30 jan Virkni gegn atvinnuleysi
Við viljum öll tilheyra samfélagi. Samfélagið getur verið fjölskyldan okkar, vinir, áhugamálin okkar og þjóðin öll. Mikilvægt samfélag fyrir marga er tengt vinnuumhverfinu okkar. Við eigum vini og félaga í vinnunni. Vinnan setur okkur í rútínu yfir daginn, þó svo að hún taki stundum yfir of mikinn tíma. Við skilgreinum okkur að hluta út frá vinnunni. Þannig er vinnan okkar á hverjum tíma hluti af sjálfsmyndinni.
Þegar við missum vinnuna, líkt og nú hefur gerst fyrir allt of marga, missum við meira en bara tekjurnar sem vinnunni fylgja, við missum lífsgæði. Í lok desember voru 21.365 einstaklingar skráðir atvinnulausir, þar af 8.606 í Reykjavík. Við vitum að þar að auki eru þau sem misst hafa rétt til almennra bóta eða hafa aldrei haft slíkan rétt. Það er fólkið sem kemur til sveitarfélaganna til að fá fjárhagsaðstoð. Við vitum að langtímaatvinnuleysi hefur veruleg áhrif á sálarlíf og virkni fólks. Við vitum líka að langtímaatvinnuleysi dregur úr líkunum á því að snúa aftur á vinnumarkað, nema með töluverðum stuðningi.
Við þurfum að tala um atvinnuleysið
Sveitarfélag getur ekki skapað störf fyrir alla þá íbúa sem vantar vinnu. En í samstarfi við önnur sveitarfélög, ríkið og þriðja geirann er hægt að bjóða samhliða upp á önnur virkniúrræði til að styðja við þau sem misst hafa vinnuna. Við höfum nú um tíma einblínt á hvernig við getum aðstoðað fyrirtækin sem hafa verið í vanda. Og þess þarf líka. En nú fjölgar þeim verulega sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur. Það er líka sérstakt áhyggjuefni hversu fjölmennt ungt fólk er meðal þeirra sem eru án atvinnu. Langtímaatvinnuleysi ungs fólks getur orðið samfélaginu mjög dýrt, ef við náum þeim ekki inn á vinnumarkaðinn aftur.
Samþykkt að skapa 200 störf í Reykjavík
Sem hluta af Græna planinu, endurreisn Reykjavíkur upp úr kreppunni, hafa verið samþykktar aðgerðir til að styðja fólk aftur til vinnu. Í borgarráði á fimmtudag samþykktum við markvissar vinnu- og virkniaðgerðir til þess að hjálpa Reykvíkingum sem fá atvinnuleysisbætur eða fjárhagsaðstoð til vinnu. Fyrsti áfangi mun hefjast í febrúar, þegar skapa á um 200 störf og stuðningsúrræði, meðal annars í samstarfi við Vinnumálastofnun. Heildarkostnaður vegna þessara aðgerða verður tæplega 500 m.kr. Góð reynsla er af vinnumarkaðsaðgerðum hjá Reykjavíkurborg, eftir markvissar aðgerðir eftir efnahagshrunið 2008. Við höfum því miður á góðum grunni að byggja.
Til að auka árangur af atvinnu- og virknimiðlun þarf líka markvissar aðgerðir til að hvetja fólk áfram við að leita sér vinnu, koma upp færnibrúm, nýta raunfærnimat og þau námskeið sem Vinnumálastofnun býður upp á. Einnig þarf að hefja samtal við Vinnumálastofnun um hvers konar námskeiðum þörf er á, til að styðja fólk betur til starfsleitar.
Endurskoðum virkniúrræði í þágu notenda
Við samþykktum líka í borgarráði á fimmtudag að endurskoða átaksverkefni borgarinnar til þess að þróa virkniúrræði betur. Þar er innifalin tillaga um samstarf við Hugarafl um endurhæfingarúrræði fyrir óvinnufæra einstaklinga sem lengi hafa þegið fjárhagsaðstoð. Velferðarsvið Reykjavíkur hefur mörg úrræði að bjóða til að efla virkni og styðja við einstaklinga, svo sem Kvennasmiðjuna, Karlasmiðjuna, Grettistak, Tinnu, OPS og Bataskólann.
Með endurskoðun á þessum átaksverkefnum viljum við ná betri yfirsýn yfir starfsemina og þau úrræði sem eru í boði, geta betur leiðbeint fólk í rétt úrræði og halda áfram að þróa úrræðin í þágu þeirra sem þurfa á þeim að halda. Endurskoðunin mun leiða af sér einföldun og meiri sveigjanleika fyrir notendur. Í ljósi núverandi ástands er t.d. þegar ljóst að núverandi átaksverkefni styðja ekki nægjanlega vel við þau sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og bregðast þarf strax við því.
Stöndum saman gegn atvinnuleysinu
Það er okkar allra hagur að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi og í því verkefni þurfum við að standa saman, ríki, sveitarfélög, atvinnulífið og félagasamtök. En mikilvægast er það fyrir einstaklingana sem eru atvinnulausir að sjá möguleikann á nýju starfi og finna stuðning út úr atvinnuleysinu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. janúar 2021