Komast börnin í skólann?

Það eru blikur á lofti. Léttir skýjahnoðrar sem fyrir tæpum mánuði leyndust úti við sjóndeildarhringinn hafa færst nær, dökknað og hóta nú úrhelli. Það eru gríðarleg vonbrigði fyrir þjóð sem hafði mætt í bólusetningu, glaðst yfir góðu skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og fundið réttilega til sín vegna óumdeilds samtakamáttar. En nú er bara að fylkja liði enn og aftur. Við erum jú öll í þessu saman.

Efst á plani B hlýtur að vera hvernig réttur barna til skólagöngu verður tryggður. Eru stjórnvöld kannski að skoða bólusetningu þeirra sem eru yngri en 16 ára? Hvaða sjónarmið takast þar á og hver eru líklegust til að verða ofan á? Hvað hefur menntamálaráðherra gert í vor og sumar til að undirbúa þá áskorun sem kennarar og nemendur standa frammi fyrir í ágústmánuði? Því verður seint trúað að enn og aftur sé kastað til höndum við verkefni sem varða ungu kynslóðina, kynslóð sem stefnir því miður í að fari í sögubækurnar sem hin týnda kynslóð Covid tímans.

Hvert er plan B að öðru leyti? Því miður bendir allt til að þrátt fyrir að 17 mánuðir séu frá því að glíman við heimsfaraldurinn hófst hafi ríkisstjórnin ekkert slíkt plan átt til og lítið gert til að búa sig undir hið óvænta. Mögulega verður orðið sviðsmynd eitt þreyttasta orð Covid tímans þegar við lítum til baka eftir einhver ár eða áratugi. En það breytir því ekki að við þurfum stjórnvöld sem draga upp ólíkar sviðsmyndir, vega þær og meta. Stjórnvöld sem hafa tiltækar hugmyndir um hvernig bregðast skuli við mismunandi aðstæðum og skapa þannig einhverja vissu fyrir fólkið í landinu í þessum veruleika heimsfaraldurs.

Núna er brýnast að gera grein fyrir hvernig skólastarfi verður háttað. Hvað eigi að gera ef staðan verður óbreytt, verri eða skárri. Þetta er próf sem ríkisstjórnin getur ekki leyft sér að falla á.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. júlí 2021