Uppvakningar á Alþingi

Stundum rísa hinir dauðu. Stundum eru þingmál svæfð eða felld einungis til að vera vakin aftur af ríkisstjórninni í lítillega breyttri mynd – eða jafnvel óbreyttri mynd. Það er alveg augljóst að markmiðið er að eigna ríkisstjórninni góð mál á kostnað þingmannanna sem hafa unnið að þeim. Þetta er hrikalega leiðinleg pólitík, ýtir undir sundrung og dregur úr afköstum þingsins.

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, birti pistil í gær undir yfirskriftinni „Sama hvaðan gott kemur?“. Þar varpaði hún ljósi á það hvernig frumvarp hennar um vernd barna gegn barnaníðsefni hefur verið svæft í þinginu frá því í nóvember, án nokkurra skýringa. Núna á lokamánuðum þingvetrarins lagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, síðan fram sitt eigið frumvarp sem er efnislega samhljóða frumvarpi Þorbjargar. Þorbjörg spurði því eðlilega hvers vegna dómsmálaráðherra velji þá leið frekar en að styðja frumvarpið sem þegar liggur fyrir þinginu.

Á móti öllu

Davíð Oddsson stærði sig af því að hafa í stjórnarandstöðu staðið gegn öllu því sem meirihlutinn hafði fram að færa, þótt hann væri í hjarta sínu sammála andstæðingum sínum. Jafnvel hann vissi þó betur en að stæra sig af þeirri aðferðafræði þegar hann var sjálfur í meirihluta. Annað má segja um sitjandi ríkisstjórn. Þegar verkefni hennar á kjörtímabilinu eru rýnd kemur nefnilega í ljós að aðferðafræði dómsmálaráðherra í máli Þorbjargar – uppvakningaleiðin – er langt frá því að vera einsdæmi.

Líf eftir dauðann

Ríkisstjórnin hefur oft hafnað þingmálum Viðreisnar en lagt síðan fram sambærileg mál í eigin nafni síðar. Þar má nefna niðurfellingu mannanafnanefndar, afnám fjöldatakmörkunar leigubíla, kaup vistvænna bifreiða hjá ríkinu, tvöfalt lögheimilli barna og afnám verðjöfnunar í útflutningi landbúnaðarafurða. Hér eru náttúrlega ótalin þingmál annarra flokka en Viðreisnar sem hafa hlotið sömu örlög.

Þessi mál eru góð og ég fagna því að þau hafi notið brautargengis á endanum. En það er skrítið að sjá merkimiðann skipta lykilmáli hjá ríkisstjórninni en ekki útkomuna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur nefnilega fram fallegt markmið um breytt vinnubrögð, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Þar skuldbundu stjórnarflokkarnir sig til efla Alþingi með markvissum hætti og að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings.

Það er ekki hægt að sjá á verkum ríkisstjórnarinnar að hún gefi mikið fyrir eigin markmið. Gamaldags pólitík hefur orðið ofan á, á kostnað bættra afkasta og breiðrar sáttar.

Höfundur er aðstoðarmaður þingflokks Viðreisnar.

Greinin birtist fyrst á Vísi 10. apríl 2021