Verður veiran við völd til 2030?

Benedikt Jóhannesson

For­sæt­is­ráðherra sagði einn dag­inn, þegar regl­ur voru hert­ar, eitt­hvað á þessa leið: „Auðvitað erum við öll pirruð. En þetta er von­andi að verða búið.“ Ég var reynd­ar ekk­ert pirraður, svona er lífið ein­fald­lega í bili. Fjar­fund­ir henta mér ágæt­lega, þeir taka skemmri tíma og eru um­hverf­i­s­vænni en þeir gömlu. Mér fannst ágætt að vera einn á skrif­stof­unni, þegar öll­um var ráðlagt að vera heima og hinir fóru all­ir eft­ir því. Ég var hvergi ör­ugg­ari en þar.

Frelsi er mik­il­vægt, en flest­ir eru til í að draga úr því tíma­bundið og fá ör­yggi í staðinn. En það helsi sem fer verst með fólk og ríkið sjálft er ekki tíma­bundn­ar ferða- og sam­komutak­mark­an­ir, held­ur skulda­fjötr­ar.

Satt að segja hef ég per­sónu­lega aldrei verið sér­stak­lega hrædd­ur við veiruna. Ég held samt að ég hafi farið bæri­lega eft­ir regl­um, forðast marg­menni og haldið mig í hæfi­legri fjar­lægð frá öðrum. Lík­lega var það bara meðfætt kæru­leysi sem olli því að ég var ekk­ert mjög smeyk­ur. En ég hitti líka fáa.

Sem bet­ur fer sluppu flest­ir Íslend­ing­ar við smit og fæst­ir af þeim sem smituðust urðu mjög veik­ir. En nokkr­ir dóu og enn í dag eru sum­ir þeirra sem veikt­ust ekki full­bata.

Sum­ir hafa verið æfir yfir því að ein­hver önn­ur ríki hafi náð að bólu­setja þegna sína hraðar en Íslend­ing­ar. Lík­lega var það frek­ar sótt­hræðsla en öf­und­sýki sem réð þeirri reiði. Sjálf­ur var ég bólu­sett­ur um dag­inn og hef sjald­an hrif­ist eins af skil­virkni land­ans og þann dag. Eft­ir nokkr­ar vik­ur verður búið að bólu­setja nán­ast allt full­orðið fólk á land­inu. Samt dett­ur mér ekki í hug að segja að þessu sé lokið.

At­vinnu­leysi er ennþá mikið og verðbólga sú mesta í mörg ár. Ferðaþjón­ust­an kemst ekki á fullt á þessu ári. Ríki og sveit­ar­fé­lög eru rek­in með mikl­um halla. Krepp­an varð grynnri en ótt­ast var í upp­hafi, en hún gæti fylgt þjóðinni lengi. Því miður var halli á rík­inu árið 2019, þrátt fyr­ir hag­vöxt og enga veiru. Áætlan­ir ganga út á viðvar­andi halla­rekst­ur næstu árin með til­heyr­andi skulda­söfn­un.

Skuld­ir hafa þann leiðin­lega eig­in­leika að þær þarf að borga. Nú heyr­ist það viðhorf að vext­ir séu svo lág­ir að skuld­ir skipti litlu. Ein­hvern­tíma kem­ur samt að því að þeir hækka. Þá verður vaxta­byrðin þyngri og minna eft­ir í þörf mál­efni en nú. Um þetta snýst næsta kjör­tíma­bil.

Við önd­um létt­ar í bili Íslend­ing­ar, því að við telj­um okk­ur sjá til lands í skamm­tíma­bar­átt­unni, en hætt er við því að um leið og sótt­varna­lækn­ir hverf­ur af sviðinu taki seðlabanka­stjóri hans sess sem tíður gest­ur í frétt­um. Vel­ferð þjóðar­inn­ar til lengri tíma felst í því að skuld­ir séu hóf­leg­ar og rekst­ur hins op­in­bera sjálf­bær, án skatt­pín­ing­ar um langa framtíð. Nýt­um krepp­una til þess að bæta sam­fé­lagið, okk­ur og kom­andi kyn­slóðum til far­sæld­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2021