Þú hefur ekkert vit á þessu, gæskur!

Benedikt Jóhannesson

Mál­frelsi er ein grunnstoðin í frjálsu lýðræðis­ríki. Eng­um dett­ur í hug að segj­ast op­in­ber­lega vera á móti því. Rök­ræður eru líka frá­bær leið til þess að kalla fram all­ar hliðar máls. Samt er það keppikefli margra að kæfa umræðu í fæðingu og hæðast að sam­ráði. Notuð er and­stæðan við skoðana­skipti, mál­efnið er lagt til hliðar og per­són­ur sett­ar í sviðsljósið og rakkaðar niður.

Í glæ­nýj­um dæm­um er upp­nefn­um, háði og spotti beitt. Gísli Marteinn er í grein kallaður „pjakk­ur“ sem þurfi „að siða til“, „drjúg­ur með sig“ þótt hann sé „far­inn að tapa minni“ og „skvaldr­ar“. Allt er þetta í fyrstu fimm lín­un­um í grein­inni sem var nokkuð löng.

Bubbi Mort­hens lýsti sinni skoðun op­in­ber­lega og var tek­inn föst­um tök­um. Hann fékk föður­leg­ar leiðbein­ing­ar um að hafa ekki vit á mál­un­um (ólíkt auðvitað leiðbein­and­an­um). Snúið var út úr þekktu orðtaki og sagt: „Það hef­ur alltaf gagn­ast að etja fræg­um á foraðið“ og les­end­um eft­ir­látið að rifja upp hvernig mál­tækið var upp­runa­lega. Í lok­in er svo minnt á það und­ir rós að Alþingi og þeir sem þar sitja út­hluta lista­manna­laun­um. Boðskap­ur­inn var: Mundu það Bubbi hvaðan pen­ing­arn­ir koma, áður en þú tal­ar aft­ur um það sem þú hef­ur ekki vit á. Þú ert reynd­ar bara popp­stjarna í eldri kant­in­um og all­ir vita að gaml­ingj­ar vita lítið í sinn haus.

Í sand­kass­an­um í gamla daga var sagt: En hann byrjaði! Full­orðnir vita að það skipt­ir engu. Séu þeir ósam­mála eiga þeir að fjalla um mál­efnið, ekki lít­il­lækka viðmæl­and­ann. Bubbi sagðist reynd­ar hafa verið varaður við því að blanda sér í mál­in.

Það er líka skugga­legt þegar valda­mikl­ir aðilar ráðast af krafti á starfs­menn sem vinna sína vinnu. Eft­ir­lits­hlut­verk og aðhald er alltaf vandmeðfarið og alla má gagn­rýna, sé það gert með mál­efna­leg­um hætti.

Stofn­an­ir eru aldrei óskeik­ul­ar frem­ur en ein­stak­ling­ar. Bæði Rík­is­end­ur­skoðun og Fjár­mála­eft­ir­litið lögðu bless­un sína yfir blekk­ing­ar­leik Ólafs Ólafs­son­ar sem beitti Hauck & Auf­häuser-bank­an­um fyr­ir sig sem lepp, þegar hann keypti hlut í Búnaðarbank­an­um. Niðurstaða þess­ara aðila, sem al­menn­ing­ur átti að geta treyst, var notuð til ít­rekaðra árása stjórn­mála­manna á Vil­hjálm Bjarna­son sem sá í gegn­um blekk­inga­vef­inn.

Árás­ir eru líka stund­um nafn­laus­ar á net­inu og þeir sem fyr­ir verða eiga erfitt með að bera hönd fyr­ir höfuð sér.

Ég spyr eins og Nó­bels­skáldið forðum daga: Get­um við ekki lyft umræðunni upp á ör­lítið hærra plan?

Við búum í rétt­ar­ríki, en ef klekkja þarf á óþægi­leg­um gagn­rýn­end­um gilda aðrar regl­ur. Þeir sem þora að tala sæta árás­um sem valda þeim og þeirra vanda­mönn­um ama og óþæg­ind­um. Mark­miðið er að vara þá og aðra við. Ef þú þegir ekki, veistu á hverju þú átt von. Fólk rit­skoðar sjálft sig eða þegir. Þá er til­gang­in­um náð.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. apríl 2021