Hvað ætlar þú að gera í ellinni?

Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar, 2. sæti Reykjavík suður 2021

Fólk á mínum aldri hugsar ekki daglega um þessa spurningu. Kannski ættum að gera það.

Um helmingur eigna íslenskra heimila umfram skuldir er í lífeyrissjóðunum. Þetta er öfundsverð og góð staða. Krónan flækir þó málið. Sjóðirnir eru gríðarstórir. Tröllvaxnir miðað við íslenska hagkerfið. Fjárfestingar þeirra geta haft veruleg áhrif á gengi krónunnar. Stöðugt gengi er forgangsáhersla hjá Seðlabankanum. Það var því fyrsta viðbragð bankans að mælast til þess að sjóðirnir gerðu hlé á erlendri fjárfestingu þegar gengi krónunnar tók að veikjast á síðasta ári. Og nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um heimildir Seðlabankans til að beita gjaldeyrishöftum. Höft munu bitna á sjóðunum og takmarka getu þeirra til erlendra fjárfestinga.

Nú er ég mikill stuðningsmaður stöðugs gengis. Sveiflur krónunnar hafa valdið miklum kostnaði og skaða í gegnum tíðina, leitt til óhagstæðra lánskjara fyrirtækja og almennings og óvissu sem gerir allar áætlanir erfiðar og varnir gegn þeim dýrar. Sveiflurnar skaða einnig framtíðartækifæri þjóðarinnar. Þrátt fyrir að Ísland mælist með mestu nýsköpunarþjóðum hefur gengið erfiðlega að byggja upp útflutningsatvinnuvegi á hugviti. Íslenskar útflutningsgreinar byggja fremur á nýtingu staðbundinna auðlinda. Þessu þarf að breyta. Leysa úr læðingi hugvitssemina. Það er best gert með stöðugum gjaldmiðli.

Vandamálið er að Ísland er einkar opið hagkerfi – stór hluti þess sem við framleiðum er neytt erlendis. Að sama skapi er stór hluti þess sem við neytum framleitt erlendis. Ef ég ætla að spara til elliáranna þarf ég að taka tillit til þess að umtalsverður hluti neyslu minnar verður innfluttar vörur. Við framleiðum fyrst og fremst fisk, ál og afþreyingu fyrir heiminn. Við kaupum í staðinn bíla, föt, tæki, mat og allt hitt sem ekki er framleitt á Íslandi. Hluti sparnaðarins míns ætti því að vera í erlendum eignum, sem ég get selt í framtíðinni svo ég geti örugglega átt fyrir þessum innfluttu vörum.

Meginhluti einkasparnaðar einstaklinga er í húsnæði. Annað er ekki raunhæft fyrir flest okkar. Við treystum á lífeyrissjóðina að tryggja okkur framfærslu. Það fellur því einhliða á þá að dreifa áhættunni fyrir okkur. Í ítarlegri og góðri úttekt sinni um þessi mál komast þeir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson að þeirri niðurstöðu að það sé forgangsmál að auka áhættudreifingu lífeyrissjóðanna, sérstaklega með erlendri fjárfestingu. Þetta tel ég hárrétt.

Hvað er þá til ráða? Gjaldeyrishöft er ekki eina leiðin til að stuðla að stöðugu gengi. Hægt er að fara aðra leið – leið samvinnu í peningamálum. Það hafa Danir gert áratugum saman með góðum árangri. Sú leið er ekki gallalaus. Hún kallar á samstöðu ríkis og aðila vinnumarkaðarins um stöðugleika. Spurningin er: hvort hugnast þér? Samstaða um stöðugleika og samvinna í peningamálum eða höft? Hvað hafðir þú hugsað þér að gera í ellinni?

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 3. júní 2021