Lygarar, bölvaðir lygarar og Trump

Benedikt Jóhannesson

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins segir: „Fjölmiðlar með minnstu sómakennd afhjúpa lygalaupa sem þykjast hafa heimildir. Ella sitja þeir sjálfir uppi með alla lygina, og stórskaðaða ímynd um langa hríð.“
Stórblaðið Washington Post fylgir leiðbeiningum Reykjavíkurbréfs og hefur undanfarin fjögur ár fylgst með yfirlýsingum Trumps forseta og kannað sannleiksgildi þeirra. Síðastliðinn laugardag birtist yfirlit um kjörtímabilið. Samkvæmt talningu blaðsins sagði forsetinn fyrrverandi 30.573 sinnum ósatt eða setti fram villandi fullyrðingar á kjörtímabilinu. Talningin náði aðeins til þess sem forsetinn sagði í ræðum, opinberum viðtölum eða yfirlýsingum á samfélagsmiðlum sem ætla má að hafi aðeins tekið vel innan við 10% af tíma hans.

Sumir eiga létt með að segja ósatt. Þeir hafa þann fágæta eiginleika að geta logið blákalt og ítrekað án þess að kippa sér upp við það, meðan á öðrum er hægt að sjá að þeim finnst óþægilegt að skrökva.

Fyrir rúmum aldarfjórðungi birtist í Vísbendingu greinin „Hvers vegna brjóta menn af sér í starfi?“ eftir sálfræðingana Sigurð J. Grétarsson og Ástu Bjarnadóttur. Þar segir meðal annars:

„Loks þarf að minnast á þá sem á íslensku eru kallaðir geðvilltir eða siðblindir. Þá skortir hæfileika til að setja sig í spor annarra og finnst sem þeir séu hafnir yfir lög og rétt. Nýlegar rannsóknir benda til þess að hjá þeim sé starfsemi óvenjudauf á heilasvæðum sem móta tilfinningaleg viðbrögð, eins og kvíða, iðrun og réttlætiskennd.

Sjaldgæft er að þetta ástand sér greint hjá manni fyrr en eftir að hann hefur brotið ítrekað af sér. Reyndar er hugtakið siðblinda iðulega notað sem merkimiði á síbrotamenn, fremur en til forvarna. En næsta víst er að blygðunar- og óttaleysi er ekki alltaf til trafala í viðskiptum og sumir álíta, án þess að það sé fræðilega staðfest, að siðblindir menn njóti oft velgengni.

Eðli málsins samkvæmt er erfitt að vara sig á slíkum mönnum, tunguliprum, óttalausum og blygðunarlausum, og því er sem stendur erfitt að veita önnur ráð en almenna varkárni til að verjast slíkum sendingum.“

Skyldi það sama gilda í stjórnmálum? Bandaríkjaforsetinn fyrrverandi átti greinilega auðvelt með að ná til ákveðins hóps kjósenda meðan aðrir sáu strax í gegnum blekkingarvef hans. Jafnvel vel menntað og skynsamt fólk sem ætti að hafa óbrenglaða dómgreind kýs að trúa fagurgala forsetans um eigið ágæti. Sumir hrífast af „sterka stjórnmálamanninum“ jafnvel þótt hann sé augljóslega siðblindur kjáni.

Stuðningsmenn Trumps töpuðu meira en 60 málum þar sem þeir reyndu að snúa við úrslitum kosninganna. Menn með minnstu sómakennd vita að réttarríkið er vörn almennings gegn yfirgangi og misferli, bæði frá ótíndum glæpamönnum og spilltum stjórnmálamönnum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. janúar 2021.