Veiran í stjórnmálunum

Benedikt Jóhannesson

Við Íslendingar erum heppin þjóð. Í Bandaríkjunum ráfar ruglaður maður um Hvíta húsið. Hann náðar fjölmarga vini sína (og flestir vinir hans virðast þurfa á sakaruppgjöf að halda) og heldur enn að hann geti snúið við úrslitum kosninga með því einu að segjast hafa unnið þær. Pútín, vinur Bandaríkjaforseta í Rússlandi, gengur skrefi lengra. Þar fá fyrrverandi forsetar og fjölskyldur þeirra friðhelgi vegna allra glæpa sem þeir hafa framið eða kunna að fremja. Lögreglan eða rannsakendur geta samkvæmt lögunum ekki yfirheyrt forsetana fyrrverandi, handtekið þá eða leitað í húsnæði þeirra. Reyndar er líklegt að Trump feti í fótspor félaga sína og gangi alla leið, náði sig og fjölskylduna alla, enda bráðnauðsynlegt. Sarkozi, fyrrverandi Frakklandsforseti, sýndi ekki sömu forsjálni og bíður dóms vegna spillingar.

Ekki að okkur finnist okkar ráðamenn alltaf vera hvítþvegnir englar. Óþægilega oft eru þeir á röngum stað á röngum tíma. Grímulausir eða með jafnvel með grímu sýna þeir minni aðgát en predikuð er yfir okkur hinum. Samt er aðförin að sóttvarnarreglum örugglega ekki úthugsuð eins og aðförin að lýðræðinu austan hafs og vestan. Íslenska ríkinu er núorðið sjaldan beitt til þess að  klekkja á pólitískum andstæðingum. Áður var öldin önnur. Hriflu-Jónas rak hiklaust þá embættismenn sem voru honum ekki þóknanlegir. Helst áttu þeir auðvitað að vera Framsóknarmenn, en það dugði ekki alltaf til.

Margt má um Jónas segja, en hann var sennilega fyrstur Íslendinga til þess að hugsa nútímalegt flokkakerfi fyrir rúmri öld. Hér átti að vera borgaralega sinnaður flokkur, annar sem hugsaði um hag alþýðunnar og sá þriðji sem gætti hagsmuna bænda. Hann sá ekki fyrir klofninginn milli hægfara krata og kommúnista og arftaka þeirra, en annars var flokkakerfi Jónasar ríkjandi mestalla 20. öldina og fram á þá næstu.

Draumur Jónasar varð martröð þjóðarinnar

Ólíklegt er að Jónas hafi búist við því að hér yrðu margir Framsóknarflokkar, sem kenndu sig við vinstri, hægri eða miðju. Þrír í stjórn og sá fjórði, sem er reyndar mesti Framsóknarflokkurinn, er utan stjórnar að sinni. Þegar Hriflu-Jónas var og hét var hann, flokkurinn og Sambandið eitt. Miðflokkurinn hefur reyndar enga samvinnuhugsjón og er ekki í sambandi, en hann hverfist um foringja sinn eins og Framsókn forðum daga og Repúblikanaflokkurinn í dag.

Framsóknarflokkarnir eiga það sameiginlegt að þeir vilja halda í forréttindi ákveðinna hópa og eru neikvæðir í garð frekara alþjóðasamstarfs Íslands. VG er reyndar sér á báti að því leyti að í orði vill flokkurinn hvorki vera í Atlantshafsbandalaginu né EES, en formaður flokksins mætir þó glaður á ráðstefnur NATO án þess að frést hafi af ólátum af hennar hálfu.

Sjálfstæðisflokkurinn var alltaf í fylkingarbrjósti þeirra sem vildu greiða fyrir frjálsum viðskiptum þjóða á milli og samræmdum reglum á alþjóðavettvangi. Ísland var stofnaðili að AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðnum), NATO (Norður-Atlantshafsbandalaginu), OECD (Efnahags- og framfarastofnun Evrópu) og WTO (Alþjóðaviðskiptastofnuninni). Landið gekk í EFTA (Fríverslunarsamtök Evrópu) og EES (Evrópska efnahagssvæðið) þegar flokkurinn var í stjórn með Alþýðuflokknum. Þátttaka Íslendinga í allri þessari stafasúpu hefur orðið þjóðinni til mikillar gæfu. Við höfum notið þess að vera með í hópnum, fengið leiðbeiningar og stundum tiltal, viðskiptahindrunum hefur verið rutt úr vegi og íslensk fyrirtæki og íslenskir neytendur notið góðs af.

Nú er öldin önnur. Undir forystu landbúnaðarráðherra er stigið skref aftur á bak í útboðum á tollkvótum á landbúnaðarafurðum og utanríkisráðherra vill taka upp samning um innflutning á þessum vörum, samning sem opnaði smáglufu í verndarmúrana umhverfis Ísland. Enn og aftur fer flokkurinn leið hafta og tollverndar í stað þess að beina beinum styrkjum til bænda, styrkja þá og verja neytendur um leið. Ítrekað líta Sjálfstæðismenn á íslenska neytendur sem afgangsstærð, sem eigi að vera annars flokks, hafa minna val en neytendur í nágrannalöndum og borga hærra verð.

Flokksmenn VG hafa svo sett fram frumlega ástæðu fyrir því að íslenskir neytendur eigi að borga meira en aðrir fyrir erlendar landbúnaðarvörur (og helst ekki fá að kaupa þær). Þær myndi svo stórt kolefnisspor. En aldrei heyrist hljóð úr ranni flokksins um að stöðva beri útflutning á fiski (eða landbúnaðarvörum) vegna kolefnisspors. Líklega stíga þessar vörur léttar til jarðar á leiðinni úr landi en þær innfluttu.

Kosningar – en um hvað?

Þegar ríkisstjórnin var mynduð var eining um það milli stjórnarflokkanna að hún yrði stefnulaus. Markmiðið væri kyrrstaða. Hjá VG réði metnaður um að fá að leiða ríkisstjórn jafnvel þótt það kostaði flokkinn tvo þingmenn. Þegar stjórnin var kominn af stað var kappsmálið að hún sæti til loka kjörtímabilsins.

En eins og þjóðskáldið sagði er svo bágt að standa í stað. Af því rekaldið mátti ekki fara áfram var eina leiðin aftur á bak. Komum betur að því síðar.

Á líðandi ári hefur lítil pólitík verið á Íslandi. Allur kraftur hefur farið í baráttuna við kórónuveiruna og flestir hafa lagst á árarnar um að halda henni skefjum. Lengst af voru embættismenn látnir stjórna ferðinni og þríeykið svonefnda naut vinsælda og virðingar. Ráðherrar horfðu á þetta öfundaraugum, vildu sjálfir njóta sviðsljóss og velvildar og hafa verið meira áberandi í haustbylgjunni en áður. Sú ákvörðun gerir enn meiri kröfur til þeirra en ella um að vera öðrum góð fyrirmynd.

Öll stjórnmál hverfa í skugga veirunnar. Hún er gott skjól því að það er nánast eins og landráð að gagnrýna það sem miður fer. Svarið er alltaf: „Veistu ekki að það er heimsfaraldur í gangi?“ En nú tala foringjarnir eins og prédikarar á trúarsamkomu um ljósið við enda ganganna. Bóluefnið er komið til landsins og vonandi verður það nægilegt til þess að útrýma þessari ömurlegu veiru sem allra fyrst.

Fylgifiskar veirunnar eiga aftur á móti eftir að elta okkur lengi. Samkvæmt fjármálaáætlun til áranna 2021 til 2025 verða ríkisfjármálin nánast í rúst í lok tímabilsins. Á hverju einasta ári er gert ráð fyrir halla sem alls nemur meira en þúsund milljörðum á fimm ára tímabili hjá ríki og sveitarfélögum að frátöldum opinberum fyrirtækjum. Í lok árs 2025 verður hrein eign orðin neikvæð samkvæmt áætluninni.

Ríkisstjórnin tók við svo góðu búi að hún taldi eðlilegt að stórauka útgjöld og hunsaði viðvaranir um að aftur gæti komið kreppa. Hún taldi sig nefnilega vera búna að minnka líkur á síðustu kreppu, sem öllum að óvörum kom ekki aftur. Það er fjarri mér að halda því fram að ég hafi séð Covid-kreppuna fyrir, en ég veit að eina fyrirhyggjan, sem hjálpar í öllum kreppum, er að borga niður skuldir. Þegar ég var fjármálaráðherra lagði ég fram fjármálaáætlun þar sem útgjöld ríkisins drógust saman um 3% af landsframleiðslu. Því markmiði var auðvitað hent út í hafsauga af núverandi stjórnarflokkum.

Í stað forsjálni og ábyrgðar náði ríkisstjórnin að reka ríkissjóð með milljarða halla í hagvexti síðasta árs. Slíkt er líka léttvægt í stjórnmálum samtímans, enginn krafðist afsagnar ráðherra eða afsökunarbeiðni. Fæstir vita að það var halli í góðærinu.

En áætlaður halli næstu fimm ár og skuldirnar sem honum fylgja verða eitt meginverkefni stjórnmálanna næsta áratug. Í bili er vaxtastig lágt, en þegar vextir hækka á ný, sem einhvern tíma gerist, hækkar vaxtabyrði hins opinbera og þá verður minna til skiptanna.

Stundum verða kreppur til þess að stjórnmálamenn þora að gera hluti sem annars er vonlaust að ráðast í. Næsta ríkisstjórn gæti snúist um að breyta þessari kreppu í tækifæri, ná fitunni af ríkisrekstrinum og hætta að gera kjánalega hluti.

Hvernig væri að hugsa um hag neytenda og hætta að vera með gjaldmiðil sem hræðir útlend fyrirtæki frá því að taka þátt í samkeppni um viðskipti Íslendinga? Eða að láta veiðileyfi á Íslandsmiðum fylgja markaðsvirði?

Við gætum hætt að skipta okkur af því hvort fólk vill borða mat sem er framleiddur í útlöndum. Einhver þyrði kannski að velta því fyrir sér hvers vegna ríkið rekur undirfataverslun á Keflavíkurflugvelli?

Við breytum trauðla því sem liðið er, en hvernig væri að varpa af sér hlekkjum hugarfarsins og nota kreppuna til þess að efla Ísland fyrir komandi kynslóðir í stað þess að láta þær sitja í skuldasúpunni? Um það ættu kosningarnar að snúast.

Óheilbrigð stjórnun

Líklega hefur skaðsemi ríkisstjórnarinnar hvergi komið jafnberlega fram og í heilbrigðiskerfinu. Ríkisstjórnarflokkarnir horfa fyrst og fremst á eflingu ríkisrekstrar, en ekki vanda fólksins sem vantar þjónustu. Þegar sjúklingar hafa beðið þess óhóflega lengi að komast í aðgerðir á Landspítalanum eru þeir sendir á einkaklíník í Svíþjóð vegna þess að ríkisstjórnin má ekki til þess hugsa að semja við sambærilega einkarekna stofu í Ármúlanum.

Rifjum upp viðtal Morgunblaðsins við Ágúst Kárason bæklunarlækni, sem er einn virtasti læknir landsins og nýtur álits langt út fyrir landsteinana. Hann sagði: „Það er eins og það sé heilaþvottur í gangi um það að það þurfi allt að vera ríkisrekið inni á spítölunum, en misskilningurinn er sá að sérfræðikerfið, sem hefur alltaf verið með samning við Sjúkratryggingar, er hluti af opinbera kerfinu. Ef það leggst niður mun það þýða það að þjónustan á spítölunum verður verri og það myndast alvöru tvöfalt kerfi.“

Hluti af trúarbrögðum núverandi ríkisstjórnar er að láta heilbrigðisráðherra beita sér gegn nýliðun sérfræðilækna utan sjúkrahúsa og koma í veg fyrir að þeir geti opnað stofur. Samt hafa nær allir Íslendingar góða reynslu af einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Apótek eru einkarekin, sem og tannlæknastofur, sjúkraþjálfun og elliheimili, svo dæmi séu tekin.

Ágúst bætir við: „Þetta er ríkisvæðingarstefna dauðans, þessi aðstaða er öll til hjá sérfræðingum utan spítalans.“

Með ofurtrú ríkisstjórnarinnar á ríkisrekstur mætti ætla að stærstu spítalar landsins blómstruðu í skjóli verndarinnar. Nýlega kom út greining á heilbrigðiskerfinu frá McKinsey, einu virtasta ráðgjafafyrirtækis heims, og því eru heimatökin hæg að kanna hvernig til hefur tekist. Í stuttu máli er skýrslan áfall fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

Skoðum nokkrar niðurstöður: Afköst á starfsmann (framleiðni) hafa minnkað bæði á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Stöðugildum hefur fjölgað hratt og miklu hraðar en sjúklingum á legudeildum. Framleiðni á hvern lækni minnkaði um 5,4% á Landspítala og 7,3% á Sjúkrahúsinu á Akureyri á árunum 2015-2019. Sömu sögu er að segja um framleiðni hjúkrunarfræðinga. Hún hefur líka lækkað og hjúkrunarstundum á hvern sjúkling hefur fjölgað um 2,1% á Landspítala og 4,0% á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Fáum dettur í hug að þennan vanda megi rekja til starfsmannanna, því auðvitað eru þeir jafnhæfir núna og þeir voru árið 2015. Eftir höfðinu dansa limirnir og vandinn liggur í stefnunni. Vitnum beint í skýrsluna: „Það er samdóma álit bæði greiðenda og þjónustuveitenda að núverandi fjármögnunarkerfi skorti gagnsæi, hvata til framleiðni og að það veiti ekki skýra stefnumörkun.“ Bætt er við: „Fyrirkomulagið hefur þvert á móti letjandi áhrif á viðbótarframleiðslu því henni fylgir ekki aukið fjármagn.“

Þessi skýrsla er ekki skrifuð af pólitískum andstæðingum eða spældum læknum í einkarekstri. Þvert á móti af færustu sérfræðingum sem ráðuneytið sjálft fékk til þess að taka út heilbrigðiskerfið.

Ríkisstjórnin rekur sannarlega ríkisvæðingarstefnu dauðans. Eftir kosningar þarf að koma á heilbrigðisþjónustu sem setur fólk í fyrsta sæti, ekki kerfið.

Maðurinn – aldrei boltinn

Upp til hópa eru íslenskir stjórnmálamenn geðugt fólk sem talar af yfirvegun í persónulegum samræðum. En um leið og kveikt er á hljóðnema er eins og allt breytist. Opinberlega fer lítið fyrir málefnalegum umræðum. Á Alþingi gerist það vissulega að mál séu rædd af skynsemi og yfirvegun. Hitt vekur þó miklu meiri athygli þegar haldið er uppi innihaldslausu málþófi eða settar fram fyrirspurnir sem eiga að gera lítið úr þeim sem spurður er. Sá sem fyrir svörum situr hverju sinni forðast að svara spurningunni, þæfir málið eða svarar einhverju allt öðru. Hvorki spurningin né svarið auka hróður Alþingis.

Svo fágætt þykir að umræður varpi ljósi á ágreining sem um er að ræða, að Jónas heitinn Haralz hagfræðingur færði það oftar en einu sinni í tal hve upplýsandi ræður hefðu verið haldnar um seðlabankafrumvarpið á Alþingi árið 1928!

Þegar komið er að raunverulegum og stefnumarkandi málum sem fjallað er um í fjölmiðlum, annað hvort í fréttum eða greinum er svipað uppi á teningnum. Í stað þess að málefnalega sé svarað er gripið til persónulegs skætings. Þegar kosningar nálgast er ráðist persónulega að andstæðingum, stundum af leigupennum eða huldufólki. Fyrir síðustu kosningar var haldið úti sérstökum skrímsladeildum stuðningsmanna að minnsta kosti tveggja stjórnmálaflokka, kannski fleiri. Foringjar flokkanna þykjast ekki kannast við neitt þegar þeir eru spurðir um þessar nafnlausu sveitir, sem hafa það hlutverk að sverta andstæðingana og afflytja þeirra málstað. Búast má við því að fleiri muni beita slíkum aðferðum í kosningum á komandi ári. Það er veikur málstaður sem þarf á því að halda að fara sífellt í manninn en aldrei í boltann.

Stundum erum við heppin

Það var gæfa Íslendinga að árið 1991 leiddu stjórnmálaforingjar þess tíma, þeir Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson, okkur inn í Evrópusambandið með dyggri aðstoð Björns Bjarnasonar. Að vísu urðum við bara aukaaðilar í gegnum EES-samninginn og fáum ekki að sitja við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Samt er óhætt að fullyrða að lífskjör þjóðarinnar séu miklu betri nú en þau hefðu ella verið vegna þess að þetta mikilvæga skref var stigið á sínum tíma. Íslendingar eru hluti af stærsta viðskiptabandalagi heimsins og það eigum við þessum mönnum að þakka.

Þess vegna eigum við ekki að grafa undan þeim mikla lífskjarabata sem aðildin hefur fært okkur með því að tuða um hve bandalagið sem við erum í sé slæmt eða að úrsögn Breta úr því geri Ísland að landi tækifæranna. Við áttum frábært viðskiptasamband við Breta og vonandi verður það áfram gott, en popúlistabull sjálfhverfra íhaldsmanna bætir það síst.

Fyrir jólin birtist frétt um að vörubílstjórar mættu ekki taka með sér samlokur með skinku og osti frá Bretlandi til Evrópusambandsins eftir áramót. Það fyrsta sem ég hugsaði var: „Nú er Boris Johnson aftur farinn að semja Evrópufréttirnar.“ En stutt gúgl leiddi í ljós að þetta mun vera rétt. Að vísu eru Bretar hvorki þekktir af góðum ostum né skinku þannig að kannski er þetta hið besta mál fyrir vörubílstjóra. Skyldu leynast tækifæri fyrir Ísland í þessu?

Skjótt skipast veður í lofti

Þegar ég byrjaði að skrifa þessa grein fyrir nokkrum dögum var ýmislegt með öðrum brag.

Þá voru taldar miklar líkur á því að Bretar gengju úr Evrópusambandinu án samnings, sem var örugglega versta niðurstaðan fyrir alla. Svo fór að þeir hafa nú staðfestingu á 1.246 blaðsíðum á því að þeir megi gera það sem þeim sýnist.

Skömmu fyrir jól spurðu margir í alvöru á samfélagsmiðlum hvort heilbrigðisráðherra ætti að segja af sér vegna fyrirsjáanlegs skorts á bóluefni. Ég blandaði mér í þá umræðu: „Eins og allir vita er ég ekki sérlegur bandamaður heilbrigðisráðherrans eða VG, en nú skulum við ekki rasa um ráð fram. Öllum finnst þetta ganga hægar en það ætti að gera, en myndin skýrist á næstu vikum. Ég hef reyndar fulla trú á því að við fáum fljótlega jafnmikið bóluefni og aðrir og held þeirri trú þangað til annað kemur í ljós.“ Af einhverjum ástæðum hefur þessi umræða hjaðnað.

Á aðfangadagsmorgun var ég á leið til vinnu á skrifstofuna eins og ég hef gert í áratugi. Í útvarpinu var þægilegt viðtal við fjármálaráðherra og konu hans um æskuástina og barnauppeldi. Mér fannst þetta koma vel út fyrir þau og eflaust margir að hlusta.

Rétt fyrir tíu var hringt í mig og ég spurður hvort ég hefði heyrt fréttirnar úr dagbók lögreglunnar. Klukkutími er langur tími í pólitík.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 29. desember 2020