Ég get sofið, þótt öðrum gangi vel

Benedikt Jóhannesson

Vigdís mín er fuglavinur og setti um helgina út sérunnið kjötfars, einu sinni sem oftar. Ég horfði í gærmorgun út um eldhúsgluggann á tvo skógarþresti sem nörtuðu feimnislega í hleifinn. Allt í einu kom fát á þá og þeir hörfuðu út í trjábeðið og vöfruðu þar um.

„Kemur kötturinn“, hugsaði ég, en kisi var hvergi nærri. Aftur á móti birtist stór svartþröstur á stéttinni. Hann gekk valdsmannslega stóran hring utan um máltíðina, stoppaði aðeins við beðið og smáfuglarnir hurfu lengra inn í runnana. Svo vappaði hann um stéttina, en virtist alls ekki vera svangur, heldur var bara að tryggja að hinir kæmust ekki í veisluna.

Líklega er það eðli dýra og manna að skara eld að eigin köku. En mér hefur alltaf fundist það óeðli hve mörgum líður illa, þegar aðrir ná árangri. Bandaríski rithöfundurinn Gore Vidal sagði: „Í hvert skipti sem einhverjum vini mínum vegnar vel, deyr eitthvað inni í mér.“ Þó að við brosum þegar við lesum þetta könnumst við öll við þessa hugsun. Sumir telja jafnvel að hún gegnsýri samfélagið.

Þegar einhver hagnast af eigin dugnaði og hugviti á frjálsum, opnum markaði, ætti það að vera fagnaðarefni. Sá hinn sami er líklegur til þess að verja vel fengnu fé í umsvif sem leiða til velsældar annarra. Ég nefni tvö dæmi:

Róbert Guðfinnsson efnaðist vel á viðskiptum erlendis og hefur veitt verulegum fjárhæðum í uppbyggingu Siglufjarðar, síns heimabæjar, heimamönnum og gestum til mikillar gleði.

Íslenskur frumkvöðull, Haraldur Þorleifsson, seldi tölvurisanum Twitter fyrirtæki sitt í byrjun árs. Nú hefur verið tilkynnt að settir verði upp í Reykjavík 100 rampar fyrir fólk í hjólastólum í kjölfar söfnunarátaks sem Haraldur setti af stað og styrkti myndarlega. Margir njóta góðs af.

Sagt er að kommúnisminn komi óorði á sjálfan sig, en kapítalistar komi óorði á kapítalismann. Þessu kynntumst við vel hér á landi, þegar auðmenn ætluðu að sigra heiminn, settu Ísland að veði og töpuðu. Enn í dag sjáum við auðjöfra, sem vilja umfram allt sitja einir að kökum, sem þeir hafa komist yfir með umdeilanlegum hætti og helst klekkja á sama tíma á öllum öðrum. Fyrirsögn greinarinnar er höfð eftir Lofti Bjarnasyni útgerðarmanni,  öðlingi sem er löngu dáinn.

Einu sinni mættu rithöfundarnir Kurt Vonnegut og Josep Heller (höfundur Catch 22, einnar vinsælustu bókar allra tíma) í boð hjá bandarískum milljarðamæringi.

Kurt hallaði sér að félaga sínum og sagði: „Hvernig líður þér með það, að gestgjafi okkar græddi meira í gær, heldur en þú fékkst allt í allt fyrir Catch 22?“

Heller svaraði sallarólegur: „Ég hef eitt, sem hann eignast aldrei.“

„Hvað í ósköpunum gæti það verið?“, spurði Vonnegut.

„Nóg“, ansaði Heller.

Líklega liði öllum betur, ef við hugsuðum oftar á þessa lund.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. mars 2021.