Jaðarflokkastjórn eða miðjan

Þorsteinn Pálsson

Nú er aðeins hálft ár í kosningar. Smám saman skýrist því hvaða stjórnarmyndunarkostir eru í boði og hverjir eru útilokaðir eða fjarlægir.

Samfylkingin hefur útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokk og Miðflokk. Einnig er sennilegt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hugsað brottvikningu fulltrúa Viðreisnar úr stjórn Íslandspósts sem óbein skilaboð til kjósenda sinna um að samstarf við Viðreisn sé ekki á dagskrá.

Möguleikar Sjálfstæðisflokksins

Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn horfir fyrst og fremst til samstarfs við jaðarflokkana lengst til vinstri og hægri. Af flokkunum, sem liggja næst miðjunni, lítur hann bara til Framsóknar.

Í krafti stærðar sinnar á Sjálfstæðisflokkurinn mesta möguleika á að tryggja sér setu við ríkisstjórnarborðið. En útilokun hans sjálfs á öðrum og útilokun annarra á honum gerir það að verkum að hann hefur ekki fyrr verið í jafn þröngri málefnalegri stöðu.

Möguleikar Sjálfstæðisflokksins til þess að hafa áhrif verða því fyrst og fremst fólgnir í því að koma í veg fyrir breytingar. Það er reynslan af núverandi samstarfi jaðarflokkanna þar sem miðjan hefur haft hverfandi áhrif.

Lykilstaða VG

VG er að mörgu leyti í svipaðri stöðu og Framsókn hafði lengi vel þegar hún réði hvort ríkisstjórnir voru myndaðar til hægri eða vinstri.

Í raun breyttist VG úr róttækum vinstri flokki í praktískan þegar þau tóku að sér eftir hrun að framkvæma umfangsmestu íhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum á lýðveldistímanum. Í núverandi samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn hafa engin málefni verið hugmyndafræðilega erfið, en kyrrstaðan oftast verið lausnin, nema í skipulagi heilbrigðismála.

Í ljósi þröngrar málefnastöðu Sjálfstæðisflokksins er líklegast að VG muni hafa mest um það að segja hvers kyns ríkisstjórn verður mynduð. Í byrjun kallaði grasrótin í VG á skýra stefnu en nú skipta völdin hana meira máli. Þetta auðveldar forystu flokksins að taka við gamla hlutverki Framsóknar.

Líklegasta stjórnin

VG hefur hafnað málamiðlunarhugmyndum um að setja í stjórnarskrá ákvæði um að nýtingarréttur að auðlindum í þjóðareign skuli vera tímabundinn. Með því virðist VG vera að útiloka samstarf við Samfylkingu og Viðreisn.

Verði þetta sérhagsmunaákvæði samþykkt kallar það á endurstaðfestingu á nýju þingi eftir kosningar. Missi stjórnarflokkarnir meirihlutann er aðeins ein leið fyrir VG til að tryggja því framgang. Hún er að bjóða Miðflokknum um borð.

Fyrir þær sakir er líklegast að það verði næsta ríkisstjórn.

VG þrengir stöðu sína með því að hafna málamiðlun um auðlindaákvæðið. En væntanlega getur VG tryggt sér áframhaldandi ríkisstjórnarforystu með þessu móti.

Möguleikar miðjunnar

Þeir flokkar sem liggja næst miðjunni eru Framsókn, Samfylking og Viðreisn. Þessir flokkar hafa verið að styrkjast í skoðanakönnunum. Haldi fram sem horfir verður miðjan stærsta mengið á Alþingi.

Flokkarnir þrír hafa ekki útilokað hver annan. En miðjan mun ekki ná áhrifum við stjórnarmyndun í samræmi við stærð nema að minnsta kosti tveir þessara flokka standi saman. Fari einn þeirra með jaðarflokkunum verða miðjuáhrifin hverfandi.

Næðu þeir allir þrír saman gæti miðjan aftur á móti orðið ráðandi. Það yrði vissulega málefnalega snúið. En trúlega gæti það opnað möguleika fyrir Framsókn til að blanda sér á ný í baráttuna um forsætið.

Á dögunum bættist Pírötum liðsauki með þingmanni, sem gekk vinstra megin úr VG. Fyrir vikið geta Píratar ekki, eins og VG, átt aðild að ríkisstjórn, sem styður aðild að Atlantshafsbandalaginu. Þeir hafa með þessu endanlega lokað á aðild að raunhæfum stjórnarmyndunarkostum.

Tveir kostir

Tölfræðin sýnir marga ólíka kosti til stjórnarmyndunar. Pólitísk skoðun bendir hins vegar til að megin línurnar séu bara tvær.

Annars vegar er stjórn jaðarflokkanna yst til hægri og vinstri. Hins vegar er stjórn þar sem tveir eða þrír flokkar úr miðjumenginu yrðu hryggjarstykkið.

Líkurnar á hreinni stjórn til hægri eða vinstri eru mun fjarlægari.

Jaðarflokkastjórn virðist líklegust eins og sakir standa. Miðjuflokkarnir þurfa að styrkja stöðu sína enn frekar fram að kosningum eigi að snúa líkunum við.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. mars 2021