Ekkert gerist í íhaldi

Alþingiskosningar eru handan við hornið. Skoðanakannanir benda til þess að enginn hafi skýrt umboð kjósenda til þess að taka við stjórnartaumunum. Því skiptir hver einasta prósenta öllu máli upp á það hverjir mynda meirihluta og móta þannig farveg Íslands næstu fjögur árin.

Undanfarin kjörtímabil hafa gert það að verkum að hugmyndin um vinstri og hægri skiptir minna máli en nokkru sinni fyrr. Þess í stað má greina flokka í sundur eftir því hversu frjálslyndir þeir eru annars vegar og svo hversu íhaldssamir þeir eru hins vegar. Frjálslyndið virðist vera eftirsóknarvert í ljósi þess að nær allir flokkar reyna að eigna sér þann stimpil. Engu að síður treysta ekki allir flokkar neytendum til að velja sjálfir hvað þeir kaupa í matvöruverslunum, hvernig þeir ferðast á milli staða eða einfaldlega hvernig og hversu lengi þeir skemmta sér. Þá eru allnokkrir flokkar sem kjósa frekar áframhaldandi stríð við fíkniefni þrátt fyrir að það stríð sé ósigrandi. Í raun uppfylla ekki margir flokkar skilyrði frjálslyndis.

Breytingar standa gegn íhaldssömum gildum, enda er þægilegra að rugga ekki bátnum heldur tryggja frekar stöðugleika með kyrrstöðu. Það var á þessum forsendum sem núverandi ríkisstjórn var mynduð. Þótt ríkisstjórnarflokkarnir séu á öndverðum meiði á mælikvarða hægri og vinstri hefur það skipt sáralitlu því þeir ná allir saman um íhaldssemi: Að hrófla ekki við kerfinu að neinu leyti. Slík hefur verið raunin í bráðum fjögur ár. Kyrrstaðan hefur ekkert gert til að gera lífið frjálsara, réttlátara og einfaldara.

Einn flokkur hefur mælst hæstur allra í kosningavitum þegar kemur að frjálslyndi og auk þess talað fyrir margvíslegum frelsismálum á yfirstandandi kjörtímabili. Sá flokkur er Viðreisn. Miðað við skoðanakannanir skiptir hvert einasta atkvæði máli upp á það hvort Viðreisn takist að mynda meirihluta um frjálslyndi, framfarir og mannúð án forræðishyggju frekar en áframhaldandi stöðnun. Í haust getur þú haft áhrif á það með atkvæði þínu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. júlí 2021