Klofinn Sjálfstæðisflokkur

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra brást við tveim­ur til­lög­um okk­ar í Viðreisn um nýja nálg­un Evr­ópu­mál­anna með grein í Morg­un­blaðinu síðastliðinn fimmtu­dag. Fyr­ir­sögn­ina um „snemm­búið aprílgabb“ tek­ur hann úr leiðara Morg­un­blaðsins, sem skrifaður var af sama til­efni 1. apríl.

Leiðara­opna Morg­un­blaðsins þenn­an dag, sem grein ráðherr­ans birt­ist, er lýs­andi fyr­ir það hvernig komið er fyr­ir Sjálf­stæðis­flokkn­um, sem áður var kjöl­fest­an í ut­an­rík­is­mál­um lands­ins. Nú birt­ist flokk­ur­inn í þessu gam­al­gróna blaði þverklof­inn á einu helsta mála­sviði stjórn­mál­anna.

Með og móti EES

Ut­an­rík­is­ráðherr­ann er í frjáls­lynd­ari armi flokks­ins. Í grein­inni ver hann EES-samn­ing­inn og aðild­ina að innri markaði Evr­ópu­sam­bands­ins með skyn­sam­leg­um rök­um. Við erum sam­mála hon­um um þau.

En rit­stjór­ar Morg­un­blaðsins, sem eru í hug­mynda­fræðilegri for­ystu fyr­ir íhalds­armi flokks­ins, birta leiðara við hliðina á grein ráðherr­ans til að tæta jafn­h­arðan niður rök hans fyr­ir EES.

Þar er tekið und­ir þau sjón­ar­mið að Ísland hafi tapað full­veld­inu með fram­kvæmd samn­ings­ins. For­herðing­in er svo mik­il að blaðið geng­ur í lið með þeim sem halda því fram að aðild Íslands að Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu stríði gegn full­veldi lands­ins.

Það eru þessi öfgaviðhorf í íhalds­armi Sjálf­stæðis­flokks­ins, sem binda hend­ur þeirra sem frjáls­lynd­ari eru. Þegar þeir verja EES-samn­ing­inn er jafn­vel sett ofan í við þá sam­dæg­urs á sömu opnu Morg­un­blaðsins.

Kyrrstaðan held­ur flokkn­um sam­an

Veru­leik­inn er sá að það eru þrjá­tíu og þrjú ár síðan umræður hóf­ust um þátt­töku Íslands í EES. Það var fyr­ir fall múrs­ins. Þetta þýðir að all­ar ákv­arðanir um stöðu lands­ins í fjölþjóðasam­vinnu voru tekn­ar á tím­um kalda stríðsins.

Heim­ur­inn hef­ur bara gjör­breyst á þess­um tíma. En klofn­ing­ur­inn í Sjálf­stæðis­flokkn­um kem­ur í veg fyr­ir að ræða megi hvort unnt sé að taka ný skref í fjölþjóðasam­vinnu til þess að styrkja sam­keppn­is­hæfni Íslands í nýrri heims­mynd.

Kyrrstaðan ein get­ur haldið flokkn­um sam­an. Hún er tek­in fram yfir umræðu, sem leitt get­ur til öfl­ugri hags­muna­gæslu fyr­ir Ísland. Varðstaða um fortíðina verður mik­il­væg­ari en sókn fyr­ir framtíðina.

Sam­mála um hindr­an­ir

Full aðild að Evr­ópu­sam­band­inu er ekki mark­mið í sjálfu sér. Hún er aðeins leið fyr­ir Ísland eins og flest önn­ur Evr­ópu­ríki til þess að ná þeim mark­miðum, sem við horf­um til.

Tök­um dæmi: Verðbólga er átt­föld miðað við Dan­mörku. Vext­ir hér eru um­tals­vert hærri en þar. Geng­is­sveifl­ur eru að mati for­stöðumanna ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækja helsta hindr­un fyr­ir þróun þekk­ing­ariðnaðar. Ísland er eina vest­ræna ríkið sem tek­ur nú er­lend lán í stór­um stíl með geng­isáhættu til að fjár­magna ráðstaf­an­ir vegna kór­ónu­veirunn­ar.

Ut­an­rík­is­ráðherra veit jafn vel og ég að þetta er stór­ar hindr­an­ir. Fyr­ir heim­ili sem fyr­ir­tæki. Þær gera at­vinnu­líf­inu erfiðara um vik að hlaupa hraðar. Um þetta deil­um við ekki.

Ósam­mála um leiðir

Hvernig á þá að bregðast við? Þar skil­ur leiðir.

Ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur ásamt sam­ráðherr­um sín­um lagt fyr­ir þingið að fram­selja vald til Seðlabank­ans til þess að beita jafn víðtæk­um fjár­magns­höft­um og gera þurfti eft­ir hrun. Með öðrum orðum: Það á að setja upp nýj­ar viðskipta­hindr­an­ir því krón­unni er ekki treyst.

Fyrsti áfang­inn í til­lög­um okk­ar í Viðreisn um ný skref í alþjóðasam­vinnu miðar að því að taka upp stöðug­leika­sam­starf í gjald­eyr­is­mál­um við Evr­ópu­sam­bandið. Mark­miðið er að tryggja ís­lensku at­vinnu­lífi sam­bæri­lega sam­keppn­is­stöðu og ná­grann­ar okk­ar njóta.

Með slíku sam­starfi get­um við rutt hindr­un­um úr vegi án þess að taka upp nýj­ar viðskipta­hindr­an­ir. Það eru rík­ir hags­mun­ir.

Að þókn­ast rit­stjór­um

Ut­an­rík­is­ráðherra reyn­ir að þókn­ast rit­stjór­um Morg­un­blaðsins með því að halda því fram að Ísland sé ekki nú þegar aðili að stærst­um hluta Evr­ópu­sam­starfs­ins. Því að við inn­leiðum ekki nema 13,4% af regl­um þess. Ann­ar af rit­stjór­um blaðsins var á sinni tíð fyrst­ur til að nota þessa talna­leik­fimi.

Auðvitað veit ut­an­rík­is­ráðherra að fjöldi laga­reglna er ekki góður mæli­kv­arði á þau um­svif sem að baki búa. Með sömu rök­um væri unnt að halda því fram að ferðaþjón­usta hefði óveru­legt vægi í þjóðarbú­skapn­um af því að rík­is­stjórn­in hef­ur bara flutt eitt frum­varp sem snert­ir þá at­vinnu­grein sér­stak­lega.

Til frek­ari skýr­ing­ar má benda á að flest­ar regl­ur Evr­ópu­sam­bands­ins eru á sviði land­búnaðar. Marg­ar þeirra gilda í stutt­an tíma og eru því sett­ar aft­ur og aft­ur. Á innri markaðnum eru regl­urn­ar í miklu rík­ari mæli til lengri tíma. Af sjálfu leiðir að fjöldi reglna er ekki mæli­kv­arði á um­fangið.

Kyrrstaðan er versti óvin­ur at­vinnu­lífs­ins

Kjarni máls­ins er sá að við lif­um í öðrum heimi en í kalda stríðinu þótt sum­ir vilji halda dauðahaldi í þá tíma. Við stönd­um and­spæn­is nýj­um áskor­un­um til þess að tryggja ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um sömu stöðu og keppi­naut­arn­ir njóta. Ný skref í alþjóðasam­vinnu geta ein­fald­lega hjálpað okk­ur til þess að ná sett­um mark­miðum.

Kyrrstaðan er versti óvin­ur at­vinnu­lífs­ins um þess­ar mund­ir. Það er því hættu­legt að láta klofn­ing­inn í Sjálf­stæðis­flokkn­um ráða því hvaða mál kom­ast á dag­skrá stjórn­mál­anna.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. apríl 2021