Loksins afreksstefna

Ásíðasta degi þessa þingvetrar samþykkti Alþingi einróma þingsályktunartillögu mína um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum. Í því felst að mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið falið af Alþingi að móta stefnuna í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélög landsins og skila af sér fyrir 1. júní 2022. Stefnan skal vera tímasett samhliða því sem tryggður verður fjárhagslegur stuðningur við afreksfólkið.

Síðastliðinn áratug hefur íslenskt afreksíþróttafólk reglulega vakið athygli á slæmri fjárhags- og réttindastöðu sinni. Ekki eingöngu hefur verið erfitt fyrir afreksíþróttafólk að fjármagna keppnis- og æfingaferðir, heldur hafa þeir styrkir sem hafa fengist ekki verið skilgreindir sem laun með tilheyrandi réttindum. Þessi hópur stendur því gjarnan uppi eftir að afreksíþróttaferlinum lýkur með skuldir á bakinu og án lífeyrisréttinda, stéttarfélagsaðildar, atvinnuleysisbótaréttar, aðgengis að sjúkra- og starfsmenntasjóðum eða réttinda til fæðingarorlofs, svo að eitthvað sé nefnt.

Í afreksstefnu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands kemur fram að sambandið skuli á hverjum tíma skilgreina viðmið afreka í samvinnu við hvert sérsamband en um framúrskarandi íþróttafólk sé þá fyrst að ræða þegar einstaklingur eða flokkur skipar sér með árangri sínum í fremstu röð í heiminum. Afreksfólk séu þeir einstaklingar eða flokkar sem standast viðmið í viðkomandi íþróttagrein skilgreindum af viðkomandi sérsambandi.

Íslendingar hafa í gegnum tíðina átt margt afreksíþróttafólk, hvort heldur í hópíþróttum eða einstaklingsíþróttum. Afreksfólk sem hefur gert okkur stolt með frábærum árangri á alþjóðavísu auk þess að vera mikilvæg fyrirmynd fyrir börn og ungmenni. Fyrirmyndir á þessu sviði eru ómetanlegar fyrir allt forvarnastarf og fyrir uppbyggingu íþróttastarfs um allt land. Þessa þætti má telja mikilvægari en nokkru sinni fyrr þegar kannanir sýna að rúmlega 80% íslenskra barna á aldrinum 11-17 ára fá ekki næga hreyfingu á degi hverjum sem hefur ekki eingöngu áhrif á líkamsburði heldur líka þroska heilans.

Það er því ekki að undra að Alþingi vilji styðja við afreksíþróttastarf. Gleðilegt íþróttasumar!

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. júní 2021