Félagslegt frjálslyndi og íhald

Þorsteinn Pálsson

Ádögunum var ég spurður hvort ég kynni skýringu á því að í einni skoðanakönnun væri borgarstjórn Reykjavíkur á meðal þeirra stofnana sem minnst trausts njóta, en í annarri væru flokkarnir, sem skipa meirihlutann, að auka fylgi sitt umtalsvert.

Tvær stærstu lýðræðisstofnanir samfélagsins, Alþingi og borgarstjórn Reykjavíkur, hafa í meira en áratug notið minna trausts en aðrar opinberar stofnanir. Traust til beggja hefur þó aukist frá því að síðast var kosið. Reyndar eru flestar stofnanir að bæta stöðu sína.

Mismunandi fylgishreyfingar

Hitt er athyglisvert að á þessu kjörtímabili hafa flokkarnir, sem mynda meirihluta á Alþingi, tapað verulegu fylgi, en meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn aukið fylgi sitt umtalsvert. VG er eini flokkurinn, sem er í meirihluta á báðum stöðum. Þau tapa á Alþingi en styrkjast í borgarstjórn.

Oft er það þannig að flokkar í meirihluta tapa fylgi fyrir þá sök eina að flestar ákvarðanir og breytingar eru umdeildar og minnihluti nærist gjarnan á óánægju.

En þessi einfalda og algenga skýring virðist tæplega eiga við um gagnstæðar hreyfingar á fylgi ríkisstjórnarinnar og meirihlutaflokkanna í borgarstjórn.

Athafnir og athafnaleysi

Almenningur er mjög sáttur við að ríkisstjórnin skuli hafa leyft sérfræðingum á sviði sóttvarna að ráða för gegn veirufaraldrinum. Faraldurinn hefur að þessu leyti hjálpað ríkisstjórninni.

Þar að auki hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki staðið fyrir neinum umdeildum breytingum, nema á skipulagi heilbrigðismála. Ágreiningurinn snýst meira um allt hitt, sem þeir hafa látið ógert. Samt tapa þeir.

Þessu er öfugt farið í borgarstjórn. Meirihlutaflokkarnir þar hafa verið í óðaönn að framkvæma nýja stefnu í skipulags- og samgöngumálum. Hún er fjarri því að vera óumdeild og ekki án dæma um handaskol. Eigi að síður eykst fylgi þeirra allra.

Nýr tími og liðinn tími

Stefna ríkisstjórnarinnar er íhaldssöm kyrrstöðustefna: Ferð án fyrirheits. Stefna borgarstjórnarmeirihlutans er frjálslynd, félagsleg framfarastefna: Glögg framtíðarsýn.

Þessi ólíka hugmyndafræði kann að skýra mismunandi gengi ríkisstjórnarflokkanna og meirihlutaflokkanna í borgarstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem er burðarás ríkisstjórnarinnar, sækir nú orðið mest fylgi í elstu aldurshópa kjósenda. Flokkarnir í borgarstjórnarmeirihlutanum eiga hlutfallslega meira fylgi í röðum yngri og miðaldra kjósenda.

Hér, eins og víðast hvar annars staðar, er kallað eftir nýjum lausnum við skipulag borga. Öll framfaraskeið einkennast af átökum milli frjálslyndra og íhaldssamra viðhorfa.

Þegar litið er til þess hvert flokkarnir sækja fylgi sitt er skiljanlegt að borgarstjórnin svari kalli nýs tíma, en ríkisstjórnin slái skjaldborg um óbreytt ástand.

Gæfumunurinn liggur í þessu: Það er einfaldlega ríkari spurn eftir umdeildu og virku félagslegu frjálslyndi en íhaldssamri kyrrstöðu, sem hreyfir ekki við umræðunni.

Sjálfstæðisflokkurinn hjálpar

Skuldastaða borgarsjóðs á þessu kjörtímabili virðist standast allan samanburð við nágrannasveitarfélögin. Það veikir hins vegar ríkisstjórnarflokkana að rekstur ríkissjóðs var orðinn ósjálfbær áður en kreppan skall á.

En meirihlutinn í borgarstjórn er líka að hagnast á brestum í minnihlutaflokkunum. Sjálfstæðisflokkurinn er margklofinn. Einn hluti styður borgarlínu, annar er á móti.

Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn studdi formlega samgöngusáttmálann, sem gerður var við ríkisstjórnina, en talar þó gegn meginefni hans. Fjármálaráðherra hefur það hlutverk að framkvæma sáttmálann, en flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala gegn honum.

Fyrirhafnarlaust hjálpar það líka meirihlutaflokkunum að háværasti talsmaður Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins er kaupmaður úti í bæ. Opinber málflutningur hans er neðan við lægstu skör nafnlausra athugasemda á samfélagsmiðlum. Þetta þynnir rótgróna ímynd Sjálfstæðisflokksins.

Nýja grýlan virkar ekki

Áður fyrr varaði Sjálfstæðisflokkurinn við vinstri stjórnum. En sitjandi við ríkisstjórnarborðið undir forsæti formanns VG er það dauð grýla. Meirihlutamynstrið í borgarstjórn, sem forystuflokkur ríkisstjórnarinnar á reyndar aðild að, er ný grýla.

Í ljósi þess að athafnir borgarstjórnarmeirihlutans eru umdeildari en kyrrstaða ríkisstjórnarinnar er þessi tilraun með nýja grýlu skiljanleg.

En vaxandi fylgi allra flokkanna í meirihluta borgarstjórnar og fallandi fylgi ríkisstjórnarflokkanna, bendir ekki til að nýja grýlan höfði sterkt til kjósenda. Hugsanlega virkar hún öfugt.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. mars 2021