Brexit er efnahagslegt högg fyrir Breta

Andrés Pétursson

Flestir sér­fræð­ingar eru sam­mála um að efna­hags­lega muni Bret­land líða fyrir Brex­it. Í leyni­skýrslu sem bresk yfir­völd létu gera, en var lekið árið 2018, var áætlað að hag­vöxtur myndi lækka á bil­inu 2-8% á ári í að minnsta kosti 15 ár eftir útgöngu Breta. Hærri talan gerði ráð fyrir að Bretar myndu ganga út án sam­ings en sú lægri ef hag­stæðir samn­ingar myndu nást. Sam­bæri­legar spár birt­ust í nýlegu hefti The Economist. Það er að vísu alltaf erfitt að spá fyrir um fram­tíð­ina en nán­ast allir hag­fræð­ingar eru sam­mála að breska hag­kerfið muni hökta næstu árin.

„Singa­pore við Thames“ eða „Singa­pore á sterum“ voru tvö af þeim hug­tökum sem stundum voru nefnd í umræðu í aðdrag­anda Brex­it. Frjáls­hyggju­menn hafa löngum dreymt um ein­hvers konar toll­frjálsa við­skiptapara­dís á bökkum Thames, í lík­ingu við Singa­pore. Hug­myndin er að Bret­landi yrði lág­skattapara­dís með litlum rétt­indum laun­þega­fé­laga þar sem alþjóð­leg fyr­ir­tæki eins og Goog­le, Amazon og Face­book gætu þrif­ist. Þessar hug­myndir eru að mestu leyti and­vana fæddar eftir sam­komu­lag Breta við Evr­ópu­sam­band­ið. Þar eru ákvæði sem koma í veg fyrir hugs­an­leg félags­leg und­ir­boð Breta. Þar að auki er lítil stemmn­ing í Íhalds­flokknum fyrir þessum hug­myndum enda óvíst að slíkar hug­myndir myndu mæl­ast vel fyrir hjá breskum almenn­ingi. Breska stjórnin liggur undir ámæli vegna mik­illlar útbreiðslu COVID-19 í land­inu og nýj­ustu kann­anir gefa til kynna að Íhalds­menn muni eiga undir högg að sækja í næstu kosn­ing­um. Það er því ekki lík­legt að flokk­ur­inn leggi í rót­tækar aðgerðir eins og ein­hvers konar efna­hags­legt frí­s­væði á bökkum Thamesár­inn­ar.

Frí­versl­un­ar­samn­ingar skipta æ minna máli

Brex­it-­sinnar töl­uðu fjálg­lega um hina miklu mögu­leika sem „frjáls­ir“ frí­versl­un­ar­samn­ingar við lönd um allan heim myndu færa Bret­um. En pössuðu sig á að nefna ekki að meira en helm­ingur af við­skiptum Breta er við lönd Evr­ópu­sam­bands­ins. Helst var á þeim að skilja að nán­ast öll lönd heims stæðu í bið­röð við að gera við­skipta­samn­ing við Breta. Það væri nán­ast forms­at­riði að klára þessa samn­inga. En hvernig er staðan núna fjórum árum eftir að Brexit var sam­þykkt? Eini nýi frí­versl­un­ar­samn­ing­ur­inn sem Bretar hafa gert á þessum tíma er við Jap­an. Síðan hafa þeir tekið yfir samn­inga við 59 lönd sem þeir voru hvort sem er með innan ESB. Þar að auki tóku þeir líka yfir bráða­birgða­samn­ing við Kanada. Eini nýi samn­ing­ur­inn sem er í burð­ar­liðnum er við Ástr­al­íu. Þess má geta í þessu sam­hengi að ESB er með við­skipta­samn­inga við 78 lönd eða land­svæði og er í við­ræðum um 30 slíka samn­inga til viðbótar.

Hins vegar bólar ekk­ert á frí­versl­un­ar­samn­ingum við stór­veldin Banda­ríkin og Kína. Reyndar eru Banda­ríkin með jákvæðan vöru­við­skipta­jöfnuð við Bret­land þannig að það er lítið sem ýtir á Banda­ríkja­menn varð­andi slíkan samn­ing. Síðan bætir kjör Joe Biden í emb­ætti Banda­ríkja­for­seta ekki samn­ings­stöðu Íhalds­manna. Verði hins vegar af samn­ingum við Banda­ríkja­menn þurfa Bretar að öllum lík­indum að fall­ast á kröfu Banda­ríkj­anna um veru­lega auk­inn inn­flutn­ing á kjöti. Klór­þveg­inn kjúklingur og horm­óna­kjöt hefur hins vegar ekki heillað neyt­endur og yfir­völd í Evr­ópu hingað til. Það kann því enn að vera langt í land að samn­ingar við Banda­ríkin og Kína verði að veru­leika.

En öll þessi umræða um frí­verslun er nokkuð vill­andi og aðeins lít­ill hluti af heild­ar­mynd­inni. Nútíma­við­skipti eru svo miklu meira en við­skipti með hefð­bundndar iðn­að­ar­vör­ur. Þjón­ustu­við­skipti skipta æ stærra máli í alþjóða­við­skipt­um. Undir þjón­ustu­við­skipti falla meðal ann­ars fjár­mála­þjón­usta ýmis­kon­ar, skemmt­ana­iðn­að­ur­inn, ferða­þjón­usta, hug­bún­að­ar­gerð, net­þjón­usta ýmis­kon­ar. Brex­it­samn­ing­ur­inn nær ekki nema að mjög tak­mörk­uðu leyti yfir slík við­skipti. Það er því á engan hátt hægt að bera EES-­samn­ing­inn saman við Brex­it. Megin rökin fyrir EES samn­ingnum eru hindr­un­ar­laus við­skipti, þ.e. ekk­ert heil­brigðis eða toll­eft­ir­lit með vörum á landa­mær­um. Það sparar til dæmis íslenskum útflytj­endum sjáv­ar­af­urða millj­arða á ári. Þess utan leyfir EES þjón­ustu við­skipti yfir landa­mæri sem frí­versl­un­ar­samn­ingar heim­ila ekki, fyrir utan allt frelsi fólks til að velja sér land til að stunda nám og stofna og reka fyr­ir­tæki, og fá sjálf­krafa við­ur­kenn­ingu á starfs­rétt­indum sín­um. Þau rök EES-and­stæð­inga í Nor­egi, sem einnig hafa aðeins heyrst í umræð­unni hér á landi, að Brexit samn­ing­ur­inn geti komið í stað EES stand­ast því enga skoð­un.

Sam­keppn­is­for­skot Breta í fjár­mála­geir­anum er horfið

Bretar hafa hingað til borið ægis­hjálm yfir önnur lönd ESB í fjár­mála­geir­an­um. Á margan hátt nutu þeir sér­stöðu innan Evr­ópu­sam­bands­ins og nýttu sér það til hins ýtrasta. En nú hefur þessu sam­keppn­is­for­skoti verið kippt frá breskum bönkum og trygg­inga­fyr­ir­tækj­um. Ljóst er að bæði störf og tekjur munu fær­ast frá London til ann­arra fjár­mála­mið­stöðva vegna Brex­it. Það er hins vegar ekki enn ljóst hve skell­ur­inn verður stór. Sam­kvæmt end­ur­skoð­un­ar­fyr­ir­tæk­inu Ernst&Young þá hafa þegar tæp­lega 10 þús­und störf færst yfir til Frank­furt, Amster­dam og Par­ís­ar. Ráð­gjafa­fyr­ir­tækið Oli­ver Wyman gaf nýlega út skýrslu og miðað við mis­mun­andi for­sendur þá gætu störfin sem tap­ast í fram­tíð­inni verið á bil­inu 3.500 til 35.000.  Þótt það sé  minna en svart­sýn­ustu spár gerðu ráð fyrir strax eftir kosn­ing­arnar árið 2016 þá er þetta samt mikið áfall fyrir fjár­mála­geir­ann í land­inu. Þess má geta að veltan í kaup­höll­inni í Amster­dam í síð­asta mán­uði var meiri en veltan í kaup­höll­inni í London. Það er í fyrsta skipti sem það ger­ist og er góð vís­bend­ing um þá breyt­ingu sem er að eiga sér stað á fjár­mála­mark­aði í Evr­ópu.

Inn­flytj­endur auð­velt skot­mark fyrir Brex­it-­sinna

Inn­flytj­enda­mál skiptu lík­leg­ast mestu máli í Brex­it-­kosn­ing­un­um. Þar spil­uðu Brex­it-­sinnar á hræðslu almenn­ings við óheftan inn­flutn­ing fólks frá stríðs­hrjáðum löndum Afr­íku og Mið-Aust­ur­landa. Enda stóð flótta­manna­straum­ur­inn frá Mið-Aust­ur­löndum til Evr­ópu sem hæst í aðdrag­anda Brex­it­kosn­ing­anna árið 2016. En hver er sann­leik­ur­inn varð­andi inn­flytj­endur í Bret­land­i?

Innri mark­aður Evr­ópu­sam­bands­ins hefur aukið á hreyf­an­leika vinnu­afls enda er slíkur hreyf­an­leiki mik­il­vægur fyrir hag­vöxt. En nettó inn­flutn­ingur fólks til Bret­lands á árunum 2000-2014 var lægri en til landa eins og Ítal­íu, Spán­ar, Frakk­lands og Þýska­lands. Þar að auki er pró­sentu­hlut­fall inn­flytj­enda frá löndum utan ESB mun hærra í Bret­landi en í öðrum ESB lönd­um. Því til við­bótar hafa inn­flytj­endur í Bret­landi upp til hópa verið með hærra mennt­un­ar­stig og hafa yfir­leitt aðlag­ast bresku sam­fé­lagi vel. Þeir hafa því ekki verið byrði á sam­fé­lag­inu heldur mik­il­vægir þjóð­fé­lags­þegnar og greitt mun meira í skatta og skyldur en sá kostn­aður sem hefur fylgt inn­flytj­endum í mörgum öðrum lönd­um.

Á árunum 2008-2014 féllu ráð­stöf­un­ar­tekjur bresks almenn­ings hins vegar umtals­vert. Einkum voru það þeir sem voru með lægstu tekj­urnar sem fóru illa út úr hrun­inu. Ofan á þetta bætt­ist hús­næð­is­skortur sem hefur hrjáð Bret­land í langan tíma. Sam­kvæmt opin­berum tölum hefur fram­boðið ekki staðið undir eft­ir­spurn í yfir 35 ár. Þetta hefur þýtt að fólk í milli- og lág­stéttum hefur átt í erf­ið­leikum að koma þaki yfir höf­uðið eða þurft að standa undir stig­hækk­andi húsa­leigu. Þrátt fyrir að litlar sem engar rann­sóknir styðji þá kenn­ingu að þetta sé inn­flytj­endum að kenna þá varð þessi þjóð­fé­lags­hópur auð­velt skot­mark.

Heil­brigð­is­kerfið í Bret­landi byggir tölu­vert á erlendu vinnu­afli. Um 14% af starfs­fólki innan NHS voru á síð­asta ári erlendir rík­is­borg­ar­ar. Mikið af heil­brigð­is­starfs­fólki frá A-Evr­ópu hefur hins vegar snúið aftur heim eftir Brexit og nú er svo komið að það vantar um 100 þús­und manns í ýmsar stöður innan NHS. En með Brexit féll niður frjáls flutn­ingur starfs­fólks milli landa og nú þarf að sækja um atvinnu­leyfi fyrir alla erlenda rík­is­borg­ara sem hyggj­ast starfa í Bret­landi. Þetta er ekki síður högg fyrir 1,3 millj­ónir breskra rík­is­borg­ara sem búa og starfa í ESB-lönd­um. Fjöl­margir þeirra, meðal ann­ars Stanley John­son fyrrum Evr­ópu­þing­maður Íhalds­manna og faðir Borisar John­son núver­andi for­sæt­is­ráð­herra Bret­lands, hafa nú afsalað sér breskum rík­is­borg­ara­rétti og fengið evr­ópskan í stað­in. Stanley John­son er til dæmis orð­inn franskur rík­is­borg­ari.

Erlend fjár­fest­ing hefur minnkað

Efna­hags­legar nið­ur­stöður brott­hvarfs Breta úr Evr­ópu­sam­band­inu eru smám saman að koma í ljós. Einkum er það þjón­ustu­geir­inn sem mun líða fyrir þessar breyt­ingar enda er hann ekki nema lít­ill hluti af því sam­komu­lagi sem Bretar og ESB hafa náð. Um 80% af þjóð­ar­fram­leiðslu Breta kemur frá þjón­ustu­við­skiptum þannig að um miklar upp­hæðir er að ræða. Þegar hafa um 10 þús­und störf tap­ast í fjár­mála­hverf­inu í London. Dublin, Frank­furt og Amster­dam eru að styrkja sig sem evr­ópskar fjár­mála­mið­stöðv­ar.

En það er ekki bara þjón­ustu­geir­inn sem hefur fundið fyrir breyt­ing­um. Þrátt fyrir að almennar iðn­að­ar­vörur falli undir samn­ing­inn er ljóst að öll papp­írs­vinna og önnur vinna við toll­skoðun mun hægja á öllum ferl­um. Erlend fjár­fest­ing í breskum fyr­ir­tækjum sem fram­leiða íhluti fyrir evr­ópska bíla hefur til dæmis fallið um 80% und­an­farin þrjú ár. Einnig hafa bíla­fram­leið­endur ákveðið að færa sam­setn­ing­ar­verk­smiðjur sínar frá Bret­landi til landa innan ESB. Nýjasta dæmið er nýr Land Rover-jeppi sem nefn­ist Ineos Grena­dier og hefur verið fram­leiddur í litlum mæli í Wales. Nú á hins vegar að stór­auka fram­leiðsl­una, reisa nýjar verk­smiðj­urnar í Frakk­landi og loka verk­smiðj­unni í Wales. Það grát­bros­lega við þann flutn­ing er að aðal­eig­andi fyr­ir­tæk­is­ins er millj­arða­mær­ing­ur­inn Jim Ratclif­fe, sem var einn af helstu fjár­hags­bak­hjörlum Brex­it-­sinna. En Íslend­ingar þekkja Ratcliffe aðal­lega sem umsvifa­mik­inn eig­anda lax­veiðiáa á Norð­aust­ur­landi.

Höf­undur er með M.Sc. gráðu í Evr­­ópu­fræðum frá London School of Economics, hefur kennt Evr­­ópu­fræði við Háskóla Íslands og hefur starfað að Evr­­ópu­­málum í 26 ár.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 25. febrúar 2021