Eitraður kokteill

Árið 2020 voru haldnir ófáir blaðamannafundir þar sem ríkisstjórnin trommaði upp aðgerðapakka. Opinber fjárfesting dróst hins vegar saman árið 2020 um 9,3% samkvæmt Hagsjá Landsbanka Íslands. Sú mynd sem blasir við er grafalvarleg. Hundruði milljarða átti að verja í innviði til að koma til móts við þungt högg sem íslenska þjóðin stóð frammi fyrir vegna COVID-19 og sóttvarnaaðgerða. Það studdi Viðreisn. Ríkisstjórnin lofaði auknum útgjöldum, sérstaklega til fjárfestinga í innviðum. Það gerði hún í fjárlögum og fjáraukalögum. Þetta virðist ekki hafa skilað sér út í raunheima. Niðurstaðan er samdráttur.

Viðreisn sagði strax í mars í fyrra að nú væri tími stórra skrefa . Nauðsynlegt væri að fara í stórauknar fjárfestingar í innviðum. Við settum fram ýmsar tillögur til að flýta framkvæmdum eða um ný verkefni. Þær voru allar felldar.

Það skiptir gríðarlega miklu máli hvenær farið er í slíkar aðgerðir. Tíminn fyrir fjárfestingar var árið 2019 og 2020. Tímasetning margboðaðra opinberra fjárfestinga skiptir máli. Ef þær fara af stað á fullum þunga á sama tíma og almenn atvinnuvegafjárfesting tekur við sér, getum við verið að horfa upp á alvarleg, jafnvel kunnugleg hagstjórnarmistök. Og þau verða skrifuð á ríkisstjórnina. Þessi eitraði kokteill gæti leitt til þess að kreppan verði bæði dýpri og þenslan meiri. Niðurstaðan er alltaf sú sama – verðbólga sem heimilin og fyrirtækin í landinu greiða fyrir. Það var væntanlega ekki það sem vakti fyrir ríkisstjórninni en er nú að raungerast.

Ríkisstjórn sem mynduð var um kyrrstöðu hleypur ekki hratt. Ríkisstjórnin hefur enn og aftur sýnt það í verki að hún veldur ekki hlutverki sínu þegar það kemur að hagstjórn landsins. Ríkisstjórnir þurfa að geta fylgt málum sínum úr hlaði. Kosningabaráttan 2016 og 2017 snerist um innviðafjárfestingar og uppsafnaða þörf. Í ljósi þess hefði mátt ætla að ríkisstjórnin yrði tilbúin með plan þegar á reyndi. Reyndin er hins vegar sú þegar kemur að innviðafjárfestingu að það eru fáar ríkisstjórnir sem hafa talað jafn mikið og gert jafn lítið.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. mars 2021