Um dugnað

Ég held að við Íslendingar séum duglegasta þjóð heims.

Það sýna hagtölur að minnsta kosti. Þar segir að við vinnum einn lengsta vinnudag Evrópuþjóða og flesta yfirvinnutíma á ári. Við höfum eina lengstu starfsævi og erum að auki með þriðju hæstu meðallaun á Vesturlöndum. Við erum meðal þeirra þjóða sem eru með hvað hæstu þjóðarframleiðslu á mann á ári. En þurfum við að strita svona mikið?

Þjóðverjar eru þekktir fyrir vinnusemi sína og dugnað. Þeir eru stoltir af því og kenna nákvæmni og aga í skólum. En nú hefur þýska stjórnin hafið auglýsingaherferð þar sem leti er sögð dyggð. Ódugnaður er þar sögð leið Þjóðverja út úr COVID-ástandinu. Boðskapurinn er að með því að vera latur og óvirkur geti maður minnkað útbreiðslu veirunnar.

Við þekkjum þetta hér á landi. Þríeykið hvetur okkur til að ferðast minna, vinna heima, eiga minni samskipti og forðast samkomur. Vera svolítið löt og minna virk. Dugnaðurinn sem hefur hingað til verið talinn einn besti eiginleiki okkar er skyndilega orðinn löstur!

„Honum féll aldrei verk úr hendi“ er algeng lýsing á duglegum manni í minningargreinum. Dugnaður forfeðra okkar hefur vissulega fært okkur góð lífskjör. En þurfum við að vera svona dugleg? Gætum við hugsanlega náð sama árangri með færri vinnustundum og betra vinnuskipulagi? Meira vinnur vit en strit segir málshátturinn. Bent skal á að bæði strit og vit mannsins hefur leitt til þróunar tækja sem spara tíma og auka afköst.

Ég er alls ekki að hvetja til leti. En nú skulum við hlýða Víði og vera pínulítið löt og ódugleg í smá tíma eins og Þjóðverjarnir. Svo getum byrjað nýtt ár aftur á fullri ferð með dugnaðinn að leiðarljósi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. desember