30.573

Nú keppast fjölmiðlar við að gera upp forsetatíð Trumps. Miðillinn Fact Checker sem hefur fylgst með honum allt kjörtímabilið hefur fundið út að 30.573 sinnum sagði hann ósatt eða var með villandi fullyrðingar, sem þýðir að hann hafi farið með rangt mál 21 sinni á dag í þann 1.461 dag sem hann var forseti. Og það á aðeins við um það sem hann sagði opinberlega.

Þetta er góð áminning fyrir leiðtoga í stjórnmálum, stofnunum og fyrirtækjum, að það verður æ erfiðara að fara með rangt mál. Réttmæti fullyrðinga má kanna á Google og fjölmargir miðlar sérhæfa sig í sannreyningu eins og fyrrnefndur Fact Checker.

Að mínu mati er það einn mikilvægasti eiginleiki stjórnmálamanna og stjórnenda að segja satt og rétt frá málum. Ýkjur eða ósannindi komast upp um síðir. Það kemur þeim fyrr eða síðar í koll ef þeir verða uppvísir að því að segja ósatt. Það sannaðist til dæmis í hruninu, þegar almenningi var sagt að bankarnir væru fjárhagslega sterkir fram á síðasta dag.

Þegar ég var að skrifa þessa bakþanka las ég tvö viðtöl við utanríkisráðherra okkar, sem fullyrti að „vöruverð í landinu muni hækka tilfinnanlega við hugsanlega inngöngu Íslands í ESB“.

Með einföldu gúgli fann ég ábendingu Hagstofunnar um að verðlag á Íslandi er nú þegar það hæsta í Evrópu eða um 20-66% hærra en að meðaltali í Evrópu. Mér finnst að ráðherrann þurfi að færa rök fyrir sínu máli, en það er ákveðin mótsögn falin í því að fullyrða að verðlag hér á landi muni hækka við það að ganga í samband þjóða þar sem verðlagið er þegar mun lægra fyrir.

Stjórnmálamenn!… hættið að plata okkur, það er svo auðvelt að afsanna rangar fullyrðingar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. janúar 2021