Í boði Sjálfstæðisflokksins

Þorsteinn Pálsson

Stjórnsýsla í molum í heilbrigðisráðuneyti.“ Þetta er fyrirsögn á fréttaskýringu í Morgunblaðinu síðastliðinn mánudag. Þar er fjallað um ógöngur heilbrigðisráðherra vegna útgáfu reglugerðar um vistun ferðalanga í sóttvarnarhúsi.

Í fyrstu ætlaði ráðuneytið að halda gögnum um undirbúning málsins leyndum. Það er athyglisvert vegna þess að samstaða fólksins í landinu hefur byggst á prinsippinu um að hafa allar staðreyndir upp á borðum.

Velferðarnefnd Alþingis og fjölmiðlar þvinguðu ráðherra til að birta gögnin. Trúlega hefur það komið í veg fyrir að traust almennings hryndi.

„Eitthvað hræðilegt að“

Allir ráðherrarnir féllust á upphaflegu reglugerðina, sem var í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Það var skynsamleg ákvörðun. En hún leysti heilbrigðisráðherra ekki undan þeirri skyldu að kanna hvort lagaheimild væri til útgáfu hennar.

Fréttaskýring Morgunblaðsins leiðir í ljós að engin athugun af því tagi átti sér stað. Blaðið dregur ályktun af þeirri vanrækslu með því að segja: „þá er eitthvað hræðilegt að.“

Að stærstum hluta skrifast þessi „hræðilega“ staða á reikning heilbrigðisráðherra. En hér þarf líka að hafa í huga aðrar pólitískar aðstæður.

Hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins fylgir í ræðu og riti allt annarri hugmyndafræði um sóttvarnir en ríkisstjórnin.

Óvissa um meirihluta í eigin röðum

Ráðherra hefur sakað Alþingi um að bera ábyrgð á klúðrinu með því að afgreiða endurskoðun sóttvarnarlaga á annan veg en hún hefði kosið. Það kom að vísu ekki fram við afgreiðslu málsins.

En kjarni málsins er sá að ráðherra, sem styðst við raunverulegan þingmeirihluta, þarf ekki að sætta sig við breytingar gegn vilja sínum í meðferð mála á Alþingi. Þegar ráðherra þvær hendur sínar af eigin löggjöf bendir það ótvírætt til að meirihlutinn sé ekki öruggur.

Rétt viðbrögð við niðurstöðu héraðsdóms hefðu verið að fara þegar í stað fram með nauðsynlega lagabreytingu svo að unnt væri að framkvæma þá pólitísku stefnu, sem ráðherrarnir voru búnir að komast að niðurstöðu um að fylgja ætti.

Tvíhyggjan í Sjálfstæðisflokknum

Flest bendir til að tvíhyggjan í Sjálfstæðisflokknum hafi valdið því að ráðherra treysti sér ekki til að fara þessa leið. Hluti þingmanna flokksins styður setu ráðherra, en er andvígur því sem hún gerir.

Af þessu leiðir að svigrúm ráðherra til athafna er meira utan þings en innan.

Sjálfstæðisflokkurinn er með andstæðar skoðanir í mörgum helstu málum. Það á við um aðildina að EES, þriðja orkupakkann og borgarlínu, mestu samgönguframkvæmd í sögunni.

Þegar burðarás stjórnarsamstarfsins er að auki sundraður í sóttvarnaraðgerðum hefur það raunverulegar afleiðingar. Þær eru örlagaríkasta viðfangsefnið, sem upp hefur komið á þessari öld.

Fleiri alvarlegar brotalamir

Mörg fleiri dæmi eru um alvarlegar brotalamir í stjórnsýslu heilbrigðisráðuneytisins.

Þannig beitti ráðherra lækna Landspítalans hótunum á fundi læknaráðs til að stöðva upplýsingar til almennings um biðlista, lokanir deilda, neyðarástand á bráðamóttöku og önnur vandræði á spítalanum skömmu áður en faraldurinn skall á og breytti öllu.

Ráðherra hefur tafið skimanir fyrir ristilkrabbameini í tæp fjögur ár og klúðrað flutningi á skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum.

Nú eru að hefjast uppsagnir á hjúkrunarheimilum með umtalsverðum niðurskurði á þjónustu. Það er annað hvort dæmi um „stjórnsýslu í molum“ eða pólitíska misbeitingu til að knýja fram hugmyndafræðilegar skipulagsbreytingar.

Stuðningur við „stjórnsýslu í molum“

Í fréttaskýringu Morgunblaðsins segir að ráðherra í núverandi stjórn hafi sagt af sér af minna tilefni. Þessu er þó ekki alveg hægt að jafna saman. Þáverandi dómsmálaráðherra sniðgekk aðvörun sérfræðinga í ráðuneytinu og leyndi henni fyrir Alþingi. Heilbrigðisráðherra fékk ekki álit og kallaði ekki eftir því.

Í ljósi þess að reglugerðarklúðrið skýrist að hluta til að minnsta kosti af þeim pólitísku aðstæðum að stærsti stjórnarflokkurinn er tvístraður í þessu stóra máli, eins og mörgum öðrum, er eðlilegt að fleiri axli pólitíska ábyrgð en einn ráðherra.

Heilbrigðisráðherra situr í boði Sjálfstæðisflokksins. Hann leggur til flest atkvæði á Alþingi í stuðningi við „stjórnsýslu í molum.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. apríl 2021