla þá krafta sem við getum til að styrkja innviði heilbrigðiskerfisins. Þannig tökum við utan um fólkið okkar og setjum líðan þess og heilbrigði í forgang.

Ég óska landsmönnum öllum friðar og farsældar á nýju ári. Um leið vonast ég til að hið kærkomna nýja ár færi okkur þroskaða pólitíska umræðu, þar sem frjálslyndi, mennska og lausnamiðuð nálgun  ráði för. Fyrir okkur öll.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. desember 2020