Mik­il­væg­ir mæl­i­kvarð­ar

Ég hef velt því fyrir mér hvaða þrír mæli­kvarðar skipta mestu máli í dag­legu lífi. Hér eru nokkur dæmi:

Karl­menn á mínum aldri þurfa að huga að því að PSA-gildið í blöðru­háls­kirtlinum sé undir 4, að blóð­þrýstingurinn sé ekki yfir 80/120 og að BMI stuðullinn fari ekki yfir 30 þegar staðið er á bað­voginni.

Þegar við ökum bíl þurfum við að vita að tankurinn/raf­hlaðan dugi til að komast á leiðar­enda, hvort ekið sé á lög­legum hraða og að allir far­þegar séu í bíl­beltum.

Í heimilis­bók­haldi þarf að huga að því að tekjur dugi fyrir út­gjöldum, að sparnaður tryggi á­hyggju­lausa fram­tíð og að tryggingar dekki á­hættu af ó­væntum at­vikum.

Stjórn­mála­menn þurfa að segja satt, huga að fram­tíðinni og virða stjórnar­skrána og stjórn­völd þurfa að tryggja jafn­rétti, al­manna­hag og að inn­viðir landsins séu í lagi.

John F. Kenne­dy sagði að friður væri mann­réttindi á þremur sviðum: að allir fái að lifa án ótta við ham­farir, að allir fái að anda að sér hreinu lofti og að fram­tíðar­kyn­slóðir ættu rétt á heil­brigðu lífi.

Í dag er einn mæli­kvarði sem við verðum að huga að, en það er styrkur kol­tví­sýrings í and­rúms­loftinu sem við öll öndum að okkur. Hann var kringum 280 (ppm) síðustu milljón árin og fram að iðn­byltingu. Styrkurinn fór upp fyrir 400 árið 2016 og er í dag 419. Var­færin spá IPCC stofnunar SÞ segir að hann fari í 540 um næstu alda­mót. Við 700 ppm leggst allt líf af á jörðinni að mati vísinda­manna.

Hugum því að þessum mikil­vægasta mæli­kvarða á milli þess sem við skoðum töluna á bað­voginni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní 2021