Næstu tíu ár

Við upphaf nýs áratugar er áhugavert að skoða hvernig líf okkar og umhverfi getur orðið eftir tíu ár. Framtíðarspekingar um allan heim eru að fjalla um þetta á netinu og er þeirra niðurstaða þessi í grófum dráttum:

Þú munt örugglega aka rafbíl eftir tíu ár. Hann verður líklega sjálfakandi og tengdur öðrum bílum þannig að engin truflun verður á umferðinni sem fer gegnum gatnamót án umferðarljósa. Nánast öll tæki heimilisins verða nettengd og vörur sem ísskápurinn pantar koma með drónum heim að dyrum. Greiðslukort verða óþörf þar sem þú greiðir með því að brosa í andlitsskanna. Lyklar verða ekki til þar sem síminn þinn opnar hús, bíla, reiðhjól og vinnustaðinn. Allar vörur verða með upplýsingar um kolefnisspor. Matvara framleidd í nærumhverfinu verður því vinsælli og grænmeti kemur frá háreistum gróðurhúsum nálægt þinni byggð. Sólarorka og vindmyllur munu sjá um raforkuframleiðslu í auknum mæli og heimili verða með rafgeymum sem hlaða rafmagni inn á næturtöxtum til notkunar á daginn.

Þú munt vinna fjóra daga í viku, þar af tvo heima hjá þér. Fjarnám og netinnkaup verða allsráðandi. Skjáir verða óþarfir, þeir verða í gleraugum sem við höfum á nefinu. Við verðum með inngróna nema sem fylgjast með heilsu okkar og snjöll salernisskálin mun senda þér heilsugreiningu daglega.

En það sem er alveg öruggt árið 2031 er að þú, ágæti lesandi, verður tíu árum eldri en þú ert í dag. Reiknaðu nú út á hvaða aldri þú og þínir nánustu verða eftir 10 ár.

Njóttu svo áranna sem eru fram undan og gerðu næsta áratug að þeim skemmtilegasta sem þú hefur lifað.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. maí 2021