Við viljum frjálslynda miðjustjórn

Viðreisn varð til vegna þess að það myndaðist tómarúm hægra megin við miðju stjórnmálanna. Í hreinu vinstristjórninni eftir hrun fór Samfylkingin alveg upp að VG og hefur vart þokast þaðan síðan. Í kjölfarið fór Sjálfstæðisflokkurinn á eftir núverandi forystu Miðflokksins mjög langt til hægri og yfirgaf samhliða forystuhlutverk sitt um utanríkismál og evrópska samvinnu. Munurinn milli hans og Miðflokks minnkar stöðugt.

Eftir þetta þurfti nýtt frjálslynt afl til þess að mynda kjölfestu næst miðjunni. Afl sem stendur vörð um verðmætasköpun og velferð. Talar fyrir kerfisbreytingum og alþjóðlegri samvinnu. Ábyrgum rekstri ríkissjóðs og frelsi einstaklinga. Við höfðum enga draumóra um að sigra heiminn en höfðum ástríðu fyrir okkar hugmyndum. Hún er óbreytt.

Það þarf hreyfiafl í næstu ríkisstjórn

Þetta þýðir að hrein vinstristjórn getur ekki orðið til með Viðreisn. Á sama hátt verður hrein íhaldsstjórn yst til hægri ekki til með Viðreisn. Til þess að Viðreisn fari í ríkisstjórn þarf málamiðlanir þar sem frjálslyndi næst miðjunni verður kjölfestan. Ég hef áður skrifað að valið stendur á milli íhalds, lengst til hægri og vinstri, eða frjálslyndis.

Núverandi stjórn var mynduð sem sáttargjörð milli íhaldsaflanna í VG og Sjálfstæðisflokknum. Svona kyrrstöðustjórn gat gengið í góðæri. Ef við eigum hins vegar að geta vaxið út úr kreppunni þarf nýja hugsun og nýjar lausnir. Áframhaldandi íhaldssemi er loforð um kyrrstöðu og kyrrstaða er loforð um niðurskurð velferðarkerfisins þegar svigrúm til áframhaldandi lántöku þrýtur.

Næsta ríksstjórn þarf því að vera hreyfiafl sem auðveldar atvinnulífinu að hlaupa hraðar og skapa aukin verðmæti. Það er lykilatriði svo stjórnmálafólk geti varið velferðar- og menntakerfið og hér verði samkeppnishæf lífskjör.

Öllum má vera ljóst að ný ríkisstjórn verður ekki hreyfiafl nema hún sé reiðubúin til breytinga. Áherslur okkar í Viðreisn miða að því að auðvelda viðreisn atvinnulífsins og ríkisfjármálanna. Skapa verðmæti og verja velferðina.

Samstarfsmöguleikar um kerfisbreytingar

Við þurfum stöðugan gjaldmiðil. Eins og málum er nú háttað er brýnast að tengja krónuna við evru. Það er mikilvægt fyrir heimilin, ríkissjóð og lífeyrissjóðina og forsenda kraftmikillar nýsköpunar í þekkingariðnaði, sem verður að eiga sér stað á næstu árum. Fyrir útflutningsgreinarnar er stöðugur gjaldmiðill lykilatriði enda engin tilviljun að stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi og iðnaði gera upp í erlendum gjaldmiðlum. Meðan að almenningur situr uppi með áhættuna með krónuna.

Við þurfum umhverfi þar sem öflugir fjárfestingasjóðir og bankar fyrir atvinnulífið geta þrifist og nýsköpunarfyrirtæki eiga raunverulega möguleika á að sækja sér fjármagn til að vaxa og dafna á Íslandi. Í dag er Ísland lítið annað en stökkpallur fyrir nýsköpunarog þekkingarfyrirtæki sem sjá litla möguleiki á því að gera Ísland að sínu framtíðarheimili. Nú þegar heimurinn allur stendur frammi fyrir því að þurfa hugsa ótal hluti upp á nýtt má Ísland ekki verða land kyrrstöðu. Stjórnvöld sem hafa hvorki vilja né þor til að stokka upp í úreltum kerfum geta aldrei leitt þjóðina út úr djúpri kreppu og þrengingum.

Við höfum einnig ítrekað að þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni verði tryggð með tímabundnum samningum í stjórnarskrá. Við viljum hagnýta markaðinn til að finna eðlilegt verð. Um leið leggjum við áherslu á aukið gegnsæi og dreifða eignaraðild stærstu fyrirtækja í sjávarútvegi.

Samstarfsmöguleikar um ábyrg ríkisfjármál

Þegar kemur að ríkisfjármálunum hefur ríkisstjórnin þegar samþykkt fármálaáætlun til fimm ára. Mitt mat er að ekki verði erfitt fyrir okkur að ná saman um heildarramma hefðbundinna útgjalda á þeim grunni.

Samfylkingin hefur ákveðið að festa sig á vinstri vængnum, ekki síst til að höfða til kjósenda VG. Hætta er á að það kalli á stóraukin hefðbundin útgjöld og hærri skatta. Líklegt er að það versni til muna þegar sígilt útgjaldakapphlaup vinstri flokka hefst rétt fyrir kosningar. Það gerðist síðast og mun gerast aftur. Þetta getur gert samninga um ábyrga ríkisfjármálapólitík erfiða fyrir okkur sem viljum frjálslynda og ábyrga miðjustjórn.

Þetta eru bara dæmi, sem sýna að málefnastaðan getur verið flókin. Í heilbrigðismálum á t.a.m. að einblína á sjúklinginn sjálfan. Ef það þýðir að við þurfum að nýta bæði opinbera sem sjálfstætt starfandi aðila þá gerum við það. Vinstri flokkarnir (og ríkisstjórnin) hafa átt erfitt með að þessa stefnu okkar enda valfrelsi þeim ekki efst í huga. Á hinn bóginn eru mál eins og jafnrétti, mannréttindi og umhverfismál ekki ofarlega á forgangslista hægri íhaldsflokkanna. Eins ótrúlegt og það er.

Ég hef með mjög ákveðnum hætti sagt að Viðreisn mun ekki útiloka samstarf við einhverja flokka fyrirfram. Einu takmörkin sem við setjum er að vera trú þeirri grundvallarhugmyndafræði, sem við tölum fyrir.

Flókið púsluspil frekar en einföld samlagning

Ég vil einfaldlega vera hreinskilin um það fyrir kosningar hvar ég sé málefnalega möguleika á samstarfi og hvar ég sé málefnalegar þrengingar. Umræður um stjórnarmyndun, sem byggist eingöngu á einfaldri samlagningu á þingsætum flokka segja ekki mikið.

Hitt er áhugaverðara að rýna meira í hvernig koma má saman flóknu púsluspili misjafnlega ólíkrar hugmyndafræði.

Sjálfstæðisflokkurinn vill íhaldsstjórn, Samfylkingin vill hreina vinstri stjórn, Viðreisn vill frjálslynda stjórn. Þetta eru kostirnir, sem kjósendur hafa.

Því sterkari sem Viðreisn kemur til leiks því meiri líkur eru á að frjálslynd viðhorf móti þá ríkisstjórn, sem bera mun ábyrgð á viðreisninni eftir kórónuveirukreppuna. Það er ekkert skyndiáhlaup, heldur langtímaverkefni, sem kallar á heilsteypt samstarf og skýra sýn á framtíðina.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. janúar 2021