Fall af hvaða hæð?

Munurinn á 30 og 50 km hraða kann að hljóma smávægilegur. Í árekstri er munurinn samt eins og sá að detta af 2. eða 4. hæð. Það er slatti. Flestir lifa fyrra fallið af, fæstir það síðarnefnda.

Tillögur um lækkun umferðarhraða, sem nú hafa verið samþykktar í skipulagsráði Reykjavíkur, ganga út á tvennt. Í fyrsta lagi á að stækka þau svæði þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. Laugardalurinn verður til dæmis samfellt 30 km svæði. Hámarkshraði á Sundlaugavegi lækkar úr 50 í 30 en sú gata þverar fjölfarnar gönguleiðir í skóla, sund og líkamsrækt. Sambærilegar breytingar verða um alla borg: á Flókagötu, Langholtsvegi, Sogavegi, Mosavegi, Rofabæ og Vesturbergi. Til verða stærri og samfelldari 30 km hverfi þar sem betra verður að ganga, hjóla og hlaupa um og krakkarnir verða öruggari.

Í öðru lagi er lagt til að ýmsar tengibrautir, sem í dag hafa 50 km hámarkshraða, verði 40. Þetta eru götur sem liggja í gegnum íbúðahverfi eða þétt við hlið þeirra. Dæmi um slíka götu er Snorrabraut þar sem umferðin hefur lengi verið of hröð og allt of mörg slys hafa orðið. Önnur dæmi eru Suðurgata, Langahlíð, Háaleitisbraut, Arnarbakki, Borgavegur og Vallargrund.

Sambærileg breyting var nýlega gerð á vestasta hluta Hringbrautar, eftir töluvert ákall frá íbúum. Íbúar við Bústaðaveg hafa sömuleiðis kallað eftir lækkun hraða á götunni sem liggur í miðju hverfi. Hraðinn á stofnbrautum á borð við Miklubraut, Kringlumýrarbraut og Vesturlandsveg mun hins vegar ekki breytast.

Eðlilegt er og jákvætt að jafn viðamiklar breytingar og nú eru lagðar til kalli á umræður. Breytingarnar eru hins vegar í takt við alþjóðlega þróun, í takt við almennar óskir íbúa um lægri umferðarhraða og munu skila sér í öruggari og rólegri hverfum fyrir börn og fullorðna.
Eftir nokkur ár mun enginn vilja auka hraðann aftur.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. apríl 2021