Förum frá jöðrunum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar

Reynslan sýnir að nú er kominn tími til að miðjan í íslenskri pólitík fái raunveruleg áhrif við ríkisstjórnarborðið. Til þess að svo megi verða þurfa flokkarnir sem standa næst miðjunni frá hægri og vinstri að fá fleiri þingsæti en síðast. Annars heldur stjórn vinstri og hægri jaðranna áfram. Og ekkert breytist.

Jaðrarnir í ríkisstjórninni sömdu aldrei um málamiðlun. Þeir leystu dæmið með því að gefa ráðherrum hver annars frjálsar hendur til að fara sínu fram. Þess vegna varð engin stjórnarstefna til. Sjálfstæðisflokkurinn fékk áfram að koma í veg fyrir að auðlindagjald myndaðist á markaði í sjávarútvegi. VG fékk hins vegar óhindrað að stýra heilbrigðiskerfinu með gömlum öfga vinstri kreddum og klisjum.

Sýnilegustu undantekningarnar frá þessu voru að Sjálfstæðisflokkurinn gat í krafti stærðar sinnar komið í veg fyrir þær stjórnarskrárbreytingar sem þjóðin kallar eftir, svo ekki sé talað um alvöru aðgerðir í loftslagsmálum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í fjögur ár setið í ríkisstjórn undir forystu þess flokks sem er lengst til vinstri á Alþingi. Hann segir nú að kosningarnar snúist um að koma í veg fyrir vinstri stjórn. Látum duga að brosa góðlátlega að því.

Skoðanakannanir benda hins vegar til þess að við fáum nýjan flokk lengst til vinstri næsta kjörtímabil. Ég get því tekið undir aðvaranir um hreina vinstri stjórn. Þar munu hvorki hugsjónir um alþjóðasamvinnu né frjálslyndi ráða för. En frá mínum bæjardyrum séð er hrein íhalds hægristjórn heldur ekki svarið. Flokkarnir næst miðjunni eiga hægar um vik að gera raunverulegar málamiðlanir og ná saman um stefnu í stað stjórnarflokkanna sem fara nú hver í sína áttina. Verkefni næsta áratugar kallar á markvissan stjórnarsáttmála.

Við í Viðreisn útilokum ekki samstarf við flokka eins og VG og Sjálfstæðisflokk. Við teljum bara að þunginn í áhrifunum við ríkisstjórnarborðið þurfi að liggja sem næst miðjunni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. ágúst 2021