Vel undirbúin Borgarlína

„Það veit eng­inn hvað þessi Borg­ar­lína er!“ hef­ur maður heyrt sagt. „Hvar á hún að liggja? Er þetta strætó eða lest? Eng­inn virðist geta svarað því!“ Þetta er allt rétt… ef litið er fram­hjá því að vika er síðan gef­in var út 160 blaðsíðna skýrsla, Frumdrög Borg­ar­línu, sem sýn­ir ná­kvæma legu Borg­ar­lín­unn­ar í gegn­um borg­ar­landið, legu stöðva, þversnið gatna og út­færsl­ur ein­staka gatna­móta. Fyr­ir utan þetta er vissu­lega lítið vitað um Borg­ar­lín­una.

Hvert fer hún?

Áhuga­sam­ir geta þannig farið á borg­ar­lin­an.is og hlaðið niður ná­kvæmri og mynd­rænni lýs­ingu á því hvernig Borgalín­an muni keyra niður Ártúns­höfðann, hvernig hún muni tengj­ast inn á Suður­lands­braut og hvaða ak­rein­ar og bíla­stæði muni þurfa að víkja til að hún geti fengið það rými sem þarf. Menn geta séð hvernig Borg­ar­lín­an fer í gegn­um miðbæ­inn, hvar stöðvarn­ar verða staðsett­ar við Há­skól­ann og Land­spít­al­ann, hvernig hún þver­ar Foss­vog­inn og hvaða leið verður far­in á Kárs­nes­inu.

Hvernig lít­ur hún út?

En fyr­ir utan þessa yfir hundrað blaðsíðna löngu, mynd­rænu lýs­ingu er lítið vitað. Og sér­stak­lega af hverju þessi leið hafi verið val­in en ekki önn­ur! Það leiðar­val virðist ekki byggj­ast á neinu… nema 60 blaðsíðna skýrslu COWI-ráðgjafa­fyr­ir­tæk­is­ins frá 2017. Jú, ásamt ít­ar­leg­um til­lög­um Strætó að nýju leiðarneti sem hafa verið í tvö ár í smíðum og lesa má um í skýrslu EFLU-verk­fræðistofu og skoða á vefsíðu Strætó. Já, og raun­ar glæ­nýju um­ferðarlíkani höfuðborg­ar­svæðis­ins sem unnið var af Mann­viti og COWI fyr­ir Vega­gerðina. En fyr­ir utan all­ar þess­ar skýrsl­ur, ný líkön og ít­ar­lega vinnu sér­fræðinga Vega­gerðar­inn­ar og Verk­efna­stofu Borg­ar­línu í nokk­ur ár er enn margt óljóst.

Hvernig er hún fjár­mögnuð?

Til dæm­is fjár­mögn­un­in. Ekk­ert ligg­ur fyr­ir varðandi fjár­mögn­un verk­efn­is­ins. Nema reynd­ar sögu­leg­ur 120 millj­arða sátt­máli milli rík­is og sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu sem út­list­ar ná­kvæm­lega hve miklu skuli kostað til og hvenær. Þá er reynd­ar búið að stofna sér­stakt fé­lag um verk­efnið, setja í það eign­ir, skipa því stjórn og ráða fram­kvæmda­stjóra og starfs­fólk. Ein­ung­is nán­ast all­ir flokk­ar á þingi studdu stofn­un fé­lags­ins. En að öðru leyti er enn margt í lausu lofti varðandi þessi mál.

Hverju skil­ar hún?

Það er lítið vitað um hvort Borg­ar­línu-verk­efnið muni skila ein­hverju til sam­fé­lags­ins. Eina sem við höf­um í hendi til að geta rætt um það af ein­hverju viti er ít­ar­leg 60 blaðsíðna skýrsla um fé­lags­hag­fræðilega grein­ingu á Borg­ar­lín­unni sem bend­ir til að Borg­ar­lín­an skili sam­fé­lag­inu 26 millj­arða ábata yfir 30 ára tíma­bil. En ef við lít­um fram hjá þess­um út­reikn­ing­um, þá gæt­um við al­veg eins verið að kaupa miða í Lottó­inu!

Á hverju keyr­ir hún?

Loks er það orku­gjaf­inn. Það er enn ekk­ert vitað um á hverju þessi Borg­ar­lína mun keyra. „Kol­um?“ kann ein­hver að spyrja. Það er von að fólk spyrji! Því það eina sem við höf­um í hönd­un­um varðandi orku­gjaf­ann er ít­ar­leg margra tuga blaðsíðna Orku­gjafa­skýrsla, gef­in út af Lands­virkj­un og unn­in af Royal Has­kon­ing DHV og VSÓ ráðgjöf. Niðurstaða henn­ar er að valið standi á milli vetn­is eða „plug­in“-raf­magns­lausna. En ef þessi skýrsla er sett til hliðar, þá er flest enn á huldu varðandi orku­mál Borg­ar­lín­unn­ar.Þar sem kald­hæðni skilst ekki alltaf á prenti er rétt að leggja háðtón­inn til hliðar hér í lok pist­ils­ins og segja hlut­ina eins og þeir eru. Það er ekki hægt að halda fram góðu móti að það sé „gríðarlega margt óljóst með Borg­ar­lín­una“. Auðvitað geta á henni verið ýms­ar skoðanir, skárra væri það nú með fram­kvæmd þar sem fyrst áfang­inn einn kost­ar um 25 millj­arða! En fáar samöngu­fram­kvæmd­ir síðustu ára hafa verið jafn­vel und­ir­bún­ar. Fáar jafn­mikið rýnd­ar. Fáar jafn­vel kynnt­ar. Allt við Borg­ar­lín­una er að verða eins ljóst og það get­ur orðið.

Höf­und­ur er borg­ar­full­trúi Viðreisn­ar og vara­formaður skipu­lags- og sam­gönguráðs.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. febrúar 2021