11 mar COvid og COtveir
Það er aðdáunarvert hve heimsbyggðin hefur brugðist vel við heimsfaraldrinum. Tugir lyfjafyrirtækja hafa þróað bóluefni og innan skamms verður búið að bólusetja alla heimsbyggðina. Það er eins og heimurinn hafi fengið bráðatilfelli sem var læknað strax.
Að sama skapi er sorglegt að sjá hve heimsbyggðin bregst hægt við öðru hættuástandi sem er CO2, eða loftslagsváin. Líklega er skýringin sú að hún læðist að okkur smátt og smátt og er ekki enn orðin bráðatilfelli. Óvinurinn er ósýnilegur eins og COVID en veldur ekki skaða strax eins og heimsfaraldurinn. En loftslagsváin gæti haft enn alvarlegri áhrif en COVID sem koma í ljós síðar á öldinni en því er spáð af helstu vísindamönnum heims að heimurinn okkar muni ná að verða bráðatilfelli í loftslagsmálum árið 2050. Loft og sjór hitna stöðugt og höfin súrna. Því þurfum við að bregðast við CO2 eins og við brugðumst við COVID.
Það sem við verðum að gera er að breyta lífsstíl okkar og daglegum venjum. Við þurfum að nýta matinn okkar betur en um þriðjungi matar er hent í dag. Við þurfum að nota minna jarðefnaeldsneyti til ferðalaga og nýta hluti lengur – henda minna. Miklum breytingum er spáð á húsnæðisþörf á næstu árum þegar heimilið breytist í fjarkennslu-, fjarinnkaupa-, fjarþjálfunar- og fjarvinnustað. Við munum í auknum mæli þurfa að reiða okkur á matvæli úr nærumhverfinu. Hagvöxtur verður að byggjast á sjálfbærni í framtíðinni og verða nær eingöngu drifinn áfram af hugviti og nýtingu sjálfbærra auðlinda.
Verum ekki dæmd sem kynslóðin er brást seint og illa við loftslagsvánni. „Af hverju gerðuð þið ekkert?“ verður spurning komandi kynslóða til okkar … ef við bregðumst ekki strax við, eins og við gerðum með COVID.