Inn með gleði og frið

Vinsælt jólalag sem Pálmi Gunnarsson syngur viðtexta Magnúsar Eiríkssonar byrjar svo: „Út með illsku og hatur“. Sú ósk virðist vera að rætast.

Nú er tæp vika til forsetaskipta í Bandaríkjunum. Síðustu fjögur ár þar í landi hafa einkennst af hatursorðræðu Trumps sem endaði með mannskæðri innrás í þinghúsið í Washington af hatursfullum fylgjendum hans. Trump hefur allan tímann alið á hatri milli þjóðfélagshópa og haldið uppi hvatningu til sundrungar, kynþáttafordóma og ofbeldis.

Þarna endurtekur sagan sig þar sem leiðtogar fyrri alda hafa nýtt sér sundrungu og hatur sér til framdráttar. Nægir að nefna gyðingahatur, andúð á innflytjendum og þjóðfélagshópum þar sem hópum er skipað í „við og þið“.

Trump hefur átt sína áhangendur um allan heim en þó síst á Íslandi þar sem aðeins um 4% landsmanna styðja hann samkvæmt nýjustu skoðanakönnun. Hvað veldur því að hann hefur minnst fylgi í heiminum hér? Ég tel að skýringin felist einmitt í því sem skiptir mestu máli þegar við viljum forðast hatur, sundrungu og kynþáttafordóma ráðamanna. Svarið felst í öflugu menntakerfi og menntun!

Við þurfum að efla menntun á öllum stigum um sögu haturshvetjandi leiðtoga, mikilvægi samúðar, miskunnsemi og umburðarlyndis og ekki síst að kenna fólki að elska náungann eins og sjálfan sig.

Næsta setningin í jólalaginu hans Magga Eiríks er „inn með gleði og frið“.

Látum það verða hvatningu á nýju, friðsælla og haturslausu ári.