Skiptimyntin Reykjavík

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson þingkonur Viðreisnar í Reykjavík

Ríkis­stjórnin er í bobba með sjálfs­á­kvörðunar­rétt sveitar­fé­laga. Það stefnir til dæmis í að stjórnin verði gerð aftur­reka með frum­varp um lög­bundna sam­einingu sveitar­fé­laga sem og frum­varp um há­lendis­þjóð­garð en bæði málin hafa verið gagn­rýnd fyrir að ganga of nærri rétti sveitar­fé­laga til að ráða eigin málum. Í hópi þeirra sem spyrna hvað fastast við fótum til varnar þessum rétti sveitar­fé­laga eru stjórnar­þing­menn, jafn­vel ráð­herrar.

Nú liggur hins vegar fyrir Al­þingi mál frá sam­göngu­ráð­herra sem hlotið hefur brautar­gengi í þing­flokkum stjórnar­flokkanna, mót­mæla- og fyrir­vara­laust að því er virðist. Í því máli felst heimild til sam­göngu­ráð­herra til að setja skipu­lags­reglur fyrir flug­velli sem gengju framar skipu­lagi sveitar­fé­laga. Reykja­vík yrði þannig ein­fald­lega svipt skipu­lags­valdi á Reykja­víkur­flug­velli. Í því felst grund­vallar­breyting sem er þvert á nú­gildandi lög og um leið þvert á sam­komu­lag ríkis og borgar um fram­tíðar­skipu­lag innan­lands­flugsins.

Skipu­lags­vald sveitar­fé­laga er vita­skuld ekki án tak­markana, en með þessu er verið að setja það for­dæmi að al­mennar skipu­lags­reglur geti vikið lögum til hliðar. Hér er því miður ekki um eina á­hlaup ríkis­stjórnarinnar á sjálfs­á­kvörðunar­rétt Reykja­víkur­borgar að ræða, en þetta er það al­var­legasta.

Í ríkis­stjórn sitja nú fimm þing­menn Reykja­víkur þó þess sjáist sannar­lega ekki glögg merki. Einn ráð­herra í við­bót hefur lýst yfir fram­boði í Reykja­vík í næstu kosningum. Að auki eiga Reyk­víkingar fimm aðra þing­menn í stjórnar­flokkunum þremur.

Kannski gilda önnur lög­mál um Reykja­vík hjá ríkis­stjórnar­flokkunum þremur. Alla­vega virðist um­hyggjan fyrir sjálfs­á­kvörðunar­rétti sveitar­fé­laga ekki ná til höfuð­borgarinnar. Tengist það kannski því að þar stýra aðrir flokkar í um­boði Reyk­víkinga? Getur verið að VG sé til­búið að fórna hags­munum borgar­búa fyrir lof­orð um á­fram­haldandi setu í ríkis­stjórn eftir kosningar? Eru hags­munir Reyk­víkinga bara skipti­mynt hjá þessum þremur flokkum?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. mars 2021