Stafræn framtíð sveitarfélaga

Gífurleg þróun hefur orðið á þjónustu hins opinbera í gegnum stafræna miðla á þessu ári og mikil þróun er fram undan, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Aukin stafræn þjónustu mun ekki bara auðvelda fólki að nálgast þjónustu, heldur einfaldar hún einnig starfsumhverfi opinberra starfsmanna. Því getur orðið til töluverður sparnaður hjá hinu opinbera og hjá notendum við að taka stór skref við að færa opinbera þjónustu í stafrænt umhverfi. Hægt sé að spara um 9,6 ma.kr. í tímasparnaði starfsfólks, lækkun á prentkostnaði og póstburðargjöldum og með samrekstri á vefsíðu og hugbúnaði. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Andra Heiðars Kristinssonar, stafræns leiðtoga Stafræns Íslands á opnum fundi sveitarstjórnarráðs Viðreisnar.

Sveitarstjórnarfulltrúar Viðreisnar, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Garðabæjarlistans sátu einnig fyrir svörum og lýstu áherslum Viðreisnar í aukinni stafrænni þjónustu sveitarfélaganna. „Það eru mikil tækifæri til að auka stafræna þjónustu um landið allt,“ sagði Sara Dögg. „Aukin stafræn tækni er mikið jafnréttismál, því hún eykur aðgengi allra að þjónustu, upplýsingum, leyfisveitingu og öðru því sem fólk þarf að nálgast.“

Þórdís Lóa fór yfir fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar sem ætlar að leggja 10 ma.kr. í stafræna umbyltingu á næstu þremur árum. M.a. er í undirbúningi nýr vefur Reykjavíkur, nýjar „Mínar síður“, endurskoðun á umsóknarferlum fyrir ýmsa velferðarþjónustu, skóla og leikskóla og í skipulags- og byggingarmálum.  „Við sjáum á umsókn um fjárhagsaðstoð sem er nú orðin stafræn og var hönnuð með þarfir notenda í huga, hvað hún breytir miklu. Það er orðið mun einfaldara fyrir notandann að fara í gegnum umsóknarferlið, kerfið sækir sjálft upplýsingar sem skipta máli og fólk er leitt þarna í gegn. Svo eru líka félagsráðgjafarnir sem þurfa ekki lengur að mæta með pappíra og fara yfir umsóknirnar, heldur geta nýtt tímann til að veita betri ráðgjöf.“

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum á facebooksíðu Viðreisnar.